Mannréttindi

DROPINN HOLAR STEININN

Forsetakosningarnar 2012

Þegar ég var lítil fannst mér gríðarlegt óréttlæti í því fólgið ég mætti ekki kjósa fyrr en ég yrði 18 ára. Í forsetakosningunum 1996 (þá 10 ára) var það alveg að fara með mig að fá ekki að kjósa konu sem forseta og reifst ég rétt fyrir kosningar við alla hugsanlega ættingja í grillveislu um mikilvægi þess. Ég sat þó heima með sárt ennið þegar foreldrar mínir fóru á kjörstað en fylgdist hálfsofandi (ég var samt vakandi sko!) með kosningavökunni fram undir morgun. Ég hlakkaði óendanlega mikið til þess dags þegar kæmi að því að ég teldist nógu fullorðin til að kjósa.

Svo kom að því og ég undirbjó mig vel. Ég las heimasíður allra flokka til hins ýtrasta, heimsótti nokkra og tók svo ákvörðun. Þegar ég kom svo á kjörstað þurfti ég að velja fulltrúa kjörstjórnar til að aðstoða mig en það kom mér algjörlega í opna skjöldu (gleymdi að lesa kosningalögin til að finna það út að þau brytu mannréttindi. Bjáninn ég!). Það kom mér í opna skjöldu einfaldlega vegna þess að ég trúði því ekki að árið 2006 væri ég ekki talin nægilega hæf til að velja þann sem ég treysti best til að aðstoða mig. Alla fulltrúa kjörstjórnar þekkti ég eða kannaðist við úr sveitarfélagi mínu, vissi t.d. hvað sumir þeirra myndu kjósa, og þótti það ekkert lítið óþægilegt að þiggja aðstoð frá þeim. Ég maldaði eitthvað í móinn en allt kom fyrir ekki – lög skyldu standa. Ég streittist lítið á móti og lét það yfir mig ganga, bæði vegna þess að ég þekkti illa rétt minn og vegna þess að ég bar ekki nógu mikla virðingu fyrir sjálfri mér. Allar götur síðan hef ég ekki þolað þessa daga og kviðið því að mæta á kjörstað. Ekki af því að skammast mín fyrir hvað ég kýs heldur vegna þess að mér finnst það vera mitt að velja hvort ég deili því með öðrum eða ekki.

Fyrir stjórnlagaþingskosningarnar 2010 náði Blindrafélagið því fram að blint fólk og fólk sem ekki gæti notað hönd sína mætti kjósa með aðstoðarmanneskju að eigin vali. Á sama tíma sendi ég innanríkisráðherra póst um þetta efni. Ég taldi að fyrst þetta væri komið í gegn þarna væri ekkert til fyrirstöðu að halda þessu áfram en annað kom á daginn. Það gleymdist að gera lagabreytinguna til að festa þetta í sessi og kom það í ljós rétt fyrir forsetakosningar í sumar er Blindrafélagið gekk á Innanríkisráðuneytið.

Blindrafélagið lét sér segjast. Ég var ekki tilbúin til þess. Ég fór í viðtöl í fjölmiðlum, sendi póst á þingmenn og mörgum ,,þótti þetta leitt” en voru ekki tilbúnir að gera neitt – nema afsaka sig. Eins og það breytti einhverju fyrir fatlaða kjósendur. Það er skýrt í núverandi stjórnarskrá okkar að kosningar skulu vera leynilegar, að virða skuli einkalíf fólks og að ekki megi mismuna fólki á grundvelli ,,stöðu að öðru leiti” en undir það flokkast fötlun. Í fyrsta mannréttindasamningi 21. aldarinnar, Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland undirritaði 2006 (sem gerir þá kröfu á stjórnvöld að mega ekki ganga gegn ákvæðum hans) en hefur ekki fullgilt segir m.a. í 29. grein um þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi að:

States Parties shall guarantee to persons with disabilities political rights and the opportunity to enjoy them on an equal basis with others, and shall undertake:

a) To ensure that persons with disabilities can effectively and fully participate in political and public life on an equal basis with others, directly or through freely chosen representatives, including the right and opportunity for persons with disabilities to vote and be elected, inter alia, by:

  1.                         i.         Ensuring that voting procedures, facilities and materials are appropriate, accessible and easy to understand and use;
  2.                       ii.         Protecting the right of persons with disabilities to vote by secret ballot in elections and public referendums without intimidation, and to stand for elections, to effectively hold office and perform all public functions at all levels of government, facilitating the use of assistive and new technologies where appropriate;
  3.                      iii.         Guaranteeing the free expression of the will of persons with disabilities as electors and to this end, where necessary, at their request, allowing assistance in voting by a person of their own choice;

Ég ákvað þess vegna að vera ekki í mótsögn við það sem ég stend fyrir og neita að kjósa með aðstoð frá fulltrúa kjörstjórnar og sleppa því að kjósa ef ég fengi ekki að fá aðstoð frá minni aðstoðarkonu. Ég þurfti þess reyndar ekki, líklega þökk sé tilviljanakenndri réttlætiskennd formanns kjörstjórnar, sem fékk sig ekki til að vísa mér á dyr og gaf mér færi á að kjósa með aðstoðarkonu minni (þó í hans viðurvist). Ég fór þó döpur út því ég vissi að það yrði líklega um fá slík dæmi að ræða. Annað fólk sem þurfti aðstoð yrði þvingað inn í kjörklefan með fulltrúa kjörstjórnar, kysi ekki eða mætti ekki yfirleitt.

Þó var hægt að nýta þetta atvik til þess að kæra kosninguna sökum mismununar milli fatlaðs fólks og var það gert af tveimur fötluðum manneskjum, Rúnari Birni Herrera og Ásdísi Jennu Ástráðsdóttur, í samstarfi við ÖBÍ. Þó kosningin hafi ekki verið dæmd ógild tel ég þetta hafa verið það skásta í stöðunni því það er löngu komin tími til að setja stjórnvöldum mörk. Skilaboðin í sinnuleysi ráðherra og alþingis gáfu okkur skýr skilaboð um að atkvæði okkar skiptu minna máli og að við værum því ekki jafn mikilvægir kjósendur.

11. október sl. var lögunum breytt á Alþingi þannig að ákveðin hópur fatlaðs fólks getur nú valið eigin aðstoðarmann. Ég hef margt út á útfærsluna að setja, t.d. að fólk þurfi að geta með skýrum hætti tjáð vilja sinn (við tölum öll mismunandi og það hefur ekkert að gera með hæfni okkar til að velja), að gera þurfi hlé á kjörfundi á meðan gengið er frá leyfi fyrir valinn aðstoðarmann í stað þess að það fari fram annars staðar og að þetta leyfi sé eingöngu bundið við fólk sem ekki sér og getur ekki notað hönd sína. Það eru fleiri sem þurfa aðstoð til að geta kosið, t.d. fólk með þroskahömlun. Þessu kom ég til skila skriflega fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar, samvinnufélags fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð, sem ég starfa fyrir. Jafnframt fylgdi ég umsögninni eftir á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Lítið sem ekkert var tekið til greina og harma ég, að eina ferðina enn, skuli stjórnvöld klikka á að leita samráðs frá upphafi ferilsins. Það er ekki nóg að bjóða okkur í kurteysisheimsókn í lokin til að geta sagst hafa haft samráð.

það sýndi sig þegar ég fór og kaus að útfærslan er klaufaleg og myndaðist mikið ,,scene” þegar kom að mér, starfsfólkið á kjörstað gerði sitt besta en var ringlað og illa undirbúið sem gerði það að verkum að þetta tók alltof langan tíma og mikil biðröð myndaðist á eftir mér því stoppa þurfti kjörfundinn. Það er aðgreinandi í sjálfu sér að vera ,,vesenið” þegar það er hægt að fara aðrar leiðir. Eitt af meginmarkmiðum Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er að draga úr aðgreiningu, svo því sé haldið til haga.

En það var, þrátt fyrir allt, frelsandi tilfinning að fara með eigin aðstoðarkonu sem hefur skrifað undir þagnarskyldu hjá mér í upphafi starfs og sem ég treysti í kjörklefan og þannig greiða atkvæði mitt leynilega. Það var ekki verra að um væri að ræða kosningar um frumvarp stjórnlagaráðs sem skiptir mig öllu máli að nái fram að ganga.

Dropinn holar steininn – verkinu er ekki lokið. Það þarf að halda áfram að stuðla að almennilegri kosningalöggjöf sem skapar aðstæður fyrir fatlað fólk, óháð skerðingu, til að taka þátt í pólitísku starfi, kjósa og bjóða sig fram með þeim hætti sem er ekki letjandi né grefur undan mannlegri reisn okkar. Það tel ég vera verkefni sem fatlað fólk, hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Innanríkisráðuneytið, Alþingi og allir stjórnmálaflokkar á að vinna að saman. Það krefst frekari lagabreytinga, beinna aðgerða og upplýstrar umræðu. Það þarf að vinna þetta með þeim hætti að 29. grein Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hríslist inn í starf allra þessara aðila með þeim afleiðingum að réttur fatlaðs fólks til þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi sé svo eðlilegur og sjálfsagður að okkur finnist bjánalegt að þurfa að ræða það.

Það eru sex mánuðir í næstu kosningar. Höldum áfram og náum árangri – fyrir alla.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s