Staðalímyndir

BAROCK OBAMA OG HEIÐURSMERKIÐ SEM ANN COULTER GAF HONUM

John Franklin Stephens

Þann 23. október sl. birti Ann Coulter, virtur (af mörgum) pólitískur álitsgjafi, rithöfundur og pistlahöfundur í Bandaríkjunum tvö tweet á Twitter þar sem hún gaf það út að henni finndist Barock Obama og kjósendur hans vera ,,retarded” eða eins og íslensk orðabók skilgreinir orðið þroskaheftur.

Vöktu orð hennar sterk viðbrögð, ekki síst frá fólki með þroskahömlun og foreldrum barna með þroskahömlun. John Franklin Stephens, sem er afreksíþróttamaður með downs heilkenni skrifaði Coulter opið bréf sem hefur farið eins og eldur í sinu um netheima, m.a. um facebook síður Íslendinga.

Stephens gagnrýnir Caulter fyrir að nota orðið þroskaheftur sem hugtak til að móðga annað fólk. Hann segist þurfa að glýma við samfélagsleg viðhorf dag hvern sem skilgreina hann sem heimskan og grunnhygginn, sem hann sé augljóslega ekki, þó það taki hann lengri tíma að meðtaka upplýsingar en fólk sem er ekki með þroskahömlun. Hann bendir á að það sem fólk með þroskahömlun geti átt sameiginlegt er að vera strítt í skóla af ,,fólki eins og henni” en ná samt miklum árangri í sínu lífi, fá lélega heilbrigðisþjónustu, vera í slæmri fjárhagslegri stöðu og búa í lélegum húsum. Því spyr hann Coulter hvort hún hafi haft áhyggjur af því að Barock Obama væri í slíkum aðstæðum. Hann segir þó að hann viti að orðið þroskaheftur sé notað af henni sem skammaryrði á Twitter með þeim tilgangi að niðra forsetan og halda að hún komist upp með það. Hann segir að endingu að Coulter og samfélagið allt þurfi að skilja að það að kalla einhvern þroskaheftan ætti í raun að vera álitið mikið heiðursmerki sökum allra þeirra samfélagslegu hindrana sem skapaðar eru af mannavöldum og fólk með þroskahömlun þarf að yfirstíga.

Dan Niblock, faðir fjögurra ára drengs með downs heilkenni, skrifar einnig grein þar sem hann krefst þess að Ann Coulter biðjist afsökunar. Hann segist heyra orðið retard notað viðstöðulaust um eitthvað sem er kjánalegt, ljótt, skrítið eða bilað. Hann segir að eitthvað deyji innra með sér í hvert sinn sem hann heyri hvað fólki, eins og Coulter, finnst sjálfsagt og eðlilegt að nota fötlunarhugtak til að lýsa einhverju sem er heimskulegt eða gallað. Hann segist eiga erfitt með að skilja hvers vegna margt fólk stórmóðgast ef það fær ábendingu um að talsmáti af þessu tagi sé niðurlægjandi fyrir fólk með þroskahömlun, ,,eins og það muni ekki komast lífs af ef það fær ekki að halda þessum orðum inn í talsmáta sínum.” Hann tekur fram að honum þætti vænt um ef að fólk hætti að nota þroskahömlun sem neikvætt lýsingarorð. Jafnframt að það hætti að láta eins og það sé í lagi að viðhalda hatursorðræðu af þessu tagi í samfélaginu því að það viðheldur þeim hugmyndum um að fólk með þroskahömlun sé gallað og heimskt, sem veldur því m.a. að fólki með þroskahömlun er mismunað og það fordæmt á hverjum degi.

Ann Coulter svarar málefnalega. Eða þannig. Hún telur fólk eins og ofangreinda vera ,,árásargjörn fórnarlömb” (e. aggressive victims) sem séu að leggja sig í einelti fyrir orðaval sitt. Hún segist aldrei nota orðið ,,þroskaheftur” yfir fólk með þroskahömlun (athyglisvert) og að hún hafi ekki verið að niðurlægja fólk með downs heilkenni (eins og það sé eina þroskahömlunin sem til er í heiminum). Hún spyr svo hvaðan fólk haldi að t.d. orðið fáviti (e. idiot) komi en útskýrir það ekki frekar en gefur til kynna að það tengist ekkert þroskahömlun. Skemmst er frá því að segja að The New American Oxford Dictionary skilgreinir idiot sem ,,a stupid person” (ísl. heimsk manneskja) og ,,a mentally handicapped person” (ísl. andlega fötluð manneskja). Orðið retard skilgreinir sama orðabók í flokki sagnorða sem ,,delay or hold back in terms of progress, development, or accomplishment” (ísl. seinkun á framförum, þroska eða árangri) og í flokki nafnorða sem offensive (móðgandi) og ,,a mentally handicapped person” (andlega fötluð manneskja). En Coulter hefur kannski ekki legið yfir orðabókum, blessunin, enda svosem ekki besta lesningin því þroskahömlun hefur lítið að gera með skort á framförum, þroska og árangri. Ég þekki bara fólk með þroskahömlun sem er þroskað (yfirleitt þroskaðara en ég), nær stöðugum framförum og árangri í sínu lífi ef tækifærin eru sköpuð til þess. Líkt og í lífi okkar allra.

En Coulter gefst ekki upp og telur að orðið retard hafi verið notað sem hugtak yfir loser (aumingi) í 30 ár og hafi ekkert með þroskahömlun að gera. Í því ljósi er athyglisvert að benda á að í fornum bókum, t.d. í Íslendingasögum, eru þessi orð (aumingi, fáviti, örviti o.fl.) notuð til að lýsa fólki með andlegar skerðingar. Jafnframt eru þessi orð, í nútíma bókmenntum og öðru fjölmiðlaefni á Íslandi, einkum bíómyndum, notuð til að lýsa fólki eða hlutum sem eru ,,ekki í lagi.” Það sama gildir erlendis.

En af hverju skiptir þetta mig máli? Af því að á hverjum degi heyri ég orðin þroskaheftur, vangefinn og mongólíti notuð til að niðurlægja fólk þrátt fyrir að fólk með þroskahömlun út um allan heim hafi ítrekað beðið heiminn að hætta því. Ég heyri/sé það notað í þessum tilgangi af litlum krökkum, unglingum, jafnöldrum, fólki á miðjum aldri og ömmum og öfum. Ég heyri það notað af afgreiðslumanninum í matvörubúðinni, stjórnmálamanni á alþingi, frægum leikara, vinsælum rithöfundi, bankastarfsmanni, femínista á bloggi og ættingjum á facebook. Það sem verra er er að ef ég bendi á það kurteysislega að orðaval af þessu tagi sé ekki bara óviðeigandi og móðgandi heldur líka skaðlegt fyrir jafnrétti fatlaðs og ófatlaðs fólks, er ég yfirleitt afgreidd sem viðkvæm, leiðinleg, húmorslaus og öfgafull dramadrottning.

Mér er svosem sama um hvernig ég er afgreidd en mér er ekki sama um það að ófatlað fólk sem sinnir þjónustustörfum, er kosið á alþingi, setur upp leiksýningu, gefur út bók, berst opinberlega fyrir jafnrétti kvenna og karla og setur status á facebook áskilji sér þann rétt að nota hugtök sem viðhalda staðalímyndum af fötluðu fólki bara af því það nennir ekki að venja sig af því eða hefur ekki húmor til að finna eitthvað annað til að vera fyndið.

Því vil ég að lokum enda á orðum föður drengsins með downs heilkenni sem gerir eftirfarandi kröfu:

Ég bið alla sem að lesa þetta að hætta að kalla kaffibrúsan sinn þroskaheftan í hvert sinn sem lokið vill ekki festast á honum. Hættið að segja þetta og hættið að leyfa því að vera sagt í kringum ykkur. Þetta er móðgun sem grefur undan mannlegri reisn fatlaðs fólks sem þarf að berjast nóg fyrir því að geta lifað lífi sínu án þess að vera stöðugt minnt á það að stór hluti samfélagsins álítur hugtak sem vísar til fötlunar vera heimsins besta frasa til að niðurlægja aðra.

Við erum að mestu hætt að nota orðið kynvillingur sem niðurlægjandi lýsingarorð. Og negri. Því ættum við mjög auðveldlega að geta komist lífs af án þess að nota orð eins og þroskaheftur og vangefinn í sama tilgangi.

Meira að segja líka Ann Coulter mun lifa það af. Ef hún nennir.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s