Mér þykir mjög vænt um nýja stjórnarskrárfrumvarpið. Ekki bara vegna þess að ég tók þátt í að það yrði til heldur vegna þess að núverandi stjórnarskrá tel ég ekki vera samboðna íslensku samfélagi af mörgum ástæðum. Þær breytingar sem við unnum í stjórnlagaráði eru að mínu mati í samræmi við kröfur nútímans um að skapa samfélag þar sem ríkir lýðræði, mannréttindi fólks eru virt án mismununar og náttúran er vernduð svo hér verði búandi fyrir komandi kynslóðir. Ólík reynsla okkar sem sátum í stjórnlagaráði gerði það verkum að mínu mati að vinnan var unnin út frá ólíkum gleraugum okkar allra ásamt því sem hún varð fyrir miklum áhrifum frá öðrum borgurum sem sendu hugmyndir sínar og skoðanir til okkar, ýmist sem einstaklingar eða í gegnum félagasamtök.
Það hefur þó verið ljóst að alveg frá upphafi þessa ferils hafa ákveðnir hópar í samfélaginu verið á móti þessu ferli. Allir hafa sínar ástæður fyrir því þó það sé mitt persónulega mat að mörgum finnist það einfaldlega óþægilegt. Það raskar hefðum sem auka öryggistilfinningu og viðheldur valdaójafnvægi sem er auðvitað hið besta mál fyrir fólk sem heldur föstum tökum í völd sín og telur sig hafa fullan rétt á þeim á kostnað annarra. Þessi hópur hefur opinberað örvæntingu sína með alls kyns kúgandi aðferðum, eins og málþófi á alþingi.
Í október fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðisgreiðsla um hvort leggja ætti frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, 64,2% sögðu já. Ég hef sjaldan fundið fyrir jafn mikilli hamingjutilfinningu eins og þegar fyrstu tölur birtust því ég trúi því af öllu mínu hjarta að það sé nauðsynlegt skref að taka til þess að stuðla að því hér verði auðveldara fyrir allt fólk að búa og líða vel. Í dag er það bara auðvelt fyrir suma og það er bara alls ekki nóg.
Ég tók ákvörðun um það í haust að bjóða mig fram til alþingis fyrir Bjarta framtíð. Ég var skíthrædd við að stíga þetta skref því ég hef yfirleitt verið í allt öðru hlutverki, sem aktivisti í mannréttindabaráttu fatlaðs fólk, og óttaðist að mörgu leiti að ég myndi týna sjálfri mér ef ég tæki þátt í þessum sirkus margra stjórnmálamanna á alþingi. Mér er þó mjög annt um samfélag mitt og tel mikilvægt að alþingi endurspegli þann margbreytileika sem er til staðar í samfélaginu. Öðruvísi tel ég það í raun ekki starfhæft – það hefur sýnt sig. Til þess að geta tekið þessa ákvörðun setti ég sjálfri mér þau skilyrði að ég yrði að hafa trú á fólkinu í flokknum og treysta mér til að vinna með því. Mér fannst lykilatriði að það ætlaði að vinna með allt öðrum hætti þar sem málefnin væru mikilvægari en þeirra eigið ego. Ég vildi líka að flokkurinn hefði hugrekki til að viðurkenna að margir hópar búa við mjög slæm skilyrði til mannfrelsis og mannlegrar reisnar á Íslandi og gæfi sig út fyrir að vernda og tryggja mannréttindi með markvissum leiðum – ekki bara innantómum slagorðum um eitt samfélag fyrir alla. Og að lokum; að flokkurinn styddi frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.
Það er mitt mat að allt ofangreint megi finna hjá Bjartri framtíð. Nú opna ég þó ekki facebook eða kveiki á útvarpinu eða sjónvarpinu án þess að flokkurinn sem ég ákvað að bjóða mig fram fyrir sé bendlaður við eitthvað allt annað, eins og valdarán og svik.
Ég er mjög óþolinmóð manneskja að eðlisfari, vil helst ekki þurfa að bíða eftir að ,,góðir hlutir gerist hægt” og fæ ofnæmisiðbrögð þegar fólk lætur slíkt út úr sér í málum sem þola ekki bið. Ég er hins vegar ekki tilbúin að samþykkja það að í öllum þeim átökum sem eiga sér stað um frumvarpið sé því best borgið með því að kýla það í gegn núna í fullkomnu ósætti og skítkasti sem verður svo hægt að nota gegn því á næsta þingi. Mér finnst mikilvægara að koma frumvarpinu út úr þessu kaósi svo hægt sé að klára að samræma það (og greinagerðina sem er orðin einn hrærigrautur) af yfirvegun og virðingu við það sem í því býr. Mér finnst frumvarpið nefnilega svo dýrmætt að ég treysti því ekki lengur að alþingi sé fært um að klára þessa umferð.
Ég tel miklu skynsamlegra að við horfumst í augu við þá staðreynd að sá hópur sem nú ræður ríkjum á alþingi er ófær um að vinna saman að þessu máli. Jafnframt tel ég tímabært að sá hópur sem berst hvað sterkast gegn því og fyrir því að klára þessa umferð fyrir kosningar staldri við, andi djúpt og skoði fyrir hvern það er að taka slíka afstöðu. Er það fyrir þjóðina eða kannski sitt eigið egó? Það er rosalega sárt að viðurkenna að núverandi staða er ómöguleg, sérstaklega fyrir fólk eins og mig sem vildi nýja stjórnarskrá í fyrradag, en ég treysti því að sú leið sem þingmenn Bjartrar framtíðar lögðu upphaflega til, sem finna má hér, og hefur fengið stuðning þingmanna úr öðrum flokkum, skapi aðstæður til þess að næsta þing klári þetta mál hratt og vel.
Ég veit auðvitað ekki hvernig næsta þing verður. En ég veit þó að þau okkar úr Bjartri framtíð sem verða á þingi munu leggja mikið á sig til þess að vilji þjóðarinnar í þjóðaratkvæðisgreiðslunni verði virtur og frumvarpið verði að nýrri stjórnarskrá Íslands sem fyrst. Það hefur frá upphafi verið hluti af okkar stefnu.
Þú notar villandi prósentutölur, Freyja, sem því miður komust í umferð en hafa verið leiðréttar (Þorkell, félagi þinn úr Stjórnlagaráði veit meira um málið). Rétt er að 67,5% kjósenda lýstu yfir stuðningi við frumvarp að nýrri stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Mögnuð sátt og ekkert skítkast.
Eðlilegt er að útspil Bjartrar framtíðar, sem þú vitnar til, fái hljómgrunn í gömlu flokkunum. Tillögur um óbreytt ástand í stjórnarskrármálum hafa gegnum tíðina átt upp á pallborðið hjá þeim af sérstökum ástæðum. Breytingar á stjórnarskrá sem gengu gegn hagsmunum einhvers þeirra hafa alltaf orðið með miklum átökum og skítkasti. Ég bið þig að lesa eftirfarandi pistil og hugsa afstöðu þina upp á nýtt: http://www.dv.is/blogg/hloduveggur/2012/10/18/visvitandi-vanraeksla/
Útspil Bjartrar framtíðar er vís vegur til þess að tryggja að landsmenn fá alls ekki þá stjórnarskrá sem þeir unnu í samvinnu við stjórnlagaráð og lýstu yfir stuðningi við 20. október. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur munu ekki sýna nýju stjórnarskránni meiri virðingu eftir að þeir hafa náð sterkari stöðu á Alþingi. Fyrir því hef ég fært rök í pistli sem er á eftirfarandi slóð. Ég bið þig að lesa hann líka og hugsa málið upp á nýtt: http://www.dv.is/blogg/hloduveggur/2013/3/4/taekifaerid-er-nuna-gudmundur/
Baráttukveðjur,
Hjörtur Hjartarson