Ég hef ekki haft neina þörf fyrir að eyða orku minni í að gagnrýna frambjóðendur annarra flokka í þessari kosningabaráttu þó ég hafi oft verið ósammála þeim um stefnur og leiðir, fyrir utan að ég tel það ekki leiðina til árangurs í stjórnmálum. Ég get þó ekki orða bundist nú eftir að ég horfði á kjördæmafund Stöðvar 2 áðan. Svo gjörsamlega misboðið var mér að hlusta á Árna Pál, Bjarna, Ögmund og Eygló rífast um það hver gerði ekki hvað í lífeyris- og bótamálunum á milli þess sem þau köstuðu inn ,,þau sem minna mega sín” frösum til að líta betur út. Það er deginum ljósara að núverandi ríkisstjórn og þáverandi ríkisstjórnir, hægri eða vinstri, hafa brugðist gjörsamlega í að byggja hér upp aðstæður sem brjóta ekki mannréttindi margra minnihlutahópa, t.d. fatlaðs fólks. Kreppan bætti ekki aðstæðurnar, en þær voru þó slæmar fyrir.
Að sjálfsögðu hafa allir flokkar lagt eitthvað að mörkum sem hefur aukið lífsgæði okkar en það hefur aldrei náð svo langt að tryggja til framtíðar líf sem við bjóðum fólki í valdameiri stöðum upp á. Lífeyriskerfið er þannig hannað að fólk nær ekki endum saman, það stjórnast af tekjum annarra á heimilum og er atvinnu- og námsletjandi. Fókusinn hefur verið á status quo og afneitun á þeim veruleika að hér sé um að ræða vannýttan mannauð sem ekki eingöngu er fast í kerfi sem er fullt af veseni heldur líður fyrir að fjölbreytni skortir í þjónustuleiðum og stuðningsaðgerðum.
Nú er komið að kosningum og það sem ofangreindir þingmenn höfðu fram að færa voru kappræður um hver hefði klúðrað mestu, hvenær og hvernig. Þátttastjórnendurnir sáu ekki ástæðu til að stoppa þá umræðu og hleypa þeim einu þingmönnum, Guðmundi og Birgittu, sem reyndu að tala um framtíðarlausnir, stöðugleika, mannréttindi, lýðræði og stefnu um úrbætur að. Mesta athygli hlutu þeir sem sýndu minnstu virðinguna og gripu mest fram í.
Sem manneskju sem hef ég þurft að berjast fyrir hverju einasta smáatriði í mínu lífi, hvort sem það hefur tengst skóla, vinnu, aðstoð, aðgengi eða almennri viðurkenningu á tilvist minni í þessu svokallaða norræna velferðarsamfélagi (hvort sem hér hefur verið stjórnað frá hægri, vinstri eða miðju) finnst mér ég, og fólk í sambærilegri stöðu, gjörsamlega niðurlægð. Svo niðurlægð að mig langaði einfaldlega til að gráta. Og gerði smá af því.
Það eina góða við þennan þátt var það að enn á ný fékk ég staðfestingu á því að ég tók rétta ákvörðun þegar ég ákvað að ganga til liðs við Bjarta framtíð. Ég ákvað það ekki bara vegna markmiða flokksins og þeirra leiða sem við hyggjumst fara til að ná þeim. Heldur vegna þess að í starfi mínu í baráttu fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð kynntist ég öðrum formanni flokksins, Guðmundi Steingrímssyni, og sá í honum stjórnmálamann sem hlustaði með heilanum og hjartanu á það sem fólkið sem ætlaði að nota þjónustuna hafði að segja um leiðirnar sem ætti að fara. Stjórnmálamann sem hafði hugrekki til að taka afstöðu með þeim sama hópi þrátt fyrir að það væri ekki vinsælasti leikurinn í bransanum. Stjórnmálamanni sem hafði nógu sterka sannfæringu til þess að rugga bát sem hefur fengið að vera kyrr alltof, alltof lengi, til þess að ná markmiðunum. Stjórnmálamanni sem ég fann að ég gat verið ósammála og rökrætt við en samt treyst. Stjórnmálamanni sem ég gat unnið með án þess að upplifa mig annars flokks þjóðfélagsþegn. Þó ég hafi í gegnum störf mín kynnst fullt af áhugaverðu stjórnmálafólki var þetta í fyrsta sinn sem ég sá vonarglætu um að það væri hægt að breyta stjórnmálamenningu og aðferðum samfélaginu og fólkinu í því til framdráttar.
Mér til ómældrar hamingju tilheyri ég nú stjórnmálaflokki sem ég skynja á hverjum degi að er fullur af núverandi og tilvonandi þingmönnum sem hlusta með heilanum og hjartanu, hafa hugrekki til að taka afstöðu og erfiðar ákvarðanir, sterka sannfæringu um að það sé þess virði að rugga bátum til að uppskera árangur og ná markmiðum og geta skipst á skoðunum og verið ósammála án þess að sýna óvirðingu eða lítillækka aðra.
Fyrir það er ég þakklát og hef óbilandi trú á því að það dragi úr líkunum á því að stjórnmál niðurlægi manneskjur og auki líkurnar á að meiri árangur náist í sátt og virðingu við fólkið sem myndar þetta samfélag.
vel mælt svo sammála