Frasinn um stefnuleysi Bjartrar framtíðar

Það er hreint stórkostlegt að hlusta á síendurtekna frasa um að Björt framtíð sé stefnulaus. Ég er búin að gera margar heiðarlegar tilraunir til þess að láta þetta sem vind um eyru þjóta en það virðist vera svo að frasarnir hafi öðlast sjálfstætt stjórnlaust líf og ég kann ekki við það. Ég verð því að blanda mér í þessa umræðu.

Pælum aðeins í þessu. Björt framtíð hefur þá stefnu að vera frjálslynd,  málsvarar umhverfis og náttúru og róttæk í mannréttindamálum. Við aðhyllumst langtímalausnir og viljum að aðgerðir okkar stuðli að stöðugleika á öllum sviðum til framtíðar, ekki síst í efnahagslífinu.

Skoðum leiðirnar

Frjálslyndið: Því viljum við ná fram, m.a. með því að einfalda kerfi, t.d. skattaumhverfi, bótakerfi, lífeyriskerfi og öll önnur flókin kerfi (sem fyrrum valdhafar á alþingi hafa dundað sér við að flækja) svo fólk geti verið frjálsara og sjálfstæðara, geti valið ólíka þjónustu t.d. í velferðarkerfinu með ólíkum rekstrarformum, stofnað fyrirtæki og nýtt hæfileika sína án þess að þurfa sóa alltof miklum tíma í að skilja óskiljanlegt kerfi eða hafa áhyggjur af því að fara á hausinn í næstu sveiflu. Við viljum líka að fólk geti farið út á vinnumarkaðinn án þess að bótakerfið refsi því fyrir athafnagleði eða fyrir að eiga maka sem vinnur fyrir launum. Við viljum treysta fólki til að stjórna lífi sínu og skapa öllum sömu tækifærin til þess að geta það í raun.

Málsvarar umhverfis og náttúru: Því viljum við ná fram með því að standa okkur betur í endurvinnslu, lífsháttum sem eru vistvænir (efla almenningssamgöngur og hjólreiðar, leggja áherslu á lífræna ræktun og að matvæli verði bæði betur merkt og upprunavottað) og notum meira orkusparandi tækni og vistvæna orkugjafa. Við viljum skipuleggja ferðamennsku betur svo hún valdi ekki viðkvæmri náttúru röskun. Það má gera með mörgum leiðum eins og að rukka hærra fyrir að fá að skoða náttúruperlurnar eins og gengur og gerist erlendis, búa til útsýnispalla og girða betur af staði svo fólk horfi frekar á þá úr fjarlægð. Almennt hreinlæti þarf að bæta og hafa skýrari umgengnisreglur. Svo viljum við gera átak í vernd og uppbyggingu þjóðgarða, friðlanda, þjóðlenda og þjóðskóga og móta skýra stefnu um vernd og nýtingu hálendis okkar. Það er afdráttarlaus skoðun okkar að lögfesta eigi rammaáætlun og að hún eigi að nýtist sem fagleg og framsýn stefna ólíkra sjónarmiða um virkjun og vernd.

Róttæk í mannréttindum: við viljum beita aðgerðum sem við vitum að hafa skilað árangri við að útrýma launamun kynjanna og jafna tækifæri þeirra á öllum sviðum. Við viljum leiðrétta ójafna stöðu barna sem eiga foreldra sem búa ekki saman með því t.d. að þau geti haft tvöfalt lögheimili. Við viljum koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi, m.a. með því að styðja við þau samtök sem aðstoða brotaþola, auka jafnréttisfræðslu og breyta kynfræðslu í skólum ásamt því að gera dómskerfið skilvirkara og meira hvetjandi fyrir brotaþola að leita réttar síns. Við viljum að fjölbreytt þjónusta verði í boði í velferðarkerfinu sem nýtist raunverulega fólkinu sem þarf á henni að halda, sem kemur í veg fyrir vanvirkni, hafi forvarnargildi og stuðli að jöfnum tækifærum. Dæmi um leiðir í þeim efnum er notendastýrð persónuleg aðstoð fyrir fatlað fólk og efling heilsugæslunnar um allt land með áherslu á þverfaglega þekkingu, t.d. viljum við sjá sálfræðinga starfa þar. Við viljum lögfesta og fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Breyta þarf lagarammanum í samræmi við samninginn og gefa honum lagalegt gildi til að þyngja vægi hans, auka notagildi og ná fram réttarbótum.

Langtímamarkmið og stöðugleiki í efnahagslífinu: Við teljum mikilvægt, t.d. í skuldamálum heimilanna, að bregðast við vandanum sem nú ríkir á ábyrgan og upplýstan hátt með það að markmiði að mæta þörfum ólíkra heimila í ólíkum skulda- og fjárhagsvanda. Við viljum t.d. skoða möguleikan á því að setja þak á verðbætur verðtryggðra lána, að fólk geti valið að hluti af inngreiðsla í lífeyrissjóði renni til afborgana af húsnæðislánum, afnema stimpilgjöld, að 110% leiðin gildi líka fyrir lánsveð og að forsendur vísitöluútreikninga séu endurskoðaðar. Á sama tíma og við skoðum þetta verðum við að tryggja öryggi okkar allra til langs tíma og hætta í skítamixum sem hafa sömu afleiðingar og að pissa í skóinn sinn. Við viljum ráðast á rót vandans og auka stöðugleika til langs tíma, t.d. með því að landa góðum samningi við Evrópusambandið og opna þannig leið til gjaldmiðissamstarfs við Evrópska seðlabankan og taka svo upp evru þegar skilyrði skapast til þess. Við viljum líka auka verðmæti útflutnings til að ná þessu sama markmiði, t.d. í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Og styðja betur við lítil og meðalstór fyrirtæki í þessu samhengi, t.d. með því að minnka vesen í skattaumhverfinu og gera stjórnsýsluna gagnsærri, skilvirkari og einfaldari svo fólk skilji og þekki betur lagaumhverfið. Við viljum koma á húsnæðislánamarkaði með lágum raunvöxtum til langs tíma. Svo viljum við að góður og fjölbreyttur leigumarkaður verði til. Guðmundur Steingrímsson, annar formaður Bjartrar framtíðar, hefur t.d. lagt fram frumvarp á þingi um að stúdentar sem leigja saman á almennum markaði geti fengið húsaleigubætur.

Loforð er ekki stefna

Hér að ofan er eingöngu brotabrot af stefnu okkar í Bjartri framtíð. Þetta er líka eingöngu brotabrot af þeim leiðum sem við teljum færar í að ná markmiðum okkar. Meira má lesa hér. Og hér.

Ég veit ekki alveg hvenær stefnuleysisfrasinn öðlaðist stjórnlaust sjálfstætt líf. Kannski þegar stefnan byrjaði að ógna stjórnmálahefðum. Kannski þegar hún byrjaði að ögra stjórnmálamenningu sem elskar að gefa loforð og svíkja þau svo. Það er allavega á hreinu að frasinn er ekki á rökum reistur.  Loforð eru ekki stefna. Stefna er markmið um þann árangur sem við viljum ná. Stefna er sú sýn sem við leggjum til grundvallar okkar starfi og áætlunum. Alveg eins og í hvaða starfi sem er, t.d. í fyrirtæki, er stefnan ekki loforð.

Í NPA miðstöðinni, þar sem ég starfa, höfum við sem erum þar í forystuhlutverki ekki lofað að allt fatlað fólk sem þurfa á aðstoð að halda fái notendastýrða persónulega aðstoð, að hún verði lögfest og að allir á Íslandi skilji hugmyndafræðina að baki henni og um hvað hún snýst. Það er hins vegar markmiðið með störfum okkar og að því vinnum við á hverjum degi. Við stofnun miðstöðvarinnar höfðum við skilgreint sumar af þeim leiðum sem við ætluðum að fara til að ná markmiðunum en aðrar leiðir höfðum við ekki hugmynd um. Þær höfum við fundið í samtali við ólík svið samfélagsins, með upplýsingum frá öðrum löndum, í samráði við fatlað fólk og í gegnum ráðgjöf frá ólíkum sérfræðingum. Við erum nefnilega ekki alvitur. Við erum meira að segja ekki alltaf sannspá því sumar af þeim leiðum sem við lögðum upp með í upphafi voru bara gjörsamlega glataðar og skiluðu ekki árangri en við fundum aðrar miklu betri í staðin. Og þó það sé kannski skömm að segja frá því, verandi framkvæmdastýra fyrirtækisins, að þá er ég enn að klóra mér í hausnum yfir því hvernig við náum sumum af þessum markmiðum. Við höfum ekki fundið leiðirnar enn. Það breytir því þó ekki að markmiðið stendur og við verðum að hafa hugrekki til að halda áfram veginn þó svo að við höfum ekki hugmyndaflug í allt það sem gæti hugsanlega, mögulega, kannski komið upp á. Öðruvísi náum við ekki markmiðinu.

Markmiðasetning og stjórnmál

Þetta er ekkert mikið öðruvísi í stjórnmálum, segjum við. Aðalatriðið er að hafa skýr markmið, bæði skammtíma og langtíma. Skilgreina þær leiðir sem hægt er, hafa æðruleysi til að þola að þær eru ekki allar borðliggjandi, horfast í augu við að sumar eru þegar upp er staðið alveg út í hött og í allri vinnunni, innbyrðis og í samstarfi og samráði við aðra, mótast nýjar leiðir. Þannig skilum við árangri og náum markmiðum okkar. Um það snýst Björt framtíð. Við viljum ná markmiðum okkar, á grundvelli hugmyndafræði okkar og sannfæringar, en í samstarfi við aðra sem starfa í stjórnmálum og í samráði við fólkið sem málin varða. Þannig náum við sátt. Og sátt er mikilvæg til þess að skapa traust. Og traust er nauðsynlegt svo fólkið í landinu finni að það búi við öryggi og að stjórnmálafólk fái rými til að ná markmiðunum.

Hingað til höfum við haft stjórnmálaflokka við völd sem hafa lofað alls konar. Þeir hafa líka sumir skilgreint ýmsar leiðir, sem virðast stundum yfir allar aðrar hafnar sökum meints fullkomleika, en samt nást markmiðin ekki. Trekk í trekk. Og loforðin eru svikin. Þá verðum við ósátt. Við hættum að treysta. Við verðum óörugg, vonsvikin og reið. Og allir halda áfram að rífast, firra sig ábyrgð og kenna öðrum um. Á meðan gleymast markmiðin. Markmiðin sem snúast um að byggja þetta samfélag svo hér sé hægt að vera og líða vel.

Ég veit ekki með ykkur en ég get ekki meira af þessum loforðaflaumi. Þau særa mig, gera mig reiða, tortryggna, hrædda og vondaufa. Ég nenni ekki að lifa þannig. Þess vegna vel ég Bjarta framtíð. Því þar eru markmiðin skilgreind, stefnan skýr og fólk sem er traustsins virði.

One thought on “Frasinn um stefnuleysi Bjartrar framtíðar

  1. Þetta kallast varla stefna , þetta eru tóm orð um ekkert . Eru við ‘Islenska þjóðin búin að borga nógu ands. mikið í laun fyrir fólk sem vill setjast niður og ræða hlutina ???? Við erum ekki að tala um kosningar eftir 4 ár þetta eru kosningar sem eru á laugardaginn . Ef að þið eruð ekki búinn að gera heimavinnu ykkar um hvernin þið ætlið að bjarga þjóðinni úr kreppuni , þá tel ég að þið séuð ekki tilbúin í baráttu fyrir ‘Islands hönd

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s