Fordómar · Mannréttindi · Uncategorized

Aðför mín að tjáningarfrelsinu

Þann 7. maí sl. skrifaði ég blogg undir yfirskriftinni Þroskahefti síamstvíburinn og vanskapaða Barbie dúkkan um hatursorðræðu gagnvart fötluðu fólki. Hún féll misvel í kram lesenda eins og ég gerði ráð fyrir enda þykir óþægilegt þegar eitthvað sem við flokkum til venja eða hefða er gagnrýnt. Gagnrýni lesenda hefur að mestu verið á málefnalegu plani en ber þess þó merki að sumt fólk skilur illa eða vill ekki skilja hvað ég er raunverulega að meina þegar ég fjalla um mikilvægi þess að við hugsum um hvað við segjum og notum ekki fötlunarhugtök til þess að smána, niðra eða lýsa einhverju sem við teljum ljótt og heimskt.

Sumir telja að með þessum málflutningi sé ég í ,,grófri aðför að tjáningarfrelsinu”, ég eigi bara að hunsa þessa umræðu þar sem hún dæmi sig sjálf, hún sé ófrávíkjanleg eða vegna þess að ég eigi ekki að taka henni nærri mér. Einhverjir hafa líka hnýtt í gagnrýni mína á það að fötlun væri ekki talin upp yfir hópa sem ekki mætti hafa uppi meiðandi umræðu um í hegningarlögum og finnst ekki hægt að stýra orðræðu með lögum.

Ég er talsvert hugsi yfir þessari umræðu en tek henni þó sem ábendingu um að ég hafi ekki gert mig nógu skiljanlega í pistli mínum í byrjun maí. Til þess að vera alveg skýr vil ég segja eftirfarandi:

 • Tjáningafrelsi er mér mikilvægt. Ég upplifi mig ítrekað búa við þöggun og finnst mér það mjög óþægilegt. Ég vil því að fólk sé frjálst frá þöggun og búi við þau mannréttindi að geta tjáð vilja sinn, trú og sannfæringu.
 • Ég get ekki hunsað ,,ertu eitthvað þroskaheftur vangefna fíflið þitt” umræðuna því hún dæmir sig ekki sjálf. Meirihlutanum í samfélaginu finnst í lagi að nota fötlunarhugtak til þess að gera lítið úr ljótleika eða heimsku annarra og því hika börn og fullorðnir ekki við að tala svona.
 • Þessi umræða er ekki ófrávíkjanleg frekar en umræða um ,,negra, kynvillinga, femínistatussur og níska gyðinga”. Einu sinni dæmdi slík umræða sig ekki  sjálf og fólk hikaði ekki við að láta slík orð út úr sér með þeim afleiðingum að svört börn máttu ekki ganga í skóla með hvítum börnum, hinsegin fólk var rekið úr störfum eða flutti úr landi vegna ofsókna á grundvelli kynhneigðar, konur voru brenndar á báli eða settar inn á stofnun ef þær höguðu sér ekki eins og körlum þóknaðist og gyðingum var útrýmt í nasistabúðum. Með baráttu þessara hópa, bæði í gegnum aukna lagalega vernd og opinskáa og afhjúpandi vitundarvakningu og umræðu, höfum við flest í hjörtum okkar litla þörf í dag eða löngun til þess að nota orð sem tengjast þessum hópum til að niðra aðra. Eða gera eitthvað til þess að skaða þá.
 • Ef við erum kýld fáum við yfirleitt marblett. Þó okkur langi ekki að vera með glóðurauga birtist það bara því það eru viðbrögð líkamans við skaðanum sem var gerður. Það sama gildir um orð sem meiða. Þó sárin sjáist ekki utan á líkamanum birtast þau innra með okkur þó við viljum það alls ekki því það eru viðbrögð líkamans við skaðanum sem var gerður. Við segjum ekki við fólk sem var kýlt; ,,vertu nú ekki að fá glóðuraugu, hertu þig!” Við hikum þó ekki við að segja það við fólk sem er kýlt með orðum.
 • Ég er ekki svo barnaleg að ég haldi að það að banna fólki með lögum að segja ljóta hluti bindi enda á alla hatursorðræðu. Ég veit líka að margt sem er bannað verður eftirsóknarverðara fyrir vikið. Mér finnst hins vegar ekkert óeðlilegt við það að setja fólki mörk með lögum til að vernda friðhelgi annarra. Það getur ekki talist eðlilegt að okkur finnist í lagi að banna líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi með lögum bara af því að það er áþreyfanlegt en ekki andlegt ofbeldi bara vegna þess að það á sér stað í gegnum samskipti og orð og við getum ekki snert það með beinum hætti.

Það sem er mikilvægt í þessari umræðu allri er ekki að okkur sé bannað að segja smánandi og hatursfull orð. Það er að við gerum okkur grein fyrir að sum orð, sem eru viðurkennd í menningu okkar og kerfum og dæma sig þar með ekki sjálf, eru að viðhalda fordómum, ýta undir mismunun, stuðla að útilokun og auka líkur á hvers kyns ofbeldi. Það sem er mikilvægt í þessari umræðu er að við sem samfélag skiljum skaðan sem viðurkennd neikvæð orðræða um ákveðna þjóðfélagshópa er að valda og að við finnum þörf innra með okkur til þess að hætta að nota þessi orð. Ekki af því það er bannað samkvæmt hegningarlögum heldur vegna þess að  við viljum að þessir tilteknu þjóðfélagshópar, eins og t.d. fatlað fólk, sé ekki fordæmt eða mismunað á hverjum degi, að það hafi fullan aðgang að samfélaginu á öllum sviðum og að líkurnar á að það verði fyrir ofbeldi minnki verulega.

Okkur hefur tekist þetta að mestu leiti varðandi marga hópa sem áður voru í sambærilegum sporum og fatlað fólk er í dag. Við misstum ekki tjáningarfrelsið við það. Við lærðum einfaldlega að hata minna og elska meira. Og milljónir manna, hér á landi og annars staðar, öðluðust í kjölfarið betra líf.

Advertisements

2 thoughts on “Aðför mín að tjáningarfrelsinu

 1. Leyfðu mér að benda á smá mistök sem þú gerir hér, reyndar mjög svipuð mistök og í fyrri pistlinum sem þú skrifaðir um þetta mál.

  “Einu sinni dæmdi slík umræða sig ekki sjálf og fólk hikaði ekki við að láta slík orð út úr sér með þeim afleiðingum að svört börn máttu ekki ganga í skóla með hvítum börnum, hinsegin fólk var rekið úr störfum eða flutti úr landi vegna ofsókna á grundvelli kynhneigðar, konur voru brenndar á báli eða settar inn á stofnun ef þær höguðu sér ekki eins og körlum þóknaðist og gyðingum var útrýmt í nasistabúðum.”

  1. Þegar þú nefnir að svartir hafi ekki mátt læra með hvítum, þá ertu væntanlega að tala um aðstæður í Bandaríkjunum um miðja 20. öld. Svörtum var ekki gert kleyft að stunda nám með hvítum með því að banna einum eða neinum að tjá sig. Það er enn í dag fullkomlega löglegt að nota hið svokallaða N-orð, bæði í fjölmiðlum og annars staðar. Fólk forðast það af *samfélagslegum* ástæðum, ekki lagalegum. Það er vegna þess að samfélagið sjálft breyttist í gegnum upplýsingu áður en nokkrum datt í hug að afnema 1. viðauka stjórnarskrárinnar.

  2. Samkynhneigð varð ekki að samþykktu fyrirbæri í samfélaginu með því að banna einum eða neinum að tjá sig heldur. Fólk þegir um fordóma gagnvart samkhneigðum af *samfélagslegum* ástæðum, ekki lagalegum.

  3. Hvað varðar konur sem voru brenndar á báli á sínum tíma, þá reyndar urðu karlmenn meira fyrir því að vera brenndir á báli hérlendis heldur en konur, en það er vitaskuld aukaatriði. Það var almenn upplýsing sem útrýmdi galdrabrennum, ekki takmarkanir á tjáningarfrelsi heldur þvert á móti reyndar. Ef fólk hefði ekki getað talað í óþökk kirkjunnar hefðu galdrabrennur sjálfsagt aldrei lagst af, og athugaðu að kirkjan ákvað ekki landslög heldur hver skyldi fara til himna og hver skyldi fara til helvítis. Það er kaldhæðnislegt að þú nefnir galdrabrennurnar vegna þess að fá dæmi sýna betur fram á mikilvægi þess að fólk geti tjáð sig á skjön við ríkjandi samfélagsviðhorf og jafnvel Guð almáttugan.

  4. Gyðingar í Þýskalandi Nasismans; áhugaverðasta dæmið í reynd. Ef við hefðum stungið upp á því árið 1933, þegar Hitler komst til valda, að ekki væri lengur löglegt að særa tilfinningar Gyðinga, þá hefði enginn tekið mark á því VEGNA ÞESS að það var minnihlutaviðhorf á þeim tíma. Eina leiðin til þess að njóta verndar gegn hatursáróðri er ef maður tilheyrir hópi sem er EKKI hataður af meirihlutanum, en í dag eru konur, samkynhneigðir og fatlaðir einmitt EKKI hataðir af meirihlutanum og það er eina ástæðan fyrir því að nú koma upp kröfur um svona lög. Það gæti aldrei orðið til raunhæf krafa um vernd gegn hatursáróðri fyrir fólk sem raunverulega er hatað af meirihlutanum. Aftur er dæmið sem þú tekur frekar kaldhæðnislegt, vegna þess að í Þýskalandi Nasismans var einmitt bannað að bera á torg róg og áróður gegn… gettu hverjum. Hvíta kynstofninum og Nasistum. Ekki Gyðingum, fötluðum, Vottum Jehóva eða Kommúnistum.

  Sumsé, hérna er rökvillan í þessum málflutningi: Þú telur að það þurfi að takmarka tjáningarfrelsi því það særir tilfinningar fólks og leiði því af sér einhvers konar kúgun. Raunveruleikinn er hinsvegar sá að slíkar lagasetningar eru í rauninni bara mælikvarði á hversu vel vitundarvakninginn er að eiga sér stað.

  Ef það væri til dæmis raunveruleg ógn á afturför í réttindum samkynhneigðra, þá væri ekki pólitískur vilji til þess að banna hatursáróður gegn þeim. Hatursáróðurs-löggjafir koma alltaf á eftir hugarfarsbreytingunni, þær eru ekki valdurinn að þeim og ættu ekki að vera það. Siðmenntað fólk stjórnar ekki hugarfari annars fólks með hótunum um lögsóknir, heldur með því að rökstyðja sitt mál eins og þú gerir mjög vel í pistlum þínum almennt, alveg þar til þú ferð í að réttlæta enn frekari takmarkanir á tjáningarfrelsi.

  Kannski er misskilningur þinn sá að þú teljir engan hlusta á þig. Nú nota ég ekki orðið “þroskaheftur” lengur sem almenna móðgun, og veistu hvers vegna? Það er ekki vegna þess að ég hugleiddi á eigin spýtur hversu ógeðfellt það væri í rauninni, heldur vegna þess að ég rakst á annað fólk benda á það, til dæmis þig. Þú heldur kannski að þú hafir svo ömurlega glataðan málstað að þú þurfir að banna til að ná þessu fram, en svo er ekki. Þetta er fínn málstaður og það er meira að segja mjög auðvelt að koma honum á framfæri, sérstaklega með internetinu. Þú færð fullt af réttmætu lofi fyrir að vera fínn penni, sem þú ert, og það er í gegnum það vopn, ekki hótanir um lögsóknir, sem við eigum að bæta umræðuna í samfélaginu.

  Eru umhyggja, skilningur og tillitssemi virkilega svo ömurlega lélegir málstaðir, að við getum ekki barist fyrir þeim með öðru en að stjórna því hvernig fólk tjáir sig? Í alvöru?

 2. Sammála Helga hér. Og mér finnst varhugarvert að tala um útvíkkun á skilgreiningu orðsins “hatursorðræða”. Hún er bönnuð af því að hún er skilgreind sem eitthvað sem beinlínis geti valdið verulegu tjóni á heilum hópi og skaðað rétt þeirra en þarf að vera þröngt skilgreind. Það er ekki sanngjarnt að taka það upp hjá sjálfum sér að túlka það sem orð yfir eitthvað sem í raun veldur ekki eins miklum skaða, þó það sé einhver skaði af ýmsu sem sagt er. Mér finnst vera himinn á haf á milli þess og að fara óvarlega með orð sín. Fólk sem getur móðgast á þessum orðum má ekki sífellt vera að leita að tækifærum til að móðgast.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s