Fordómar · Meiri fjölbreytni · Staðalímyndir

,,Ertu bara máluð og allt?”

Brotabrot af mínu besta
Brotabrot af mínu besta

Kollegi minn frá Bretlandi, fötlunartussan eða The disability bitch, sem er fötluð bresk baráttukona skrifar oft hnittnar greinar á veftímaritið Ouch! þar sem hún gerir grín að viðhorfum ófatlaðs fólks ásamt því sem hún deilir almennum fréttum og lýsir viðburðum á Facebook og Twitter og bendir á asnaleika þeirra í ljósi fötlunarfræða og sögu baráttuhreyfinga fatlaðs fólks. Í morgun deildi hún frétt um bresku útvarpskonuna Söru Kox sem er viðbeinsbrotin og notar hækju (næ því samhengi reyndar ekki alveg). Sara er víst, þrátt fyrir þessa ,,tímabundnu fötlun” eins og Daily Mail orðar það (ó, ég elska fjölmiðla) flott í tauinu, vel til höfð og máluð en um það er einmitt fréttin. Breaking news, viðbeinsbrotin kona málar sig!!!

Fötlunartussan, mér til ómældrar gleði á mánudagsmorgni, gerði grín að þessari frétt. Það gladdi mig því ég veit ekki hversu oft fólk hefur komið upp að mér og sagt á innsoginu, eins og ég sé þriggja ára en ekki 26 ára; ,,Jhhiii, ertu bara máluð og allt?” Ósjaldan, er ég kem úr sjúkraþjálfun á morgnana og er að taka mig til fyrir daginn (lesist: spasla á mér andlitið á hundavaði því ég er alltaf svo sein) fæ ég athugasemdir frá starfsfólkinu sem vinnur þar í sama áðurnefnda tóninum; ,,Er bara verið að dekra við sig?”

Verandi ólýsanleg pempía sem kölluð var Fröken Fix frá fæðingu af þeim sökum, fædd með naglalakk, eigandi augnskugga og varaliti í massavís og hárvara fyrir heilt þorp skil ég þetta ekki alveg. Það er ekki náttúrulögmál, þó ég eigi frekar óhefðbundinn líkama, noti hjólastól og horfi eingöngu til vinstri, að ég sé alltaf í joggaranum, með úfið hár og ómáluð. Ekki misskilja mig, ég elska Nike og Adidas buxurnar mínar og fer óhikað út í búð í þeim, í vinnuna og víðs vegar um bæinn ómáluð og með hárið út í loftið þegar ég er í þannig stuði. Ég er hins vegar frekar mikil meikdolla og maskaraböðlari sem nota alltof mikið hársprey, á alltof mikið af flestum snyrtivörum og þvæ hárið á mér alltof oft. Það hefur hins vegar lítið með dekur að gera og meira með venjulegar athafnir sem ég framkvæmi nánast daglega. Það er líka kannski pínu skrítið í ljósi útlitsdýrkunar og þeirri kröfu sem er gegnum gangandi á konur um að þær eigi að vera svona og hinsegin, að heimurinn sé þannig þenkjandi að það þurfi að skrifa frétt um það ef fræg kona er viðbeinsbrotin og sexý á sama tíma. Og ekki í fyrsta sinn. Hver kannast ekki við hjálparlausu, saklausu, þreytulegu, döpru, fötluðu stúlkuna/konuna með úfið hár og teppi yfir fótunum sem er alltaf að leggja sig í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum?

Það er nefnilega jafn óeðlilegt í mínum huga, sem femínisti og fötluð kona, að ganga út frá því að öllum konum finnist skemmtilegt og mikilvægt að mála sig, klæðast tískufötum og setja upp á sér hárið bara af því þær eru konur, eins og að ganga út frá því að allar fatlaðar konur verði sjálfkrafa áhugalausar um varaliti, verslunarferðir og sléttujárn af því þær eru fatlaðar.

Sem betur fer er ég ekki sú fyrsta sem hefur verið frústreruð yfir þessu. Aimee Mullins hefur dissað þetta nokkuð, ásamt Alison Lapper og leikkonunum í þættinum Push Girls. Ég verð þeim ævinlega þakklát fyrir að styðja mig við uppbyggingu sjálfsmyndar minnar sem Fröken Fix og við að halda uppi heiðri mínum sem naglalakkafíkil, meikdollu og maskaraböðul.

Advertisements

One thought on “,,Ertu bara máluð og allt?”

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s