Fordómar · Lífið · Mannréttindi · Meiri fjölbreytni · Meiri sátt · Meiri stöðugleiki · Minna vesen · Minni sóun · Staðalímyndir · Uncategorized

Takk fyrir ykkur, sjáumst á laugardaginn!

ImageFyrir tveimur árum síðan fór ég í fyrsta skipti á Gay pride svona fyrir alvöru. Ég hafði farið einu sinni áður en þá var ég bæði að kafna úr unglingastælum og tortryggni. Ég skildi ekki alveg þessa göngu og fór eiginlega bara til þess að forvitnast með vinkonu minni og sjá mikið af fólki í skrítnum múnderingum. Það var ekki það að ég hefði sérstaka skoðun á kynhneigð fólks heldur var ég svo upptekin af mínum meinta líkamlega afbrigðileika sem gerði það að verkum að ég kepptist svo um að passa inn í kassan og skera mig ekki úr að ég hafði þar með ekki skilning á fólki sem hafði nægilegt sjálfstraust til þess að standa upp á palli á Gay pride og skammast sín ekkert fyrir að vera eins og það er.

En svo liðu árin. Ég upplifði aðra hluti. Kynntist fleira fólki. Eignaðist nýja vini. Öðlaðist raunverulegar fyrirmyndir. Sá sjálfa mig og samfélagið í öðru samhengi. Fékk samþykkta aðstoð til þess að geta lifað við sambærilegt frelsi og sjálfstæði og ófatlað fólk. Hóf störf mín í mannréttindabaráttu. Ég valdefldist.

ImageÞað var því öðruvísi að vera stödd á Gay pride árið 2011 í glampandi sólinni, eins og nál í heystakki, í öllum mannfjöldanum. Ekki lengur að kafna úr unglingastælum heldur gleði. Ekki lengur tortryggin heldur stolt af öllum þeim samborgurum mínum, svona eða hinsegin, sem ýmist voru upp á pöllum, að rölta með göngunni, syngja upp á sviði eða hópast saman og fagna því að við erum alls konar. Ég var ekki lengur með meintan líkamlega afbrigðileika minn á heilanum heldur búin að stíga mín skref nær því að hafna samfélagslegum normum og berjast af öllu afli við fleygja öllum kössunum í hausinn á þeim sem voru að reyna að troða mér í þá. Þar með ekki lengur skilningslaus á mikilvægi þess að halda hátíð til þess að fagna margbreytileikanum og ögra viðhorfum, menningu og hefðum um einhvern eðlileika sem enginn veit samt hver skilgreindi. Eðlileika sem við vitum ekkert hvaðan kemur og hvers vegna. Eðlileika sem við í einhverskonar sjálfsblekkingaræði ríghöldum í af ótta við breytingar þó svo að innst inni vitum við að þessi eðlileiki á sér jafn margar skilgreiningar og við erum mörg. Eðlileika sem lætur ótal mörgum líða alveg hrikalega illa.

ImageÞegar ég sat á Gay pride og horfði á son vinkonu minnar með Downs heilkenni, sem þá var 9 ára, dansa og syngja hástöfum ,,Ég er eins og ég er” og ,,Allt fyrir ástina”, hinsegin vinkonu mína sem hafði stuttu áður komið sér enn lengra út úr skápnum með miklum erfiðismunum og fólk sem ég þekkti málað í fram eins og regnboginn þrátt fyrir að örfáum árum áður hafi það ekki borið sérstaka virðingu fyrir því að það eru ekki allir straight, fylltist ég bæði ró, von og þakklæti.

Ég fylltist ró vegna þess að þrátt fyrir að sagan og nútíminn sýni viðstöðulaust hatur, ofbeldi og fordóma gagnvart ákveðnum hópum, sem meiða fólk og samfélög, líka á Íslandi, gátum við öll verið þarna glöð, örugg og stolt. Ég fylltist von vegna þess að er ég sat þarna varð það ljóslifandi fyrir mér hvað hópur af fólki, sem telst til minnihluta og hefur verið kerfisbundið kúgaður og þaggaður niður árum saman, getur með staðfestu, þrautseigju, ákveðni, skilvirkni og síðast en ekki síst gleði, ekki eingöngu náð fram réttindum sínum heldur snúið einu samfélagi svo mikið á hvolf að þjóðhátíðardagur Íslendinga kemst ekki með tærnar þar sem Gay pride hefur hælanna. Og svo fylltist ég þakklæti einfaldlega vegna þess að stundum tekur það svo á að synda á móti straumnum og losa okkur úr leðju meiðandi hefða og menningar að ég þurfti virkilega á því að halda að sitja þarna og sjá að það er þess virði að standa í því. Það er þess virði að halda áfram að synda og búa til nýjar hefðir og menningu sem er svona, hinsegin og alls konar og rúmar alla.

Róin, vonin og þakklætið sem ég upplifði var ekki síður vegna þess að ég var áminnt um að það eru til aðferðir, eins og hinsegin fólk á Íslandi hefur beitt, til þess að ná árangri og gera samfélagið okkar svo miklu öruggara og betra. Aðferðum, sem að sá hópur sem ég m.a. tilheyri og berst ásamt öðrum fyrir og aðrir hópar í sambærilegri stöðu, getum lært af og látið verða okkur til eftirbreytni.

Því vil ég segja við allt það baráttufólk sem hefur á einhverjum tímapunkti lagt sitt að mörkum með fjölbreyttum leiðum við að koma því í kring að einu sinni á ári er haldin risastór fjölskylduhátíð á Íslandi til þess að fagna margbreytileikanum; takk fyrir ykkur, sjáumst á laugardaginn.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s