Fyrir um 12 árum síðan, þegar ég var í 9. bekk, langaði mig nánast aldrei í skólan. Ég kveið fyrir árshátíðum, ég þoldi ekki að finna mér föt og ég hataði líkaman sem ég horfði á í speglinum. Mig langaði helst af öllu að geta klætt mig í svartan ruslapoka svo engin sæi hvernig ég liti út eða einfaldlega fá að vera bara heima.
Þegar ég horfði á sjónvarpið sá ég enga konu eins og mig. Þegar ég fletti blöðunum fannst mér allar konur sem þóttu eftirsóknarverðar vera andstaðan við mig. Þegar ég talaði um sætu strákana í skólanum urðu allir vandræðalegir því ég, fatlaða stelpan með ,,afbrigðilega” líkaman, átti ekki rétt á að vera skotin í strákum. Í kynfræðslu, þegar kennararnir birtu myndir af líkömum sem við áttum að samsama okkur við en litu út eins og Barbí og Ken, langaði mig að hverfa því ég upplifði það sem svo að ekki væri verið að tala um mig. Það var engin að senda mér andstyggileg sms eða skilaboð á netinu eins og þér og sjaldan verið að hreita í mig hatursfullum yfirlýsingum en þögnin, hunsunin og skorturinn á raunverulegum fyrirmyndum var nóg til þess að ég þráði ekkert heitar en að losna við þennan ógeðslega líkama sem mér fannst minn vera.
Árið 2004 fór ég svo á ráðstefnu þar sem ég hitti í fyrsta skiptið fólk með sömu líkamlegu skerðingu og ég í Bandaríkjunum. Þá hitti ég í fyrsta skipti konur með sambærilegan líkama og minn og svipuð útlitseinkenni. Þó það hljómi ótrúlega þá kom það mér á óvart að þær voru bara voðalega venjulegar konur sem voru að gera ósköp venjulega hluta; vera í háskóla, stunda vinnu, vera í hjónabandi og eignast börn. Ég þurfti að sjá það með berum augum að konur með líkama (þ.m.t. andlit) sem eru ekki nákvæmlega eins og líkamar kvennana sem birtast í sjampóauglýsingunum og á rauða dreglinum á Óskarsverðlaunahátíðinn væru bara venjulegar konur til þess að hætta að hata minn eigin. Enn síðar lærði ég um Alison Lapper, sem er fötluð listakona, sem hefur deilt á útlitsdýrkun með því að láta taka nektarmyndir af sér og gera skúlptúra af líkama sínum sem hún birtir svo umheiminum með það að markmiði að breyta því hvernig við hugsum um líkama og að það sé gott og mikilvægt að þeir séu alls konar. Ég lærði líka um Aimee Mullins sem er afrekskona í íþróttum og fyrirsæta en hún notar gervifætur og hefur leikið sér mikið með það að láta hanna alls konar fallegar gervifætur fyrir ólík tilefni. Hún nýtir það sem styrk að vera ekki með hefðbundnar fætur.
Allar þessar konur, bæði þær sem ég kynntist á ráðstefnunni og Alison Lapper og Aimee Mullins, eru mínar fyrirmyndir. Þær hjálpuðu mér allar að átta mig á að það að vera með óhefðbundinn líkama gæti verið spennandi og mikilvægur styrkleiki. Þó ég gleymi mér stundum í ruglinu enn þann dag í dag þá finnst mér almennt mjög skemmtilegt að fara út úr húsi og er aldrei heima hjá mér í felum, finnst fullskemmtilegt að versla mér föt og þykir nokkuð vænt um manneskjuna sem ég sé í speglinum á morgnana. Og ég þakka það þessum konum sem að mörgu leiti björguðu mínu lífi. Þær höfnuðu þessu ,,eðlilega”, rufu þögnina og ögruðu hatrinu með hugrekki, stolti og ást, nákvæmlega eins og þú varst að gera með því að stíga fram og segja söguna þína. Sögu sem hefur farið eins og eldur í sinu um internetið, sögu sem allir eru að tala um, sögu sem er á einum sólarhring búin að breyta samfélaginu okkar til hins betra. Ekki nóg með það heldur hefur þú strax gefið fleiri stúlkum styrk til þess að stíga fram og segja stopp en það gerði Bjarndís Sara í kjölfarið af sama hugrekki, stolti og ást og þú.
Og ég er ykkur báðum óendanlega þakklát því ég veit hversu mikilvægt það er að öðlast góðar fyrirmyndir. Góðar fyrirmyndir eins og ykkur sem eruð örugglega búnar að bjarga nokkrum mannslífum í gær og í dag.
Takk stelpur!