Fordómar · Lífið · Mannréttindi · Staðalímyndir

,,Ég sé að þú ert með hreint hár, borðaðir þú morgunmat?”

,,Ég sé að þú ert með hreint hár, borðaðir þú morgunmat?” sagði hjúkrunarfræðingur við vinkonu mína sem leitaði á neyðarmóttöku vegna lyndisröskunar sem hún er með og var að valda henni óbærilegum sársauka og vanlíðan á þeim tímapunkti sem hún kom þangað inn. Hún svaraði því til að hún hefði farið í sturtu um morguninn og já, borðað jógúrt. Hjúkrunarfræðingnum fannst það nógu góð ástæða til þess að senda hana rakleitt heim með þeim orðum að þeir sem væru raunverulega veikir hyrtu sig hvorki né nærðu. Og ekki var þetta í fyrsta sinn sem hún fékk þessi viðbrögð er hún leitaði eftir læknishjálp. Þessi vinkona mín stundar nám og vinnu, er alltaf hrein og vel til höfð, borðar oft með mér hinar ýmsu máltíðir og brosir og hlær í sambærilegum mæli og ég. Hún er samt með lyndisröskun og líður oft hræðilega illa. Svo hræðilega illa að flest fagfólk veit ekki (lesist: leggur sig ekki fram) hvernig það getur hjálpað henni.

Nú er í gangi söfnunin Á allra vörum sem:

beinir kastljósinu að þessu sinni að málefnum geðheilbrigðis á Íslandi. Þessi málaflokkur er erfiður, hann er sveltur fjárhagslega og enn eru margir haldnir fordómum gagnvart geðsjúkdómum. Þegar við heimsóttum geðsvið Landspítalans fundum við strax að þar væri þarft að leggja hönd á plóg.  Fyrir lá að bjóða upp á sérstaka bráðageðdeild eða gjörgæsludeild fyrir allra veikasta fólkið okkar. Einungis brot af þeim kostnaði sem verkefnið krefst  hefur verið fjármagnað af ríkinu. Okkar von er að „Á allra vörum“ takist að safna því sem uppá vantar

… eins og segir á heimasíðu þeirra. Þó svo að ég vildi óska þess að stjórnvöld myndu fjárfesta í geðheilbrigði okkar allra og hafa þetta í lagi og blása frekar til söfnunar um stöðugar nafnabreytingar og fjölgun ráðuneyta en niðurlægja ekki geðfatlað fólk og fólk með lyndisraskanir með því að það þurfi að safna fyrir bráðadeild þá er samfélagið ekki þannig. Því miður. Blásið er til stöðugra safnanna um lífsnauðsynlega þjónustu með misjöfnum hætti.

efa6ce028b0d14fAllavega. Mér finnst söfnunarátakið í ár snúa að verðugu málefni og mun ég að öllum líkindum kaupa mér gloss eins og ég hef yfirleitt gert. Hins vegar ofbýður mér gjörsamlega þær leiðir sem eru farnar í söfnunarátakinu til þess að ná til okkar, fólksins í samfélaginu. Ég missti andlitið er ég fletti Kjarnanum í fyrradag og sá þar auglýsingu; adlitsmynd af stúlkubarni, með þjáningarsvip og tárin að leka niður andlitið sem höfðu myndað skörð í andlit hennar. Neðst á myndinni stóð svo; Þerrum tárin.

Harpa Hreinsdóttir, sem sjálf er með lyndisröskun, lýsir og rökstyður vel hvers vegna þetta er óviðeigandi, niðurlægjandi og móðgandi en hún segir:

Myndaserían sem Á allra vörum birtir nú ótt og títt á heilsíðum dagblaða og á Vefnum sýnir erkitýpur þunglyndissjúklinga (en þunglyndissjúklingar verða aldrei nema brotabrot af sjúklingaflóru deildarinnar sem verið er að safna fyrir). Þetta eru dökkar og napurlegar myndir, af konum með rytjulegt úfið hár og körlum sem hafa mátt muna fífil sinn fegri, meira að segja fylgir eitt heldur ótótlegt stúlkubarn.  Fyrirsæturnar eru með tárvot augu og afar þjáningarfullar á svipinn, minna kannski mest á þau mæðgin Maríu mey og Jesús á harmfyllstu rómantísku málverkum fyrri tíma eða í nútíma kraftaverkastyttum sem gráta blóði. Til að bæta enn á þjáningarfullan svip hinna hrjáðu fyrirsæta eru sprungur í andlitum þeirra og jafnvel niður á háls, annað hvort eru þetta djúpir farvegir eftir stöðugan og langvarandi táraflauminn eða tákna að þessar manneskjur eru ekki heilar, þær eru sprungnar, sem sagt bilaðar.

Svo segir hún:

Ég er illa haldin af þunglyndi og stundum ansi veik af sjúkdómnum (til dæmis þessa dagana). En ég geng ekki um eins og argintæta til höfuðsins og andlitið á mér er ekki sprungið enda er ég heilsteypt persóna þótt ég hafi þennan sjúkdóm. Eins og aðrir þunglyndissjúklingar get ég oftast brosað og set (vonandi) aldrei  upp svip þeirrar eilífu þjáningar sem er meitlaður í módel Á allra vörum. Mér finnst það móðgun við mig og aðra geðsjúka að birta svona myndir í umfjöllun um geðræna sjúkdóma!

Þó svo að ég hafi ekki upplifað það að vera með geðfötlun þá er ég hreyfihömluð og þarf stöðugt að líða þau fatlandi áhrif sem tilfinningaklám um fatlað fólk sem ýmist hetjur eða fórnarlömb og staðalímyndir af fötluðu fólki sem vanhæfum, vesælum, kostnaðarsömum og gölluðum aumingjum hefur. Það fatlar mig í skólanum þegar kennarinn heldur að ég geti ekki lært, í vinnunni þegar samstarfsmaður spyr stöðugt hvort ég sé ekki þreytt, á fundi hjá sveitarfélaginu mínu og ég fæ að heyra hvað það er dýrt að tryggja mér grundvallar mannréttindi, úti í búð þegar fólk klappar mér eins og hvolpi fyrir að lifa lífi sem er víst ,,svo sorglegt” og er ég fer út að skemmta mér og fæ hrós í líkingu við fálkaorðuna fyrir að taka skot og vera undir áhrifum áfengis. Alltt þetta fatlar mig miklu, miklu meira en líkaminn minn sem virkar að mörgu leiti svo vel.

Á heimasíðu Á allra vörum kemur fram að geðfatlað fólk líði fyrir fordóma og brengluð viðhorf. Þá spyr ég ykkur, kæru ábyrgðaraðilar á þessari söfnun, hvernig í veröldinni teljið þið að þessi niðurlægjandi og steríótýpaða auglýsingaherferð styrki stöðu geðfatlaðs fólks og fólks með lyndisraskanir? Við getum nefnilega verið með fjármagnaða bráðageðdeild en fullt samfélag af fólki, bæði fagmenntuðu og ófagmenntuðu fólki (sem jafnvel starfar þar), sem heldur að geðfatlað fólk sé ekki geðfatlað nema að það sé með skítugt hár, grátbólgið og lifað andlit, ekki búið að borða og stökkvi aldrei bros. Og slík viðhorf geta hæglega ýtt undir veikindi, komið í veg fyrir bata og viðhaldið þeim vanda sem umræddur hópur glýmir við. Sem leiðir það mögulega af sér líka að við þurfum ekki síður að þerra tár. Tár sem falla ekki vegna vegna veikindanna sjálfra heldur fordómana sem hópurinn verður fyrir.

Ég hef allavega þurft að þerra miklu fleiri tár um ævina vegna fordóma sem ég hef orðið fyrir heldur en líkamans sem hefur stundum truflað mig en ég er svo heppin að hafa fæðst í.

Vöndum okkur, við getum betur!

Advertisements

6 thoughts on “,,Ég sé að þú ert með hreint hár, borðaðir þú morgunmat?”

  1. Takk fyrir frábæra grein (lesist: hugvekju). Ég þekki vel hvað það er að vera með lyndisröskun en geta þó sótt vinnu, félagslíf og hirt um sjálfan mig. Sjálfur fann ég lausn við sjálfsvígsþunglyndi með því að nota „Ferli hins jákvæða vilja“ (ferlid.not.is). En það er oft þannig með okkur sem ekki falla inn í rammann sem fólk væntir, að við þurfum stundum að finna okkar eigin farveg.

  2. Þakka fyrir ábendingar Hörpu og er henni hjartanlega sammála. Ég er hrædd um að átakið muni auka fordóma og vinna á móti þeim árangri sem náðst hefur í glímunni við mismunun og fordóma. Ég hef þegar gert athugasemdir við átakið sjálft “Á allra vörum” og gert grein fyrir mínum áhyggjum og sömuleiðis á rúv. Með bestu kveðju. Auður Axelsdóttir forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgdar og Hugaraflskona

  3. Kæra Freyja, þetta er frábær grein og vel skrifuð, kærar þakkir!! Vona að skrif þín og okkar sem hafa gert ahugasemdir nái til þessara aðila!.

  4. Ég hef séð þessar myndir sem tákn um þá líðan sem geðsjúkdómar valda hið innra, auðvitað ber fólk ekki sprungurnar utan á sér. Margir verða afar færir að dulbúa líðan sína og fela, með brosi, hlátri og hressleika. Vanda sig jafnvel við að líta vel út til að enginn geti giskað á þann sjúkdóm sem sýkir að innan. Þessi grímudansleikur hefur að megninu til verið settur á svið vegna þeirra fordóma sem fólk með geðræn vandkvæði hefur orðið fyrir í samfélaginu. Ef fólk hefur ekki orku í þennan leik lokar það sig oft af, eins og aðstæður leyfa. Sumir halda grímunni út í rauðan dauðann, aðrir missa hana og gefast upp á leikunum, það er iðurlega seinni hópurinn sem fær stimiplinn “nógu veikur” til að fá hjálp. Geðsjúkdómar eru eins og borgarísjaki, þ.e aðeins lítill hluti sjúkdómsins er öðrum sýnilegur, Þetta eiga geðheilbrigðisstarfsmenn að vita, margir eru starfi sínu vaxnir og átta sig á að “grímufólkið” getur verið jafn hætt komið og hinir grímulausu. Vissulega líta ekki allir sem eiga við gæðræn vandkvæði svona út að utan. En flestir geta þeir samsamað líðan sína hið innra, á einhverjum punkti, við þessar myndir, sprungurnar tákna þann part sem öðrum er hulinn, svipir og sorg það sem flestir fela hið innra, til að forðast þá fordóma sem átakið miðar að afhjúpa.

  5. Þetta hefur líka áhrif á þá veiku. Ég man að ég hugsaði svona oft þegar mér leið sem verst: „En
    ég brosti í morgun, líður mér þá nokkuð illa?“ Takk fyrir góðan pistil.

  6. þetta er mjög góður punktur hjá þér Freyja að auglýsing á allra vörum geti flokkast sem einskonar tilfinningaklám og stereótýpur af geðsjúkum hvað varðar sjálfsumhirðu og annað sem þú nefndir. Auglýsingin af mömmunni sem liggur í rúminu með angistarandlit er ein slík auglýsing og er einhverskonar tilraun til að lýsa sjónarhóli aðstanda. Mér finnst hún þó ekki geta flokkast sem einhverskonar niðrandi stereótýpa-frekar raunsönn og alls ekkert ýkt- mynd af veikum einstaklingi og hvernig börn slíkra einstaklinga upplifa þetta ástand. Það gleymist oft að geðsjúkir eru ekki einir í heiminum. Allir sem standa honum nærri og næst, líða mjög mikið. Eg myndi segja að helvíti á jörð sé ekki ofmælt. Það er mikill stigsmunur á geðsjúkum sem geta stundum, kannski oftast staðið á eigin fótum í lífinu og svo hinum sem geta það alls ekki vegna ranghugmynda, ótta og skorts á innsæi á sitt sjúkdómsástand. Eg vil skilja það sem svo að átakið sé fyrst og fremst fyrir það fólk.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s