Mannréttindi · Meiri fjölbreytni · Staðalímyndir

Menntun, jafnréttisbarátta og alls konar konur

intersectionalitySigríður María stóð sig vel á ráðstefnu BBC um framtíðarmarkmið kvenna. Hún fjallaði um margt sem höfðaði mikið til mín og ég er henni sammála um mikilvægi menntunar, þess að við þekkjum söguna og virðum í verki baráttu kvennana sem komu á undan okkur og hafa tryggt okkur margvísleg mannréttindi.

Þó er ég hugsi yfir áhersluna á menntun og að það ,,skipti ekki máli hvað gerist eftir það.” Ef ég hugsa um mína skólagöngu alla er hún ekki lykillinn að mínu frelsi og sjálfstæði í dag – hún er eingöngu brotabrot af því. Á skólagöngu minni hef ég öðlast dýrmæta þekkingu og komist í kynni við kennara sem hafa mótað mig mikið sem manneskju og skapað mér tækifæri til valdeflingar. Á hinn bóginn held ég að mesta niðurbrotið, niðurlægingin og frelsissviptingin hafi farið fram á skólagöngu minni sem hefur haft þær afleiðingar að á hverjum degi þarf ég hafa mikið fyrir því að virða sjálfa mig og vernda réttindi mín. Í skólanum hafa nefnilega verið fullt af kennurum sem töldu mig ekki geta lært, sem töluðu aldrei við mig heldur aðstoðarmanneskjuna og kenndu námsefni þar sem fötlun var hvergi sjáanleg sem norm eða partur af fjölmenningu og konur voru í minnihluta yfir hetjurnar sem við lærðum um í sögu eða fræðimennina sem við þurftum að læra utan að í sálfræði og félagsfræði. Sú reynsla eyðilagði mig ekki en ástæðan fyrir því liggur fyrst og fremst í því að fjölskyldan mín hjálpaði mér að púsla saman brotunum í sjálfsmyndinni ásamt vinum, sumum kennurum en fyrst og fremst annað fatlað fólk – einkum fatlaðar konur. Fötluðu konurnar sem hafa rutt hinar ýmsu brautir hvort sem það varðar möguleikan til menntunar, atvinnu, barneigna, ferðalaga, virðingu fyrir líkamanum o.fl. Sumar þeirra hef ég aldrei hitt en eingöngu hlustað á fyrirlestra eða lesið bækur eftir. Sumar hef ég komist í kynni við í alþjóðlegu samstarfi í vinnu minni og aðrar eru blessunarlega í mínu nærumhverfi alla daga, bæði kunningjakonur, samstarfskonur og vinkonur. Margar þessara kvenna hafa einmitt lýst þessu með vonda reynslu sína úr skólagöngunni. Sumar enn verri reynslu en ég tel mig hafa og þá sérstaklega þær sem hafa verið í sérdeildum eða sérskólum. Ein íslensk fötluð unglingsstúlka sem ég hitti um daginn sagði blákalt að kennari í sérskóla hafði svipt hana sjálfsvirðingu sinni með því troða upp á hana hlutverki fatlaða barnsins alveg stöðugt, alla daga.

Þegar þetta er reynslan skiptir mjög miklu máli hvað gerist eftir að námi líkur. Þá kemur að því að velja sér atvinnu, skapa sér heimili, mögulega eignast maka og/eða börn. Því reynslan úr skólanum mótar þig þegar þú ert að ákveða hvort þú eigir að sækja um starf sem framkvæmdastýra eða krefjast launahækkunar á lífsleiðinni, þegar þú ákveður að bjóða þig fram til Alþingis og hvað þá stíga þar inn og láta til þín taka, þegar þú hugsar um hvort þú getir haldið þitt eigið heimili, þegar þú hittir sætan strák niðri í bæ en veltir fyrir þér hvort þú eigir ekki bara að koma þér undan áður en þú veldur honum óhjákvæmilega vonbrigðum eða þegar þú ert tilbúin að eignast barn en óttast viðbrögð samfélagsins við þér sem fatlaðri móður. Þessi reynsla úr skólanum, hver sem hún er, stýrir miklu í okkar hegðun, ákvörðunum og þeirri heimsmynd sem við höfum allt lífið.

Af því að menntun er ekki bara eitthvað eitt. Menntun getur verið alls konar. Hún getur bæði verið lykillinn að dyrum sem opnast upp á gátt en líka dyrum sem læsa þig inni. Og það sama má í raun segja um konur (og karla, for that matter). Kona er ekki samnefnari fyrir eitthvað eitt. Konur eru alls konar. Það þýðir að þær upplifa ekki bara mismunun á grundvelli kyns heldur mögulega á grundvelli litarhafts, kynhneigðar, trúar, aldurs og fötlunar. Og því fleiri breytur sem koma inn í þessa mismunun því flóknara getur það orðið fyrir okkur að bregðast við sem samfélag en líka sem einstaka manneskjur. Því ítrekað upplifum við, amk. ég, mismunun, og við vitum kannski ekki á hvaða grundvelli það er. Ég veit t.d. ekki alltaf, þegar ég upplifi lítilsvirðingu á fundum í vinnunni, þar sem meirihlutinn er mögulega ófatlaðir (eða ekki), hvítir, miðaldra, karlar hvort það er vegna þess að ég er fötluð, ung eða kona. Eða hvort það er víxlverkun allra þáttana. Og þegar ég veit það ekki veit ég ekki alltaf hvað ég get gert til þess að mótmæla/bregðast við/vera með andóf gegn því.

Það sem ég er einfaldlega að benda á er það sem mér finnst alltof oft gleymast í jafnréttisbaráttunni en það er ekki nóg að konur hafi sömu laun, hafi aðgengi að menntun, séu í háum stöðum og stjórnum og birtist jafn oft í fjölmiðlum og karlar og í sama tilgangi. Innviði fyrirtækja, menntastofnana og fjölmiðla þurfa að vera hönnuð af bæði konum og körlum – sem eru alls konar. Svo alls konar konum og körlum geti liðið vel, haft sömu tækifæri og áhrif. Þegar ég hef bent á þetta hef ég oft fengið athugasemd um að einn hópur dragi vagn annars hóps í mannréttindabaráttu. Og því er ég í raun sammála. Það er hins vegar ekki alltaf svo einfalt. Því t.d. í tilviki fatlaðra kvenna draga ófatlaðar konur ekki alltaf vagninn. Og það er vegna þess, m.a., að fatlaðar konur eru ekki álitnar konur – ein af brennimerkingunum er kynleysi – og því sitjum við stundum eftir og þurfum að hefja baráttuna fyrir tilteknum málum sjálfar frá grunni.

Ég er ótrúlega stolt af Sigríði Maríu. Ég mun segja börnunum mínum, hvort sem það verða strákar eða stelpur, frá henni og sýna þeim ræðuna hennar, sem og öðrum alls konar konun og körlum sem hafa barist fyrir jafnrétti og öðrum mannréttindum. Mér finnst traustvekjandi að 19 ára íslensk kona hafi flutt þessa ræðu fyrir heiminn. Það gefur mér von. Ég er líka ánægð með áherslur hennar á menntun og legg mikið upp úr henni sjálf, bæði persónulega og pólitískt. Og ég er henni í raun þakklát fyrir að hafa kveikt löngun innra með mér til þess að segja það sem ég alltof oft bara hugsa; að í allri umræðu um jafnrétti má ekki gleyma að konur tilheyra alls konar hópum sem gerir það að verkum að reynsluheimur þeirra er margbreytilegur. Og ef við viðurkennum það ekki og tökum það með í reikninginn náum við ekki raunverulegum árangri fyrir allar konur.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s