Uncategorized

Jón Gnarr, stafsetning og Björt framtíð í Reykjavík

Image,,Upplifun mín er svolítið eins og að vera í leshring þar bara er talað um stafsetningu en ekki söguna. Ef þú leyfir þér að dreyma um söguna færðu hvasst augnráð.“ sagði Jón Gnarr m.a. í útvarpinu í morgun er hann upplýsti okkur um að hann ætlaði ekki fram sem Borgarstjóri í Reykjavík og að Besti flokkurinn myndi renna saman við Bjarta framtíð sem ætlar að bjóða sig fram.

Það sem að ég held að Jón hafi gert sem stjórnmálamaður og muni gera þar til hann hættir er einmitt að ögra öllum þeim sem vilja bara tala um stafsetningu og að mestu hunsa hið efnislega í sjálfri sögunni. Hann hefur leyft sér að dreyma og fjalla um söguna, sem er auðvitað grundvallaratriði, því ef það er engin saga og enginn efniviður eru innantóm rétt stafsett orð ekki að fara koma okkur þangað sem við ætlum okkur.

Þó ég hafi ekki alltaf skilið Jón og jafnvel látið sumt sem hann hefur sagt og gert fara í taugarnar á mér þá tel ég hann hafa gert óendanlegt gagn sem borgarstjóri, fyrir Reykjavík og fyrir samfélagið okkar allt. Og ég vil meina að hans vinnubrögð í Besta flokknum, og allra annarra þar, og það góða sem hefur af þeim komið hafi mótað okkur öll í Bjartri framtíð og sett sinn svip á það hvernig við stundum stjórnmál. Því um leið og okkur er ekki sama um stafsetningu vitum við að það verður engin saga án efniviðs og að til þess að hann verði til verðum við að hugsa, pæla og dreyma. 

Þegar ég settist á þing í fimm daga í sumar var Jón mér ofarlega í huga allan tíman. Vegna þess að í fyrstu sá ég ekki hvernig ég ætti að gera gagn á svo stuttum tíma en áttaði mig svo auðvitað á því að þetta snérist ekki um fjölda daga heldur hvernig ég nýtti móment til þess að gera eins mikið gagn og hægt er í þeirri stöðu sem ég var í. Mómentin reyndust verða mörg á fimm dögum. Og til þess að nýta þau var gott að minna sig á Jón því hann hefur í öllu falli nýtt margskonar augnablik til að breyta samfélaginu, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim.

Að lokum. Ég hef setið hundruði funda með ráðherrum, bæjarstjórum, þingmönnum, borgarstjórum og öðru valdamiklu fólki sem mannréttindabaráttukona, einkum á sviði notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk. Fundirnir hafa verið eins misjafnir og þeir hafa verið margir og fólkið líka. Mér er sérstaklega minnisstæður fundur sem ég og fleiri í NPA miðstöðinni áttum með Jóni vegna óánægju fatlaðra Reykvíkinga með upplýsingaflæði og framkomu á þjónustumiðstöðum varðandi NPA. Það sem gerði fundinn minnistæðan var það að ekki bara hlustaði Jón af athygli (það er ekki sérstaklega algengt á svona fundum), hann fór aldrei í vörn (það er fátítt í svona aðstæðum) og lagði skýrar línur um hvað skyldi gera í málinu (það er líka sárasjaldan gert) heldur baðst hann líka afsökunar á málin væru með þessum hætti. Það hef ég aldrei upplifað, hvorki fyrr né síðar þó svo að listinn yfir þá sem fatlað fólk ætti raunverulega skilið afsökunarbeiðni frá sé orðinn óhuggulega langur að mínu mati. Og af hverju skiptir þetta máli? Vegna þess að með því að hlusta, meðtaka, leggja línurnar og biðjast afsökunar er ekki bara verið að sýna kurteysi heldur líka að viðurkenna að upplifun hópsins á rétt á sér, að mark sé á henni takandi og að mikilvægt sé að skapa aðstæður til þess að breyta vinnubrögðum til þess að upplifunin verði önnur.

Ég mun sakna Jóns þegar hann hættir þó ég búi ekki í Reykjavík. En það gleður mig auðvitað mikið að framundan sé björt framtíð í Reykjavík.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s