Ég sótti Jafnréttisþing Velferðarráðuneytisins í dag og verð að segja að ég er hugsi. Sem femínisti fagna ég þessu þingi og allri umræðu um jafna stöðu kvenna og karla en verð að viðurkenna að sem fötluð kona varð ég fyrir vonbrigðum.
Þingið var haldið á mjög óaðgengilegum stað þar sem augljóslega var ekki gert ráð fyrir fólki sem notar hjólastóla, salirnir voru þröngir og hvergi almennilegt rými til þess að vera, fjöldinn var svo mikill (sem er auðvitað gleðilegt) að á göngunum var svo þröngt að ég komst varla úr stað og ekki var fræðilegur möguleiki fyrir mig að borða hádegismatinn á staðnum því hvergi var hægt að sitja við borð né var aðgengi að diskum og hnífapörum. Gengið var út frá að allir gætu staðið og borðað með höndunum.
Ég sótti eftir hádegi málstofu um útvíkkun jafnréttishugtaksins þar sem ég hlustaði á fína fyrirlestra um samtvinnun mismununarbreyta, beina og óbeina mismunun og mikilvægi þess að auka umræðu um ólíka minnihlutahópa og efla samstarf grasrótar, stjórnsýslunnar og fræðasamfélagsins. Fyrirlestrarnir voru bæði út frá sjónarhorni lögfræðinnar og kynjafræði. Í pallborði sátu svo ólíkir sérfræðingar. Það sem var skrítið og í raun frekar frústrerandi var að hópurinn sem talaði, bæði í fyrirlestrum og sat í pallborði, var allt fólk sem að öllum líkindum tilheyrir ekki jaðarhópum (allavega kynnti það sig ekki á þeim forsendum). Það er orðið mjög þreytandi að hlusta á aðra tala um sig og reyna að finna út úr því hvað á að gera við okkur ,,samtvinnaða hópinn”. Líkt og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, samstarfskona mín og vinkona, sem er fötluð samkynhneigð kona, benti á er frekar óviðeigandi að ekki sé fólk á mælendaskrá sem upplifir samþætta mismunun og getur betur útskýrt hvaða þýðingu það hefur að vera mismunað í grundvelli margra þátt. Þó lögfræði og kynjafræði sé bráðnauðsynlegur grundvöllur til umræðu um þetta er lykilatriði að ekki bara víkka út jafnréttishugtakið heldur líka víkka hópinn sem talar um það tiltekna hugtak. Til þess að taka raunverulega umræðu um þetta þarf að fá að borðinu alls konar konur (og karla), svona og hinsegin, fatlaðar og ófatlaðar, íslenskar og erlendar o.sfrv.
Þó svo að efnislega hafi málstofan verið fín vantaði, að mínu mati, raunveruleikatengingu og dýpri umræðu um hvers vegna það að taka til greina ólíkar mismununarbreytur er mikilvægt í umræðu og verkum um jafnrétti. Á hverjum einasta degi upplifi ég mismunun í einhverju formi, stundum á grundvelli fötlunar og stundum á grundvelli kyns. Stundum veit ég ekki á hvaða grundvelli það er. Það er flóknast því þá veit ég ekki nógu vel hvernig ég geti brugðist við eða verið með andóf gagnvart því.
Til dæmis í dag upplifði ég slíkt augnablik, á sjálfu jafnréttisþinginu. Þá kom kona sem ég þekkti ekki upp að mér og sagði algjörlega upp úr þurru; ,,Mikið ertu sæt!” Það er flókið að útskýra af hverju þetta er niðurlægjandi en margir spyrja sig væntanlega af hverju ég sé ekki bara ánægð með slíkt comment. Ég hefði verið það og er það ef þetta er comment frá einhverjum sem ég þekki, ef það hefði verið sagt með venjulegum raddblæ og í samhengi við aðstæður. En ég þekkti þessa konu ekki neitt og hún notaði raddblæ sem við notum oft við börn. Svo var þetta athugasemd sem kom alveg eins og þruma úr heiðskýru lofti og hljómaði eins og hún væri svolítið hissa á því að ég liti vel út, nógu hissa til þess að taka það fram með þessum hætti.
,,Takk” muldraði ég verulega pirruð vegna þess að þessi þrjú orð voru bæði vísun í að það sé mikilvægt fyrir konu að vera sæta en um leið, sem gerir þetta allt svo öfugsnúið og flókið, vísun í að sú staðreynd að ég væri meikuð, með eye liner, maskara, rauðan varalit og uppsett hár (eins og 70% af konunum þarna inni) bæri til ákveðinni tíðinda og mikilvægt væri að minnast sérstaklega á það í ljósi þess að ég er fötluð. Því það að konur eigi að vera sætar (as an: vel til höfð) er rík krafa í samfélaginu, krafa sem femínistahjartað mitt vill ögra. Sú krafa er hins vegar ekki gerð til fatlaðra kvenna og er alla jafna gengið út frá því að þær séu á íþróttabuxunum og flíspeysunni daginn út og inn, við öll tilefni. Og er skortur á þeirri kröfu til fatlaðra kvenna eitthvað sem hjarta fötluðu konunnar vill ögra. Og því stend ég frammi fyrir þeirri ákvörðun á hverjum degi hvort hjartahólfið ég eigi að hlusta á. Yfirleitt vel ég að ögra hugmyndunum um fötluðu konuna því við erum færri sem getum gert það. Og það er augljóslega ekki vanþörf á miðað við hve miklum usla það olli nútíma konu á jafnréttisþingi í dag að ég veldi að vera það sem hún vill skilgreina sem það að vera sæt. Það áhugaverða var að ég var bara voða svipuð og allar hinar konurnar en hins vegar liggjandi í hjólastól, með líkama sem seint verður skilgreindur normal og horfandi eingöngu til vinstri. Og um það, m.a. snýst mikilvægi þess að horfast í augu við það að til þess að ná fram raunverulegu kynjajafnrétti þurfum við að taka með í reikninginn, hvort sem það ógnar heimsmynd okkar eða ekki, að konur eru alls konar og raddir þeirra verða að fá rými og pláss til þess að heyrast.