Björt framtíð fór fram m.a. með það í kosningabaráttu sinni að vilja auka samráð milli ólíkra aðila, t.d. stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins laungþega, fjármálageirans og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið og umbætur á ýmsum sviðum. Mikilvægi þess er okkur augljóst en við teljum að með því megi draga úr tortryggni milli aðila sem myndast af óvissu og auka traust sem stuðlar að meiri sátt.
Í dag spurði ég félags- og húsnæðismálaráðherra með hvaða hætti hún sér fyrir sér að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks þegar kemur að samráði við þann hóp og hvernig megi með markvissum aðgerðum auka náið samráð við fatlað fólk sjálft, virka þátttöku þess og aðkomu að allri ákvarðanatöku frá upphafi ferils til enda, á öllum stigum stjórnsýslunnar, í málum sem það varðar. Reynslan hérlendis sýnir að algengt er að fatlað fólk komi eingöngu að stefnumótun og lagasetningu á lokastigum, sé í miklum minnihluta á mælendaskrá á ráðstefnum um málefni þess og sitji sjaldan eða ekki í nefndum og ráðum um stefnumótun og framkvæmd er varðar líf þess, bæði á sveitarstjórnarstiginu og innan ráðuneyta. Fulltrúar heildarsamtaka fatlaðs fólks hafa skilgreinda samráðsstöðu í lögum um málefni fatlaðs fólks, sem er vel, en þau samtök eru hins vegar oft stýrð af ófötluðu fólki sem senda ítrekað ófatlaða fulltrúa að borðinu.
Þessi staða gengur í berhögg við Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks en þar kemur fram að við undirbúning ljöggjafar og stefnu er varðar málefni fatlaðs fólks skuli haft náið samráð við það og tryggja virka þátttöku þess í allri ákvörðunartöku er varðar líf þess. Jafnframt kemur þessi stefna ítrekað fram í framkvæmdaráætlun í málefnum fatlaðs fólks til 2014 þar sem aukin áhersla er á notendasamráð í þjónustukerfinu og þátttöku fatlaðs fólks í mótun stefnu og löggjafar. Því ber auðvitað að fagna en það er ekki nóg að skrifa það á blað heldur verður það að komast til framkvæmda.
Ég viðurkenni að ég hefði gjarnan viljað fá skýrari svör um áform félags- og húsnæðismálaráðherra í þessum efnum og að hún hefði haldið sér betur við efnið. Ég fagna því þó að hún telji að um mikilvægt mál sé að ræða. Ráðherra nefndi að hafa bæri í huga að hópur fatlaðs fólks væri ólíkur og hlusta þyrfti á raddir allra. Ég legg einnig mikla áherslu á það og nefndi að nauðsynlegt væri huga sérstaklega að hópnum sem á erfitt með að tjá vilja sinn en á samkvæmt 12. grein Sáttmála SÞ rétt á aðstoð við það. Ráðherra nefndi að hún hefði áhyggjur af því að hafa ekki nægt fjármagn í málaflokkinn en benti ég á að það að auka samráð, virka þátttöku og aðkomu fatlaðs fólks að ákvörðunum um mál sem það varðar kalli ekki endilega á kostnað, t.d. með skipan fatlaðs fólks í nefndir og að fatlað fólk fjalli um eigin mál á ráðstefnum.
Áherslan á virka þátttöku valdaminni hópa og aðkomu að eigin málum hefur verið ríkjandi í mannréttindabaráttu ólíkra hópa, þ.e. hinsegin fólks, kvenna og svarts fólks. Í jafnréttisbaráttu kynjanna birtist þetta t.d. sterkt í áherslunni á kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð þar sem markmiðið er að endurskipuleggja hana þannig að kynjasjónarmiðum sé fléttað inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun sem stuðli þannig að auknu jafnrétti í samfélaginu.
Það sama gildir auðvitað um fatlað fólk. Samtök fatlaðs fólks um allan heim hafa haft kjörorðin ,,ekkert um okkur án okkar” að leiðarljósi í mannréttindabaráttu sinni fyrir sjálfstæði, frelsi, aðgengi, virkri þátttöku og jöfnum tækifærum á öllum sviðum í áratugi. Er í raun um að ræða kröfu um að fötluðu fólki séu skapaðar aðstæður til þess að tala fyrir sig sjálft og það sé álitið sérfræðingar í eigin lífi. Einnig er um að ræða ákveðið andóf gagnvart því að annað fólk tali fyrir fatlað fólk og taki ákvarðanir án þess að þekkja raunverulega þær aðstæður sem fatlað fólk býr við sem hópur sem er undirskipaður, útilokaður og aðgreindur í samfélögum sem eru hönnuð af ó-fötluðu fólki fyrir ó-fatlað fólk.
Lykillinn að því að breyta strúktúr samfélagsins er að fatlað fólk sé leiðandi í allri lagasetningu og stefnumótun og því er tímabært að sá dagur fari að renna upp að það hvarfli ekki að ráðherrum, þingmönnum, embættismönnum og fagfólki að fjalla um okkur, og taka ákvarðanir sem varðar okkar líf, án okkar.