Fordómar · Lífið · Mannréttindi · Meiri fjölbreytni · Meiri sátt · Staðalímyndir

Húmorslausa, viðkvæma, athyglissjúka frekjan sem kann ekki að skammast sín

Á miðvikudagskvöldið gagnrýndi ég Vigdísi Finnbogadóttur á Facebook síðunni minni fyrir orðaval sitt eftir að hún lýsti því í Ísland í dag að Ríkisútvarpið hefði ,,fatlast svolítið”. Leið ekki á löngu þar til gagnrýnin var komin í fréttirnar og varð umfjöllunin mest lesin daginn eftir og fékk um hundrað athugasemdir.

Ég var svosem ekki hissa á að gagnrýnin fengi athygli, þó það hafi ekki verið tilgangurinn með henni, en ég var mjög hissa á vinnubrögðunum í tengslum við hana og þeim ofsafengnu viðbrögðum sem blossuðu upp í kjölfarið, m.a. af óvandaðri fréttamennsku. Fyrirsögn fréttarinnar bar það með sér að ég væri móðguð (og raunar allt fatlað fólk) en það kom aldrei fram í stöðuupfærslunni minni á Facebook heldur var það túlkun fréttastofu. Jafnframt var fréttinni ekki fylgt eftir með viðtali við mig eða frekari umfjöllun þrátt fyrir þá gríðarlegu athygli sem þetta fékk. Ekki veit ég hvort leitað hafi verið eftir viðbrögðum Vigdísar en þau hafa allavega ekki komið fram.

Í fyrsta lagi sagði ég á Facebook að orð Vigdísar, sem er ein af flottustu konum sem Ísland á mér mikil fyrirmynd, hefðu valdið mér vonbrigðum. Ég móðgaðist ekki í þetta sinn enda sagði Vigdís ekki að Ríkisútvarpið væri eins og ég. Þau ollu mér vonbrigðum, ekki vegna þess að hugtakið fötlun er ljótt, þvert á móti, heldur vegna þess að hugtak sem er notað til þess að lýsa jaðarhóp sem á mikilvægan þátt í að skapa hér fjölmenningarsamfélag og dýrmætan margbreytileika, var þarna notað til þess að lýsa stofnun þar sem hafa farið fram fjöldauppsagnir, mikið uppnám ríkir, slæm samskipti hafa birst og margt virðist vera í ákveðna lamasessi. Ég veit ekki hvort ófatlaðir samborgarar mínir haldi að í lífi fatlaðs fólks séu stöðugar fjöldauppsagnir í gangi, þar ríki mikið uppnám, samskiptamynstur séu á villigötum og allt sé í lamasessi.

Eins og komið hefur fram létu viðbrögðin ekki á sér kræla. Ég las þau ekki öll og svaraði nánast engu því það er eitt af mottóum mínum í lífinu að eyða ekki orku minni í athugasemdakerfi á netinu. Það sem ég rak augun í var að ég væri húmorslaus frekja, ofurviðkvæm, athyglissjúk og gengi alltof langt. Á einum stað, amk., var því slegið fram að ég skyldi biðjast afsökunar.

Nú verðið þið bara að fyrirgefa mér en ég gat ekki annað en brosað af þessum viðbrögðum og verð að spyrja nokkurra spurninga:

1.    Hversu mikið húmorsleysi, ofurviðkvæmni, athyglissýki og markaleysi þarf ófatlað fólk að hafa til þess að finna sig knúið til þess að tryllast í athugasemdakerfi þegar fötluð kona gagnrýnir ríkjandi orðræðu um fatlað fólk?

2.    Hversu illa haldið af meðvitundarleysi um eigin forréttindastöðu og vald er ófatlað fólk þegar það þolir ekki að það hvernig það talar niður kúgaðan minnihlutahóp og gerir lítið úr veruleika hans sé gagnrýnt af manneskju sem tilheyrir minnihlutahópnum og upplifir afleiðingarnar af ríkjandi niðrandi orðræðu í lífi sínu á hverjum einasta degi? Dæmi: mér er klappað á kinnina í vinnu minni á Alþingi og sagt hvað ég sé dugleg (en þess ber að geta Guðmundi Steingrímssyni, sem ég leysi af, hefur aldrei verið klappað á kinnina þar þó hann sé bara frekar duglegur maður), fólk kemur hikstalaust upp að mér í búðinni og jesúsast yfir því hvað líf mitt hljóti að vera erfitt og afhendir mér nánast bikar vegna þess hve mikil hetja ég sé að geta verið glöð (og ég velti fyrir mér; hvernig ætti ég að geta verið nokkuð annað?).

3.    Síðan hvenær hefur það verið viðurkennt af valdaminni hópum að forréttindahópar stýri orðræðu um valdaminni hópinn? Erum við í alvörunni svo skammt á veg kominn í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks að ófötluðu fólki finnst það mega nota hugtak sem lýsir okkur sem hóp og er stór partur af sjálfsskilningi okkar sem orð til þess að lýsa öllu sem er bilað, gallað eða í uppnámi? Getur ófatlað fólk ekki komist lífs af ef það hættir því og finnur ný orð í verkið? (Hugmyndir: Ríkisútvarpið á í erfiðleikum, að því þrengir, þar er uppnám, óöryggi, vanlíðan). Er það virkilega til of mikils ætlast að við fáum að stjórna orðræðunni sjálf og taka rökræðuna innan hópsins?

4.    Væru þessi viðbrögð þau sömu ef ég væri karl að gagnrýna orðræðuhefð? Væri ég þá ein stór húmorslaus tilfinningahrúga? Og ef Vigdís Finnbogadóttir hefði ekki sagt þetta heldur umdeildari manneskja eins og Hanna Birna eða Sigmundur Davíð? Ætti ég að biðja þau afsökunar eða mega þau alveg við þessu?

Við erum blessunarlega komin á þann stað að okkur myndi fáum detta það í hug í dag að lýsa upplausnarástandi sem kynvilltu eða kerlingalegu. Ekki bara af því að það sé ,,pólitískt rangt” að tala þannig heldur vegna þess að við sjáum flest enga tengingu þar á milli og langar þ.a.l. ekki að segja það.

Og um það snýst gagnrýni mín á orðaval Vigdísar. Hún snýst um það að ég geri þá kröfu að við komumst á þann stað að skilja að fötlun (frekar en samkynhneigð eða kerling) er ekki lýsingarorð á einhverju sem er gallað, ljótt, í upplausn eða á vondum stað (mér gæti ekki verið meira sama um hvað orðabókin segir, höfundar hennar eru augljóslega ekki fatlaðir). Fötlun er hugtak sem er notað yfir hóp sem er með alls konar skerðingar og býr í samfélagi sem fatlar það með fordómum sínum, valdaníðslu og útilokun.  Hugtak yfir hóp sem er jaðarsettur en um leið ómissandi þáttur í að skapa hér fjölmenningarlegt, fallegt, margbreytilegt og alls konar samfélag. Og þá kröfu á fatlað fólk ekki að þurfa að biðjast afsökunar á né réttlæta. Kröfunni ætti líka að vera fagnað af Vigdísi Finnbogadóttur og öllum öðrum borgurum þessa lands.

Advertisements

8 thoughts on “Húmorslausa, viðkvæma, athyglissjúka frekjan sem kann ekki að skammast sín

 1. Þér er skítsama hvað orðabókin segir og þar er misskilningurinn hjá þér. Ég hef margoft heyrt orðið geðvik og geggjað notað í daglegu tali en ég er ekki að fara að reiðast yfir því, þó frekar væri tilefni til þess þar sem það orð kemur beint út frá einstaklingi sem er veikur á geði en orðið fatlað var notað í þeim tilgangi sem vigdís notaði það áður. Er oftast sammála þér með flest allt en ekki þetta þó svo að ég skilji þitt sjónarmið. Stundum virðistu samt taka of mikið inná þig og reiðast svona eins og þegar svartur maður telur að allar neikvæðar ástæður í garð hans frá hvíta manninum séu vegna þess að hann er svartur og taka það inná sig. Ekki sömu hlutir en svona svipuð hugsun og atferli að mínu mati.

 2. Er ekki svolítið mikilvægt í þessari umræði að Vigdís sagði ALDREI orðið “fatlað” eða “fötlun”?
  Hún notaði sögnina “að fatlast” sem hefur m.a. þá merkingu að skaðast eða meiðast, sem ég er nokkuð viss um að hún var að gera í þessu viðtali.

 3. Ef hún hefði sagt að RÚV væri “svolítið fatlað” þá væri ég sammála hverju orði hérna, en hún segir það ekki. Hún sagði að “það hefur fatlast svolítið”. Og þar er mikill munur á. Það er munur á því að vera fatlaður og að hafa fatlast. Þetta er nákvæmlega eins og fólk notar sagnorðið “að lamast” um eitthvað sem stöðvar skyndilega og óvænt. Svo sem þegar heilt bæjarfélag lamast eftir andlát ungs aðila þaðan eða annað slíkt. Alveg eins og þetta dæmi hefur ekkert með lamað fólk að gera, hefur orðræða Vigdísar ekkert með fatlað fólk að gera.

  Set þetta annars með til fróðleiks 🙂

  Íslensk orðabók | Um vefbók
  fatlast -aðist S

  e-r fatlast
  1 e-r forfallast af e-m ástæðum
  fatlast frá verki
  2 e-r verður öryrki
  hann fatlaðist snemma og lifði síðan lengi blindur
  3 skaðast, meiðast
  á heimleið fatlaðist einn klyfjahesturinn
  tvö skip sem höfðu fatlast urðu að lenda …
  e-m fatlast ÓP e-m mistekst, e-m skjátlast
  e-m fatlast við e-ð
  honum fatlaðist um sumt
  þeim fatlaðist um vörnina
  e-ð fatlast e-ð mistekst, e-ð fer í handaskolum
  söngurinn fatlaðist eitthvað hjá þeim

 4. Ég þori varla að segja nokkuð, svo hrædd um að þræða ekki hinn þrönga stíg.
  Frú Vigdís er kona á níræðisaldri. Þótt hún sé vel með á nótunum þá varð henni það á að eitthvað hefði fatlast (svona eins og maður þarf að lifa með aðra hönd í fatla). Kannski var gott að vekja athygli á málstaðnum en samt var þetta líklega ekki besta vopnið.
  Freyja!
  Hvað á fólk að segja? Augjóst er að þú ert fullkomlega einstök. Hugsanlega meira einstök fyrir þessari þjóð en Frú Vigdís sem var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Þá fannst fólki það merkilegt – að hún væri kona sem sagt. Nú finnst fólki það merkilegt að þú ert svona mikið fötluð. Hvernig eigum við að umgangast þig?
  Þegar ég var yngri og fólk í hjólastólum var að byrja að sjást á almannafæri fannst mér það óþægilegt, ég vissi ekki hvernig ég átti að umgangast þetta fólk. Ef ég myndi horfa, væri ég þá að glápa á fatlaðan einstakling en ef ég liti undan, væri ég þá að láta sem ég sæi ekki minnimáttar?
  Ég hef aldrei hitt manneskju sem liggur útaf vegna fötlunar. Hvað væri gott fyrir mig að hafa í huga ef ég myndi upplifa það?

 5. Ég skal alveg viðurkenna að ég varð hissa þegar ég heyrði fréttir af því að þér hefði fundist óviðeigandi að Vigdís hafi notaði þetta orð. Ég er fædd og uppalin af fatlaðri móður og hef aldrei upplifað það sem neitt neikvætt en það þýddi auðvitað það að hún gat ekki gert allt með mér sem ófatlaður mæður gerðu með börnunum sínum. Mér finnst orðið fatlaður ekki neikvætt. Það þýðir samt yfirleitt að viðkomandi geti ekki gert allt sem ófötluð manneskja getur gert. Í þessu sambandi fannst mér alveg eðlilegt að segja að rúv hafi fatlast við þennan mikla niðurskurð og geti þar með ekki skilað hlutverki sínu fullkomlega.
  Hins vegar finnst mér alveg sjálfsagt að taka tillit til þess að ef þú eða aðrir fatlaðir einstaklingar eru ekki sáttir við að orðið sé notað í þessu sambandi.
  Hvort þú sért öfgakennd í þínum málfluttningi ætla ég ekki að dæma um. En mér persónulega finnst bara í góðu lagi að þeir sem töldust eða teljast jaðarhópar og hafa loksins fengið frelsi til að berjast fyrir réttindum sínum séum á tímum aðeins öfgakenndir í sínum málflutningi eða teljist öfgakenndir af þeim sem tilheyra ekki þeirra hópi. Nýfengið frelsi verið vandmeðfarið og ekkert óeðlilegt að fólk fari stundum af stað með meira kappi en forsjá. Held að ef við öll tökum því bara með ró og virðingu þá náum við hinum gullna meðalvegi. Auk þess þykja margir hlutir sem þóttu öfgakenndir hér áður fyrr sjálfsagðir í dag.
  Þú ert ötull talsmaður fyrir réttindum fatlaðra og ég dáist að þér fyrir að láta ekki deigan síga þrátt fyrir neikvæðu viðbrögðunum sem þú færð oft á tíðum.

 6. „Eins og komið hefur fram létu viðbrögðin ekki á sér kræla.” Þetta þýðir að það urðu engin viðbrögð þannig að……

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s