Uncategorized

,,Nei!”

Grein þessi birtist upphaflega í Akureyri vikublað 27. febrúar sl. en ég var beðin um að skrifa um ofbeldi gagnvart fötluðum konum í tilefni af átaki Zonta samtakana um að binda enda á ofbeldi gegn konum. Sú grein er hér fyrir neðan og ber yfirskriftina ,,Nei!” og tel ég viðeigandi að endurbirta hana í dag hér á blogginu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Ástæðan fyrir því að ég kýs að endurbirta hana  er vegna þess að hún náði illa upp á yfirborðið, þ.e.a.s. raunverulegt inntak hennar. Ástæðan fyrir því var sú að Akureyri vikublað, Vísir og DV birtu ,,skúbb” um greinina áður en hún var birt með þeim afleiðingum að grein sem fjallar um háalvarlega ofbeldismenningu gagnvart fötluðum konum á Íslandi og um heiminn allan féll í skuggan á æsifréttum um að ég hefði verið misnotuð fyrir utan matvörubúð. Morguninn eftir kom greinin sjálf og miðað við deilingar og ,,like” höfðu samborgarar mínir meiri áhuga á að lesa dramatíska samhengislausa frásögn af ömurlegu atviki sem ég varð fyrir og notaði sem dæmi í neðangreindri grein heldur en að upplýsa sig um rót vandans og afleiðingar af þessari ofbeldismenningu. Ofbeldi gagnvart fötluðum konum sem hópi var ekki nógu krassandi við hliðina á æsifrétt um varaþingkonu sem hafði verið misnotuð, eins og blöðin orðuðu það. Og ekki létu athugasemdirnar í commentkerfum á sér standa og voru sumar þeirra svo ógeðslegar að því verður ekki lýst með orðum.

Ég sendi bréf á alla þessa fjölmiðla sem má sjá hér. Mér finnst það lágmarks kurteysi að gera ekki fréttir um greinar sem hafa ekki verið birtar. Ekki síst þegar um svo viðkvæm mál er að ræða eins og ofbeldi. Fjölmiðlar hljóta að vilja sinna samfélagslegri skyldu sinni þegar kemur að því að draga úr þöggun og uppræta mein samfélagsins, t.d. ofbeldi. Það gera þeir ekki með þessum vinnubrögðum.

Þessi reynsla var mér mjög erfið af eftirtöldum ástæðum:

–       Ég missti mikið traust til vandaðrar fjölmiðlamennsku

–       Ég missti trú á gildi þess að reyna að nota persónulega reynslu sína opinberlega til þess að hjálpa öðrum.

–       Mér fannst sú staðreynd að ég er opinber persóna og stjórnmálakona vera notað sem söluvara fjölmiðla og gefa þeim meira rými til þess að fara illa með frásögn mína og reynslu.

–       Ég fylltist sektarkenndar og skammar, sem á heima annars staðar en hjá mér, yfir þessum fréttum því þær sjokkeruðu fólk sem ég elska sem hélt að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir mig þennan dag.

–       Ég var ólýsanlega sorgmædd að koma heim þetta sama kvöld og æsifréttirnar birtust og þurfa að ,,banna” yngri bræðrum mínum að blanda sér í umræðu í athugasemdakerfum sem þeir voru auðvitað byrjaðir á. Þeir vissu ekki hvað kom fyrir í raun og voru uppfullir af reiði yfir ógeðslegum athugasemdum um að ég ætti bara að geta varið mig betur og vera ekki svona viðkvæm. Sá yngri er einungis 15 ára.

–       Mér fannst ég með ákveðnum hætti vera að upplifa ofbeldisaðstæður í þessari hringavitleysu.

–       Það gerði mig mjög dapra að grein sem ég hafði lagt mikið hugrekki í að skrifa væri bæði afskræmd efnislega og raunveruleg skilaboð hennar kæmust ekki á leiðarenda.

–       Takmarkinu var ekki náð.

ImageAkureyri vikublað hefur beðist afsökunar persónulega og í blaðinu sjálfu. Ég þakka fyrir það þó svo að ég telji afsökunarbeiðnina ekki vera á réttum forsendum. Afsökunarbeiðnin á augljóslega ekki að snúa að því að hafa viðhafið þessi vinnubrögð í leyfisleysi heldur að hafa viðhafið þau yfir höfuð. Vísir og DV hafa ekki séð að sér.

Zonta samtökunum þakka ég átak þeirra, því að hafa reynt að hafa gefið fötluðum konum rödd og fyrir að standa þétt við bakið á mér eftir að þetta átti sér stað.

Um leið og ég sendi virðingu mína alla á þessum baráttudegi kvenna til þeirra kvenna sem hafa sýnt hugrekki sitt og þrautseigju í að berjast fyrir jafnrétti og mannréttindum um allan vil ég leggja baráttunni lið með því að gera aðra tilraun til þess að greinin sjálf, um ofbeldismenningu gagnvart fötluðum konum, komist betur til skila. Þið kannski hjálpið mér við það.

 

,,Nei!”

Nýja aðstoðarkonan sat undrandi á móti mér við eldhúsborðið eitt miðvikudagskvöld í vetur þegar ég var að fara með henni yfir starfslýsinguna. Ég útskýrði fyrir henni að í starfinu myndi hún upplifa fordóma og áreitni í minn garð frá ókunnugu fólki í samfélaginu sem myndi tala fram hjá mér og yfir mig beint við hana, vilja kyssa mig og snerta mig í leyfisleysi og vita allt um mína persónulegu hagi þegar það næði henni einni. Eins og flestum nýjum aðstoðarkonum var henni brugðið.

Sólarhringi síðar kynntist hún þessu af eigin raun þegar ég var að koma úr matvörubúðinni eftir vinnu. Á meðan ég beið eftir að hún opnaði bílinn á bílastæðinu og gengi frá pokunum kom eldri maður upp að mér. Hann byrjaði að strjúka á mér hárið, andlitið, bringuna, vinstra brjóstið, magan og niður lærið á mér. Ég leit í hina áttina, fjarlægði hugan frá líkamanum og beið eftir að þessu lyki. Fraus. Kom ekki upp orði. Þessar nokkru sekúndur liðu eins og heil eilífð. Næsta sem ég man er að aðstoðarkonan er að aðstoða mig inn í bíl og maðurinn stendur á bakvið okkur og starir á mig þar til búið er að loka bílnum og við keyrum burt. Mig langaði að kasta upp. Öskra. Eitthvað. En ég gat það ekki. Ekkert annað en að klára þennan dag við hliðina á sjálfri mér. Þó þakklát fyrir að hafa haft aðstoð til þess að komast inn í bíl svo þetta hefði ekki farið verr. 

Nokkrum vikum seinna fór ég út að borða með vinkonum mínum og á leiðinni út af veitingastaðnum kom maður upp að mér og sagði við aðstoðarkonuna ,,Er þetta ekki Freyja? Ég verð að fá að kyssa hana.” Aftur fraus ég. Mig langaði að mótmæla honum en kom ekki upp orði. ,,Nei!” sagði aðstoðarkonan hvasst og vísaði honum frá. Honum brá en spurði aftur. Það var eins og ég kæmist til einhvers konar meðvitundar, leit á hann og sagði ,,Nei, þú gerir það ekki.” Maðurinn fór undan í flæmingi. Og kvöldið mitt var ekki ónýtt.

Fatlaðar konur verða samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum fyrir margfalt meira ofbeldi en ófatlaðar konur og nóg er það nú samt. Þær tilkynna það síður og þá þegar það hefur varað lengur en almennt tíðkast. Ýmsar ástæður liggja að baki, ekki síst það valdaleysi sem við sem fatlaðar konur búum við og skortur á aðstoð og aðgengi. Á okkur má glápa, líkamar okkar eru oft skilgreindir afbrigðilegir og gallaðir og verða viðföng fagfólks sem vill gera við þá. Við erum álitnar eilíf börn, þar með kynlausar og höfum oft ekki nokkra stjórn á hver aðstoðar okkur, hvar, hvenær og hvernig. Sem ungar stúlkur erum við jafnvel skammaðar fyrir að leyfa ekki hverjum sem er að aðstoða okkur á salernið og erum sagðar vera með vesen fyrir að gera kröfur um hver aðstoðar okkur við svo persónulegt mál. Skilaboðin sem við fáum eru því oft þau að líkamar okkar séu ekki í eigu okkar sjálfra. Líkamar okkar eru eign almennings.

Áreitni af þessu tagi er hversdagsleg í mínu lífi. Svo hversdagsleg að það er ekki nema rúmt ár síðan ég áttaði mig á því að hún væri röng og að fólk hefði ekki leyfi til þess að umgangast líkama minn eins og hvern annan dauðan hlut. Þegar aðstoðarkonan neitaði manninum á veitingastaðnum um að kyssa mig og ég komst til ,,meðvitundar” var eitt af þeim mörgu augnablikum sem ég átta mig á því hve mikið frelsi fylgir því að hafa aðstoð sem ég stýri sjálf. Það fyllti mig um leið mikilli sorg því ég er ein af örfáum fötluðu konunum á Íslandi sem bý við slíkt frelsi. Frelsið gerir mér ekki aðeins kleyft að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra. Það gefur mér frelsi til þess að fá aðstoð við að komast úr vondum aðstæðum. Setja mörk. Leita mér ráðgjafar. Segja nei. Aðstoðin gefur mér líka vald. Vald til þess að byggja mig upp, taka ekki ábyrgð á ofbeldisverkum annarra, geta sent skömmina til síns heima. Og að lokum vald til þess að virða líkama minn, stjórna honum og eignast hann sjálf. Sem gefur mér um leið mun meira vald yfir eigin lífi. 

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

w

Connecting to %s