Mannréttindi

Ég er reið

Í dag er alþjóðadagur fatlaðs fólks.

Í gærkvöldi sofnaði ég reið. Það er vont og ég reyni yfirleitt að gera það ekki. En engar tilraunir til þess að milda reiðina virkuðu. Ég reyndi ýmislegt. Ég vonaði að ég myndi vakna minna reið í morgun en því miður vaknaði ég mögulega enn reiðari. Það var líka vont.

Nú er ég búin að hita mér kaffibolla, kveikja á kertum og tónlist og horfa á fegurðina út um gluggan; snjóinn sem liggur þungur yfir öllu en lýsir upp myrkrið og lætur venjulegustu tré líta út eins og hluti af ævintýraveröld sem við sáum í myndskreyttum barnabókum og langaði að fara inn í þegar við vorum lítil. Ég er samt reið.

Ég reyni að hugsa fallega til alls þess fatlaða fólks sem hefur rutt brautina fyrir okkur öll og er að ryðja hana núna. Judy Heumann, Ed Roberts, Bente Skansgard og Adolf Ratzka sem eru hluti af þeim hópi sem hefur þróað hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Hugmyndafræðina sem liggur til grundvallar notendastýrðri persónulegri aðstoð. Aðstoð sem gerir það að verkum að ég valdi hvenær ég fór á fætur í morgun, hvernig kaffi ég er að drekka núna og hvaða kerti reyna að lýsa upp myrkrið sem tekur mikið pláss í huga mér um þessar mundir.

Ég hugsa til Alison Lapper, listakonu og aktivista, sem hefur látið gera styttu af nöktum fötluðum barnshafandi líkama sínum, og ljósmyndir af sér með syni sínum, sem umturnuðu hugmyndum mínum um sjálfa mig og framtíð mína.

Ég hugsa til Audre Lorde, sem þó hafi ekki skilgreint sig sérstaklega sem fötluð kona, var fötluð svört lesbía og feminísti og hefur síðustu tvö árin verið mér jafn mikilvæg og súrefni í gegnum bækurnar og ræðurnar sem hún skildi eftir sig um að konur væru ekki bara eitthvað eitt, heldur alls konar, og barátta þeirra fyrir mannréttindum þyrfti að fá að vera þannig líka.

Ég hugsa til Tabúsystra minna sem hver á sinn hátt hafa síðustu tvö árin slípað mig, ruglað mig fallega í rýminu, stutt mig, tekið slaginnsagt frá, rofið þögn og stigið fram með þeim hætti að hvorki ég né samfélagið er söm á eftir.

Ég hugsa til baráttusystra minna í Bretlandi, sem ég var svo lánsöm að kynnast fyrr á árinu er ég var skiptinemi í Manchester, sem gáfu mér svo mikinn kraft og góðan skammt af hugrekki, að ég verð líklega alla ævina að borga þeim það til baka.

Ég hugsa líka til baráttufólksins, einkum kvenna (cis og trans), út um allan heim sem ég mun aldrei vita af. Ekki af því að það er ekki merkilegt heldur af því að það fær ekki pláss í karlkynssögunni sem við segjum um baráttu fatlaðs fólks (og annarra minnihlutahópa).

Ég er ólýsanlega þakklát öllum þessum manneskjum. En samt er ég reið.

Ég er reið vegna þess að þessi dagur hefur á Íslandi, margítrekað, verið dagur ófatlaðs fólks. Dagur þar sem ófatlað fólk fær frægt valdamikið ófatlað fólk til þess að veita ófötluðu fólki (að mestu) viðurkenningar fyrir starf í þágu fatlaða fólksins. Dagur þar sem mörg hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sem er stjórnað af ófötluðu fólki, tekur upp allan daginn fyrir dagskrá sem er skipulögð af ófötluðu fólki fyrir ófatlað fólk. Þar sem þau hrúga ófötluðu fólki í pontur og pallborð svo fatlaða fólkið, aðallega konurnar, þurfa að keppast um að fá að segja eitt orð. Leigja undir það óaðgengilega Hörpu en biðja fatlað listafólk að performa ókeypis. Dagskrá sem ég er búin að gefast upp á að mæta á. Dagur sem Alþingi, á stundum samstarfsfólk mitt sem þérar mig úr ræðustólum þegar ég hef sama titil og þau, lætur sig lítið varða nema þá til þess segjast með frumvarpi vera alveg að fara að bæta réttarstöðu okkar, þ.e. þegar tími gefst og búið er að finna þúsund krónurnar sem á að nota í það.

Þetta er dagurinn þar sem fatlað fólk er niðurlægt og smættað. Mannréttindaafrek okkar og baráttustarf er gert að engu. Og það gerir mig svo reiða að ég gæti öskrað.

Ég hef ákveðið að „skrifa það upphátt“ af þremur ástæðum. Tveimur pólitískum og einni persónulegri. Í fyrsta lagi vegna þess að ég hef lært af öllu baráttufólki að þögnin verndar okkur ekki og ofbeldi á ekki að þrýfast í skjóli þöggunnar og myrkurs. Í öðru lagi vegna þess að svo mikið af hugrökkum fötluðum konum hafa sagt sambærilega hluti upphátt út um allan heim, hlotið skít og jafnvel dauða fyrir, en samt haldið því áfram. Þá á ég alveg að geta gert það líka. Og í þriðja lagi (þetta persónulega); það er mín eina leið til þess að finna reiðinni sem kraumar inn í mér farveg á gagnlegan hátt svo ég geti einfaldlega haldið áfram með daginn.

 

alison-lapper1
Hér eru tvær myndir. Til vinstri: Ljósmynd af Alison Lapper (hún er ekki með handleggi og fætur hennar eru smávaxnir) og syni hennar. Þau eru bæði nakin. Hún situr og horfir fram brosandi. Sonur hennar, undir eins árs á mynd, stendur fyrir aftan hana og heldur í hægri öxl sem hann leggur einnig munninn sinn á. Við hann styðja tvær hendur annarrar manneskju sem ekki sést að öðru leiti. Hendurnar eru bleikar og myndin er svarthvít. Til hægri: Ljósmynd af styttu af Lapper sem er stillt upp á torgi í London. Hún er upp á stalli. Alison er barnshafandi og nakin, þ.e. styttan.

P.s. Ég ætla, í tilefni dagsins, að æfa mig að skammast mín ekki fyrir það að vera reið og pakka skoðunum mínum ekki í diplómatískan glanspappír svo öllum geti liðið betur með að lesa þær. Verði ykkur að góðu.

635573292423632135-225023262_tumblr_mi1up0Rjpt1s4jfu3o1_500
Hér er gif mynd (hreyfimynd). Myndin er af Meredith Grey í Greys Anatomy að segja við Christina Yang (sem snýr baki í mynd og einungis sést í hár hennar); Not everybody has to be happy all the time. That’s not mental health, that’s crap.

 

Advertisements

2 thoughts on “Ég er reið

  1. Frábær pistill. Reiði yfir svona fáránleika á ekki heima í neinum glanspappír. Hún verður að heyrast hátt og skýrt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s