Uncategorized

Ég sakna Manchester 

Ég var svo lánsöm að taka þá ákvörðun að fara í skiptinám til Manchester í Englandi í fyrra. Ekki frekar en nein önnur borg er hún fullkomin og var ég langt frá því að vera laus við fordóma og fyrirlitningu, feðraveldið og stjórnsýslubákn. En ég sakna margs þaðan.

Ég sakna þess að nota aðgengilegar almenningssamgöngur og þurfa ekki að vera á bíl. Ég sakna þess að þurfa sjaldan að hugsa um hjólastólaaðgengi því að það er yfirleitt bærilegt. Ég sakna þess að fólk kunni að bíða í röð og að geta borgað í sjálfsafgreiðslukassa í matvörubúðinni. Ég sakna þess líka að geta keypt inn á netinu og fengið matvörur sendar heim til mín. Ég sakna þess að geta hitt símaviðgerðarfólk á kaffihúsi þar sem það tekur símann þinn í sundur og lagar hann fyrir framan nefið á þér á hálftíma. Ég sakna þess að fólk horfir í kringum sig og heldur sig ekki eitt í heiminum. Ég sakna þess að þurfa ekki að slást við óaðgengilegar hurðar í tíma og ótíma af því að það er alltaf einhver samborgari sem heldur hurðinni án þess að finnast hann vera þá orðinn réttmætur handhafi Nóbelsverðlauna. Ég sakna þess að mega hafa róttækar skoðanir í háskóla og að persónuleg reynsla sé verðmæti í starfi og fræðimennsku. Svo sakna ég frumkvöðlakaffihússins og indverska matarins. Á einhvern asnalegan hátt sakna ég þess líka að allir kalli alla ‘love’.

En umfram allt sakna ég fjölbreytileikans. Ég sakna þess að rúlla fram hjá moskunni á campusnum á leiðinni í skólann. Ég sakna þess að stór hluti fólks er ekki hvítt. Ég sakna þess að sitja í kremju í hjólastólarýminu í lestinni af því að það var svo margt fatlað fólk frjálst ferða sinna að stundum vorum við mörg að ferðast í sömu lest í einu (ótrúlegt!!!). Ég sakna þess að sjá vegginn í hinsegin hverfinu þar sem búið var að mála mynd af Batman og Superman í sleik. Ég sakna þess að rúlla fram hjá aktivistum sem voru búnir að slá upp tjaldbúðum á raðhústorginu að mótmæla heimilisleysi með því að taka pláss, spila háværa tónlist og dansa. Ég sakna þess að sjá feminísk áhrif á vísindasafni. Ég sakna þess að sjá listaverk af fólki að borða franskar í Kaþólsku kirkju borgarinnar. Ég sakna þess að geta farið í róttækt jaðarleikhús að jafnaði einu sinni í viku. Ég sakna þess að sjá fólk með þroskahömlun á auglýsingaskiltum um fótbolta. Ég sakna þess að geta farið til námsráðgjafa sem er fötluð kona eins og ég. Ég sakna þess að í skólanum er búin til sérstök aðgengileg brunavarnaráætlun fyrir mig af því að fólki er annt um að fatlað fólk brenni ekki inni. Ég sakna þess að fá afgreiðslu frá blindu konunni í Apple búðinni. Ég sakna þess að heimsækja og umgangast fatlaða vini mína sem lifðu fjölbreyttu fjölskyldulífi og það var sjálfsagt og eðlilegt. Ég sakna þess að fötlun mín sé hluti af fjölmenningu, alveg eins og kynþáttur, trú, kynhneigð og kynvitund, en ekki galli sem þarf að laga eða losna við.

Einn daginn sat ég ein við borð á borgarbókasafninu, eins og ég gerði gjarnan, og las. Ég var niðursokkin og lítið að spá í það sem var að ske í kringum mig en átta mig á því að fleiri höfðu sest við borðið – það var frekar stórt. Eftir talsverðan tíma leit ég upp. Við borðið sátu sex konur. Við tilheyrðum allar valdaminni hópum samfélagsins. Fjórar svartar konur. Ein heimilislaus kona sem leitaði mikið skjóls á bókasafninu. Og ég sjálf. Um leið og ég brosti með sjálfri mér og leyfði mér að njóta þessarar stundar eitt augnablik hugsaði ég með mér; þessa samsetningu af hópi á almenningsstað á Íslandi hefði þurft að skipuleggja með fimm vikna fyrirvara og hafa talsvert fyrir því. Þarna gerðist það sjálfkrafa.

Ég sakna Manchester. Ekki af því að þar var allt óaðfinnanlegt. Heldur vegna þess að þar féll ég inn í fjöldann. Ekki með því að vera alveg eins og allir hinir. Heldur vegna þess að fjöldinn var allskonar. Og það var svo gott.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s