Innbyrðing kúgunar og tvíeggja sverð: hugleiðingar um margþætta mismunun og Samtökin ’78

Þegar ég var barn var ég með fordóma fyrir fötluðum krökkum. Sérstaklega krökkum með þroskahömlun. Ég vissi vel að við áttum öll eitthvað sameiginlegt, aðallega af því að fólk talaði við okkur í sömu asnalegu tóntegundinni, okkur var strítt með svipuðum hætti, ferðuðumst með sömu leigubílunum og vorum, t.d. oft aðgreind í tíma og ótíma í skólanum. Ég vissi líka að við vorum ekki öll alveg eins. Stundum komst ég ekki hjá því að umgangast börn með þroskahömlun, t.d. í skólanum, í sjúkraþjálfun eða leigubílum. Mér fannst það óþægilegt af því að ég vildi ekki að fólk héldi að ég væri eins og þau. Ég fann að þau urðu fyrir meiri stimplun en ég. Það var talað við þau eins og þau vissu aldrei neitt. Það var tekið fram fyrir hendurnar á þeim alveg stöðugt. Þau voru valdbeitt og niðurlægð. Hunsuð. Þau voru álitin ófær um að læra og leika sér. Og ég var hrædd við það. Ég var að upplifa skerf af þessu sjálf og vildi alls ekki meira. Mér fannst ég stöðugt þurfa að sanna mig og var handviss um að í nærveru barna með þroskahömlun þyrfti ég að gera meira af því. Svo var það fullorðna fólkið með þroskahömlun. Það var komið alveg eins fram við þau. Svo bjuggu þau mörg saman í einhverjum húsum. Hvað ef ég yrði sett í svona hús líka? Mig dreymdi um það martraðir. Þau voru þvinguð inn í leigubíla. Stundum leið þeim illa en engin hlustaði. Það kom engin svona fram við mömmu mína og pabba. Þau voru líka fullorðin en ekki fötluð. Ég var logandi hrædd við þennan veruleika og var viss um að ef ég héldi mig eins mikið fjarri væri ég öruggari. Þess vegna harðneitaði ég öllum tilraunum foreldra minna til þess að setja mig í rými þar sem voru bara fötluð börn. Einu sinni náðu þau að plata mig á sundæfingu fyrir fatlaða krakka og þegar ég sá hvernig hópurinn var varð ég fjúkandi ill. Þarna ætlaði ég ekki að vera. Punktur.

Það sem ég áttaði mig ekki á, en hef öðlast skilning á núna sem fullorðin manneskja, var að fötluð börn með þroskahömlun voru ekki mín raunverulega ógn. Þau voru hluti af hópi sem ég tilheyri. Þau deildu með mér plássi á jaðrinum og voru jafn miklir þolendur undirskipunar, öðrunar og annars konar ofbeldis eins og ég. Bara meiri, ef eitthvað er. Þau áttu ekkert skilið þá slæmu framkomu sem þau urðu fyrir frekar en ég. Og sú slæma framkoma sem ég varð fyrir var og mun aldrei vera þeim að kenna. Skömmina á forréttindafólkið sem skilur ekki félagslega stöðu sína og beitir valdi sínu gegn okkur. Það var mín raunverulega ógn. Það var ógn okkar allra. Frelsi okkar frá þeirri ógn felst ekki í að stimpla hvert annað og óttast það að deila jaðrinum saman. Sameiginleg og ólík reynsla okkar er okkar helsta baráttutæki. Því fylgir mikið frelsi að mínu mati að geta skilgreint sig sem hluti af hópi, pólitískt og persónulega.

Jaðarsetning á jaðrinum

Síðustu árin hefur umræða um jaðarsetningu inn á jaðrinum orðið háværari og ríkari krafa er gerð um að jafnréttisbaráttan sé víkkuð út og borin sé virðing fyrir því að undirskipað fólk geti tilheyrt fleiri en einum jaðarsettum hópi. Jafnframt hefur verið bent á að innan jaðarsettra hópa sé ákveðið stigveldi sem hamli framförum fyrir hópana í heild sinni og valdi manneskjum innan þeirra skaða.

Innan feminískra hreyfinga hafa til dæmis svartar konur, fatlaðar konur og hinsegin konur gagnrýnt að reynsla þeirra sem konur sem búa við margþætta mismunun sé ekki viðurkennd og sé truflandi fyrir kynjajafnréttisbaráttuna sem lítur á kyngervi sem aðal mismununarástæðuna. Innan annarra hreyfinga, t.d. sem vinna gegn rasisma, hafa konur jafnframt gagnrýnt að reynsla þeirra sem kvenna sé ekki gjaldgeng og stuðli að sundrung innan hópsins. Þar má jafnvel ekki tala um kynjamisrétti. Sama má segja um fötlunarhreyfingar en þar er jafnframt ákveðið stigveldi sem byggir á kyngervi og tegund skerðinga. Svo dæmi séu nefnd. Hreyfihamlaðir gagnkynhneigðir sískynja karlar tróna á toppnum. Síðan koma gagnkynhneigðu sískynja konurnar. Neðar í stigveldinu koma svo manneskjur með geðraskanir og þroskahömlun, einkum konur. Neðarlega eru líka manneskjur með ósýnilegar skerðingar.

Þessi útilokun og þetta stigveldi stuðlar óhjákvæmilega að óróleika, reiði, sársauka og vantrausti innan jaðarsettra hópa. Sjálf hef ég upplifað þessa útilokun í femínískum hópum þar sem reynsla mín af fötlun er oft hunsuð og ýmislegt í uppbyggingu þeirra er útilokandi. Þrisvar í röð átti að halda viðburði fyrir kvenframbjóðendur til stjórnlagaþings og þeir voru allir óaðgengilegir fyrir fólk sem gat ekki labbað stiga. Ég var ekki velkomin. Innan fötlunarhreyfinga hef ég fundið fyrir ítrekuðu vantrausti á grundvelli kyngervis. ,,Þetta samvinnufélag væri nú mun betur sett ef karlmaður með viðskiptavit stýrði því” var sagt af valdamiklum hreyfihömluðum karli við vinkonu mína er ég var framkvæmdastýra þar og við kvenkyns samstarfskonur mínar vorum iðulega kallaðar dramadrottningar ef við lýstum áhyggjum af einhverju eða vildum að hlutir væru teknir fastari tökum. Þá höfum við verið sakaðar um sundrung, eins og svartar konur, þegar við gerum eitthvað eingöngu fyrir fatlaðar konur. Þar að auki hefur farið mikil vinna í að grafa undan stigveldinu á grundvelli ólíkra skerðinga. Mikið af hreyfihömluðu fólki vill til dæmis alls ekki vinna með fólki með þroskahömlun því það er enn fast á þeim stað sem ég var á á barnsaldri.

Síðustu mánuði hefur það ekki farið fram hjá mörgum að mikil átök eru að eiga sér stað innan Samtakana ’78. Aðild BDSM félagsins er látin líta út fyrir að eiga upptökin sem þó er ólíklegt þar sem að ólgan sem brotist hefur út er þess eðlis að hún er mun djúpstæðari en svo. Það sem er þó einkennandi, frá mínum bæjardyrum séð, er að fólk sem hefur haft mesta plássið í hinsegin baráttunni fram að þessu, t.d. hommar og lesbíur, finnst að sér vegið vegna þess að fleiri hópar skilgreina sig nú opinberlega hinsegin og gera augljóslega kröfu um að eiga rödd og hafa áhrif innan hinsegin samfélagsins og utan þess. Þarna er til dæmis um að ræða trans fólk, intersex fólk, kynsegin fólk og BDSM hneigt fólk. Valdamesta fólkinu er í raun svo ógnað að það hefur gert kröfu um grundvallarbreytingar á samtökunum til útilokunar á þessum hópum og áhrifum þeirra m.a. með því að bjóða fram lista af fólki til stjórnarsetu sem vill vinna gegn því að samtökin opni sig fyrir öllum þeim sem skilgreina sig sem hinsegin.

Ef þetta er skoðað í heildarsamhengi er rauði þráðurinn alltaf sá sami; innan jaðarsettra hópa er einnig að eiga sér stað jaðarsetning sem stuðlar að útilokun og stigveldi sem veldur skaða.

Innbyrðing kúgunar og tvíeggja sverð

Sem gagnkynhneigð sískynja kona átta ég mig á því að ég hef takmarkaðar forsendur til þess að hafa skoðun á því sem á gengur í Samtökunum ’78. Ég þekki ekki söguna nógu vel og hef ekki upplifað misrétti á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna o.sfrv. Ég er hinsvegar fötluð kona með sjaldgæfa skerðingu sem gaf mér líkama sem passar illa inn í flest norm í tengslum við líkamlegt atgervi og kyngervi. Það þýðir að ég þekki undirskipun á eigin skinni, hef upplifað misrétti á grundvelli skerðingar minnar, þess að ég er kona og stundum á þeim grunni að skerðing mín sé ekki nógu vinsæl eða heppileg í almenna fötlunarbaráttu. Eins og ég lýsti hér að ofan hef ég einnig fundið mikið fyrir eigin forréttindastöðu innan fötlunarhreyfinga því ég er ekki með þroskahömlun og séð hvernig sumt hreyfihamlað fólk, sérstaklega karlar, þolir illa að láta bendla sig við fatlað fólk sem við höfum komið fyrir neðar í stigveldinu. Svo var ég auðvitað fordómapési sem barn eins og ég fjallaði um í upphafi þessarar greinar.

Það sem er að naga mig einna mest er hvers vegna við gerum okkur þetta. Er ekki magnað að við sem höfum orðið fyrir fordómum fordæmum annað fólk innan okkar eigin jaðarsettu hópa og þvert á þá? Er ekki skrítið að á sama tíma og við krefjumst þess að samfélagið óttist okkur ekki óttumst við hvert annað? Er ekki öfugsnúið að við gagnrýnum forréttindahópa fyrir að vilja ekki gefa eftir vald og pláss nema komi til átaka um þau en séum svo ekki tilbúin að gera nákvæmlega það sama innan okkar raða? Er heil brú í því að við sem höfum barist með kjafti og klóm fyrir að njóta þeirra mannréttinda að skilgreina okkur sjálf komum í veg fyrir að aðrir njóti þeirra mannréttinda? Er það ekki sorglegt að við notum sömu vopn og forrettindahópar hafa notað til þess að meiða okkur til þess að meiða hvert annað?

Það er skrítið og að mörgu leiti óskiljanlegt. Á sama tíma held ég að ég átti mig á, og við mörg, hvaðan þetta kemur. Líf okkar flestra sem erum jaðarsett hefur einkennst af stimplun, valdaleysi, skertu athafnafrelsi og brútal mannréttindabaráttu. Slíkt er ekki bara hluti af lífi okkar á stundum heldur hversdagslegur veruleiki. Við vöknum á morgnana og vitum innst inni að allar líkur eru á því að við þurfum að réttlæta tilveru okkar, eiga í litlum og stórum átökum um réttindi okkar og verja okkur gegn brennimerkingum þann daginn. Það er örmagnandi. Við förum því alls konar leiðir til þess að komast af og vernda sálina okkar og líkama fyrir sársauka. Flestar leiðirnar sem við notum eru góðra gjalda verðar. Við lærum líka hvert af öðru og leitum skjóls í sameiginlegri reynslu okkar sem við vitum samt að er fjölbreytt. Þar finnum við oft örugg rými sem valdefla og eru frelsandi. Þannig verða allir sigrarnir til og byltingarnar. Það er fallegt. Á sama tíma held ég, og reyndar sýna rannsóknir það, að stundum eru leiðirnar sem við förum vondar í þeim skilningi að við förum að meiða hvert annað. Við höfum barist svo mikið fyrir plássinu okkar, valdi og frelsi að við þorum ekki að deila því hvort með öðru. Við erum svo uppgefin á stimplun að við útilokum aðra hópa ef við erum hrædd um að þeir standist ekki þá ímynd sem við viljum hafa af okkur. Við erum svo upptekin af eigin afrekum, sem við höfum þurft að hafa svo mikið fyrir, að við þolum ekki að einhver segi að takmarkinu sé ekki náð. Og svona mætti lengi telja.

En er það nógu góð afsökun? Höfum við rétt á því að skaða aðra af því að við höfum orðið fyrir skaða? Er það réttlætanlegt að við notum sverðið sem við vorum stungin með til þess að stinga aðra? Nei. Það finnst mér ekki. Við höfum rétt á því að vera reið, sorgmædd, sigursæl, hrædd og óörugg. Það á að vera í fínu lagi, og í raun mjög heilbrigt, að takast á og viðurkenna að mannréttindabarátta er fáránlega flókið fyrirbæri. En það á ekki að vera í lagi að stunda markvissa útilokun eða sýna ofbeldishegðun innbyrðis. Þessu tilfinningaróti þarf að finna uppbyggilegri farveg, skömminni á að skila til síns heima og reiðinni þarf að beina að samfélagsumbótum.

Það að við séum ólík og margslunginn reynsluheimur okkar passi ekki inn í gamlar baráttuaðferðir eða samræmist ekki gömlum skilgreiningum á okkur sjálfum og veruleika okkar er ekki ógn. Það er tækifæri. Vandinn felst ekki í því að við séum ólík heldur í því að við kunnum ekki að höndla það. En þá hlýtur það að vera verkefnið. Að læra það saman. Ef við erum ekki tilbúin til þess get ég ekki betur séð en að við töpum öll. Það má ekki gerast. Þess vegna mun ég, sem bandakona hinsegin fólks og fötluð kona sem er mjög annt um þróun mannréttindabaráttu á Íslandi (og í heiminum öllum) mæta á aðalfund Samtakana ’78 á morgun og kjósa með hagsmunaaðild BDSM á Íslandi og stjórn sem stendur fyrir margbreytileika og skilur það að með því að fagna honum og virða, náum við miklu fleiri sigrum og völdum miklu minni skaða á þeirri leið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s