Ég hugsaði með mér í morgun; ,,Freyja, þú tjáir þig ekki um þetta. Ekki alltaf vera þessi (baráttu)gleði spillir. Ekki vera slæmur femínisti.” Í allan dag er ég búin að feika fram brosið og reyna að vera til friðs á meðan inn í mér ólgar eitthvað sem ég veit að verður að komast út. Annars get ég ekki sofnað. Annars fer þessi ólga inn á við og meiðir mig áfram. Það er ekki gott. Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að kynbundinn launamunur gerir mig brjálaða á svo marga vegu að ég gæti öskrað mig hása um það sólarhringum saman. Ég þoli ekki að eitthvað tiltekið kyngervi eða kynvitund geri það að verkum að innkoma fólks sé minni þrátt fyrir sama menntunarstig, vinnuframlag og reynslu. Ég þoli heldur ekki að við séum ekki bara búin að græja þetta mál. Hvað er svona flókið? Valdakerfi samfélagsins. Það er það sem er svo flókið að það sviptir okkur valdi til þess að hafa áhrif á það. Í kaldhæðninni allri.
Og það er kannski það sem mig langar til þess að skrifa um svo ég geti sofnað. Þetta valdakerfi sem skipar fólk með ólíkum hætti á ákveðna staði. Í dag hættu sumar konur fyrr í vinnunni til þess að mótmæla kynbundnum launamun. Það er mikilvægt og góðra gjalda vert. Á sama tíma voru þó aðrar konur sem komust ekki fyrr úr vinnunni vegna þess að án þeirra starfa væru mannréttindi annarra kvenna brotin. Ég gat til dæmis ekki gefið aðstoðarkonu minni frí vegna þess að þá hefði eftir einhvern tíma ég verið komin í hættu nema einhver hefði leyst hana af. Það vakti í dag upp draugana mína sem láta mig reglulega vita að ég megi ekki gleyma því að ég sé byrði. Mér finnst óþægilegt að fá aðstoð frá körlum við persónulega hluti svo afleysingin hefði þurft að vera veitt af annarri konu. Til dæmis mömmu minni.
Tölum aðeins um mömmu. Áður en ég fékk notendastýrða persónulega aðstoð vann mamma mín launalaust í 21 ár við það að aðstoða mig nánast allan sólarhringinn fyrir valdakerfi sem stöðugt bregst. Það bregst með því að veita mér ekki almennilega aðstoð frá barnæsku svo ég geti öðlast stigvaxandi sjálfstæði og frelsi eins og aðrar stúlkur og konur. Það bregst með því að setja mömmu mína í þá stöðu að þurfa að leggja menntun sína og önnur hugðarefni að mestu til hliðar til þess að skapa mér manneskjuleg lífsskilyrði. Nú verður hún mögulega reið við mig fyrir það að segja þetta því aldrei nokkurn tímann lét hún mig finna að það væri vandamál fyrir sig. Það var nú samt þannig oft, vegna þess að ég vissi hvað framlag hennar var mikið, að mér fannst ég vera byrði. Á sama tíma, ef hún leyfði sér að fara til útlanda eða vinna í blómabúð af og til, var hún með sektarkennd yfir mér. Af því að hún vissi auðvitað betur en flestir hversu mikið ég þurfti á henni að halda. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að þegar hún var ekki til staðar, sérstaklega frá þeim tíma sem ég vildi bara fá aðstoð frá konum, voru það oftast ömmur, frænkur og vinkonur mínar sem leystu hana af.
Um þetta og svo miklu fleira þurfum við að hugsa um þegar við berjumst gegn launamun. Hann er ekki bara kynbundinn heldur oft samofin annars konar valdníðslu kerfa í samfélaginu sem eru eftir allt saman (karl)mannanna verk. Þessi margslungna staða er ekki konum að kenna. Hún krefst þess ekki að við eigum að hætta að ganga út á Kvennafrídaginn. En hún krefst þess að við viðurkennum jaðarsetningu ólíkra hópa kvenna og skiljum að misrétti á einum stað þrífst á misrétti á öðrum stað.
Fyrir mömmu, aðstoðarkonur mínar og allar aðrar konur sem hafa lagt mínu frelsi lið skrifa ég þessi orð. Þannig get ég vonandi lagt þeirra frelsi lið án þess að þurfa að skammast mín fyrir að þurfa á þeim að halda. Það er, þegar ég hugsa betur um það, háfemenískt mál og spillir engri baráttugleði.
Takk fyrir þennan pistil, hugsaði eitthvað svipað þegar ég komst ekki á Austurvöll og þurfti að nýta mér þjónustu kvenna vegna veikinda.