Uncategorized

Álagið á þingmönnum, heimska láglaunafólkið og meintur popúlismi

Mér finnst stórkostlegt að fylgjast með umræðu um kjararáð og þær launahækkanir sem það ákvað að veita fólki í mestu valdastöðum samfélagsins. Margir eru reiðir. Flestir, eins og ég les það, eru ekki reiðir yfir því að laun þingmanna (sem dæmi) hækki heldur að hækkunin sé í svona ógnarháum prósentum miðað við launahækkanir annarra starfsstétta. Ég er ein af þeim. Sú gagnrýni fer þveröfugt ofan í aðra og það er yfir viðbrögðum þeirra sem ég er að skemmta mér. Eða, nei, pirra mig. Já, eða bæði. Viðbrögðin eru á þá leið að laun þingmanna séu skammarlega lág og verði að hækka. Einnig að þingmannsstarfið sé svo erfitt og því fylgi svo mikill persónulegur fórnarkostnaður að það verði að meta það að verðleikum. Annars fáist ekki hæft fólk í starfið. Það verði bara við, heimska láglaunafólkið, sem fer í framboð og samfélagið fer til andskotans. Svo hneikslast fólk á því að við sem erum ekki að fíla þessa hækkun og tjáum okkur um það,ekki síst þingmenn sjálfir sem tjá sig um þetta, séu bara með populisma (nýja uppáhalds orð allra sem þola ekki umræðu um jöfn tækifæri í samfélaginu).

Skoðum þetta aðeins.

Eru laun þingmanna skammarlega lág? Tjahh, mér finnst þau ekkert spes og hef ekkert á móti því að þau hækki með eðlilegum hætti með tímanum eins og öll laun ættu að gera. Hins vegar gildir það um margar starfsstéttir og það getur ekki þótt eðlilegt, algjörlega áháð því hvað okkur finnst um launahækkanirnar, að þær hækki hraðar hjá sumum en ekki öðrum.

Er þingmannsstarfið erfitt og fylgir því mikill fórnarkostnaður? Já, já, ég ætla rétt að vona að fólkið sem við gefum umboð til þess að fara með löggjafarvald sé svolítið dasað eftir daginn. Ég var það allavega þær fjórar vikur sem ég leysti Guðmund Steingrímsson af á síðasta kjörtímabili. En ég er líka dauðuppgefin eftir daginn minn hjá Tabú þar sem ég er í leiðandi starfi í feminískum fötlunaraktivisma, námskeiðshaldi og fræðslustarfi. Því fylgja langir vinnudagar, svefnlausar nætur og logandi athugasemdakerfi á DV um það hvað ég er heimsk, frek, ógeðsleg og mikill ónytjungur í samfélaginu fyrir að vera til og hafa skoðanir. Ég var líka mjög þreytt eftir vinnudaginn minn þau níu ár sem ég vann á leikskólum. Það sama gildir um heilbrigðisstarfsfólk sem ber gífurlega ábyrgð, löggæslufólk og aðra sem halda þessu samfélagi gangandi. Öll þessi störf eru illa launuð og útheimta alls kyns fórnir. Því eru launahækkanir ekkert brýnni fyrir þingmann en leikskólakennara sem ábyrgist börnin hans á meðan hann sinnir starfi sínu.

Fæst ekkert gott fólk á þing með þessi launakjör? Mig langar að biðja ykkur að staldra aðeins við og hugsa um þessa spurningu? Hvað felur þessi spurning í sér? Í mínum huga felur hún í sér skilaboð um það að fólk sem sinnir láglaunastörfum sé vanhæft, slakari starfskraftar og verr menntað. Þau skilaboð eru hress blanda af allskyns hrokahrærigraut; menntahroka, stéttarhroka, ableisma, kvenfyrirlitningu o.fl. Meirihluti láglaunafólks eru konur. Fatlað fólk býr við gífurlegt launamisrétti, mismunun á vinnumarkaði og innan menntakerfisins. Fólk í ákveðnum stéttum hefur minni aðgang að menntun, starfsreynslu og starfsþróun. Ákveðnar fræðigreinar skila þér verri launum en aðrar. Ég er ágætt dæmi. Ég er fötluð kona í láglaunastarfi og oft sjálfboðastarfi. Ég er að ljúka við mína þriðju háskólagráðu. Allar gráðurnar á sviði félagsvísinda. Finndist mér þingmannalaunin mættu hækka? Já. Myndi ég sætta mig við óbreytt þingmannalaun ef ég væri í þessu starfi? Já. Er ég þá verri starfskraftur fyrir alþingi en hálaunaði ófatlaði verkfræðikarlinn sem hefur eina háskólagráðu? Nei. Þetta meikar ekki sens krakkar. Við getum vissulega breytt einhverju með launahækkunum og eru nauðsynlegar fyrir lífskjör okkar flestra en það er bara ansi margt annað sem þarf að koma til svo fólk brenni ekki út í starfi, standi sig vel og finni til ábyrgðar. Til dæmis skipulag vinnutíma, þungi verkefna, fjöldi starfsmanna pr. verkefni, stjórnunarhættir o.fl. Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar lýsti þessu vel á Facebook vegg sínum í gær; „Oft er talað um að það skipti svo miklu máli að þngmenn séu á góðum launum því annars fælist gott fólk frá. Ég hef velt þessu talsvert fyrir mér. Og reyndar komist að annarri niðurstöðu. Eins og öll mannauðsfræði kenna okkur þá eru það ekki peningar sem að skipta mestu hvað varðar starfsánægju, heldur það að finnast maður hafa áhrif, það sé hlustað á mann og að fólki sé treyst til góðra ákvarðana. Þetta eru mjög mikilvægir þættir í starfi þingmanna en þessi ákvörðun Kjararáðs gerir starf okkar ekki auðvellt -hvað fyrrgreint varðar.

Er popúlískt að gagnrýna ákvörðun kjararáðs, hafna launahækkunum eða breyta ákvörðuninni? Mér finnst það ekki. Eðli málsins samkvæmt stríðir sú aðferð sem hefur verið notuð við þessa launahækkun gegn sannfæringu fólks sem lætur sig jafnrétti og valdamisræmi varða? Ég get ekki séð hvernig það snýst um einhverja vinsældarkeppni að neita einhverju sem þér finnst vera siðlaust, fela í sér mismunun, skapa tortryggni og vantraust og draga úr trúverðugleika? Ég er komin með gubbuna upp í háls yfir því að í hvert sinn sem fólk stendur upp gegn illri meðferð á fólki, misrétti og valdaníðslu sé það popúlismi. Jú, jú, vissulega er til fólk sem talar bara um jafnrétti til þess að upphefja sig og setja sig á stall – meinar svo ekkert með því. Það getur alveg farið í mínar fínustu taugar en við sjáum nú yfirleitt í gegnum það samstundis enda svo pínlega augljóst. Það gerir mig hins vegar miklu reiðari þegar jafnréttisumræða er þögguð niður og gerð léttvæg í nafni meints popúlisma. Ég verð líka bara að segja að stundum gæti mér ekki verið meira sama um það hvort einhver er að baða sig í ljómanum með því að tala gegn mismunun ef það skilar árangri fyrir fólk sem verður fyrir henni.

Ég nenni þessu ekki. Getum við haldið fókus? Eytt púðri í það að koma hér á einhverju kerfi sem kemur á jafnvægi í launaþróun fólks almennt og vinnur gegn launamisrétti? Getum við aukið gagnsæi og gert upplýsingar um laun fólks aðgengileg? Getum við talað um það? Getum við komið því í framkvæmd? Í guðanna bænum.

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s