Ég sat í góðra vina hópi fyrir nokkrum vikum síðan og horfði á fólk streyma fram hjá í göngu tileinkaðri stolti, réttlæti og frelsi – Reykjavík Pride. Ég var þakklát og meir á þessum degi eins og svo oft áður enda mér mikilvægt að öll getum við verið við sjálf – óafsakandi. Skammt frá mér var lítill strákur, líklega um fimm ára, sem gjóaði augunum að mér en reyndi að láta litið fyrir því fara. Ég þóttist ekki taka eftir því og hugsaði litið um það enda vön að líkami minn og tilvera veki forvitni barna.
Eftir nokkurn tíma heyrði ég að drengurinn var farinn að koma forvitni sinni í orð og gleyma sér við að virða mig gaumgæfilega fyrir sér; ,,Er hún lasin?” spurði hann fullorðnu manneskjuna sem var með honum. Fullorðna manneskjan hunsaði spurninguna svo drengurinn hækkaði róminn og spurði án afláts; ,,ER HÚN LASIN?!?!” Það var mikill hávaði og mannfjöldi í kringum okkur svo ég var ekki fær um að ná tali af drengnum en brosti bara til hans. Almennt hika ég ekki við fara og tala við börn sem ég heyri að eru að spyrja um mig enda finnst mér þægilegra að stýra því hvaða upplýsingar þau fá um minn líkama og líf. Sú fullorðna hélt áfram að hunsa barnið vandræðalega en sussaði hvasst á hann að lokum, skipaði honum að hætta að horfa á mig og snéri höfðinu á honum að göngunni; ,,Ekki vera að horfa á hana, horfðu á gönguna!” skipaði hún. Drengurinn þagnaði en hélt áfram að gjóa augunum að mér.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem viðbrögð fullorðins fólks við forvitni og fróðleiksfýsni barna svekkja mig. Blessunarlega hefur atvikum sem þessum fækkað og foreldrar og aðrir fullorðnir eru farnir að vera rólegri í þessum aðstæðum, svara börnum af yfirvegun eða leyfa þeim einfaldlega að ræða málin við mig. Sem ég kann að meta. Að mörgu leiti skil ég óöryggi og vandræðagang enda getur vissulega verið pínlegt þegar barn hrópar yfir hálfa Bónusverslun að líkamsverund manneskju sé óhefðbundin, snúi sér úr hálslið í glápatrennu eða spyrji óviðeigandi spurninga. Ég hef alveg verið þeim megin við borðið. Ég mun aldrei gleyma því þegar yngsti bróðir minn, þá tveggja ára, sá svarta manneskju í fyrsta skipti og sagði ,,vá!” og ,,hæ!” látlaust í fimm mínútur á meðan hann gekk á eftir viðkomandi. Mig langaði smá að tækla hann og fjarlægja hann af vettvangi tafarlaust. Ég hélt aftur að mér.
En hvað getum við gert? Hvernig finnum við jafnvægið í því að gefa börnum rými til þess að rannsaka og fræðast um heiminn en á sama tíma kenna þeim að virða mörk og einkalíf annarra? Hér eru nokkrar tillögur:
Verum róleg
Börn eru sjaldnast að reyna að særa fatlað fólk eða gera lítið úr okkur. Þau eru heldur ekki að reyna að gera út af við foreldra sína eða aðra fullorðna. Ef við verðum reið erum við að senda skilaboð um að þau séu að gera eitthvað rangt. Það er ekki raunin. Spurningunni að ofan er til dæmis hægt að svara; ,,Nei, ég held hún sé ekki lasin. Hún er fötluð/hún notar hjólastól í staðin fyrir að labba.“
Völdum ekki ótta eða skömm
Flestum okkar hefur verið kennt að það sé dónalegt að glápa á annað fólk enda er það oftast mjög óþægilegt fyrir þann sem er viðfang gláps. Það er hinsvegar eitt að vera fullorðin og glápa á fólk sem okkur finnst skrítið eða forvitnilegt en annað að vera barn sem er ennþá að reyna að átta sig á heiminum og margbreytileika hans. Með því að skamma börn erum við að smána þau fyrir að einlæglega vilja læra og gefa þeim skilaboð um að ákveðnir hópar fólks séu hættulegir/óæskilegir/vafasamir. Við drenginn hefði fullorðna manneskjan geta sagt; ,,já, þarna er kona, hún er að horfa á gönguna eins og þú.” Búið.
Viðurkennum vanþekkingu
Fullorðið fólk þarf ekki að vita allt. Það er að mínu mati hollt fyrir börn að skilja að líkt og þau sjálf erum við sem erum fullorðin ávallt að læra. Það getur valdið meiri skaða að bulla eitthvað um fatlað fólk í stað þess að segja bara hin einföldu fjögur orð; ,,Ég veit það ekki”.
Kennum börnum að fatlað fólk þekkir líf sitt best en á rétt á einkalífi
Stundum er hægt að hvetja börn til þess að spyrja fötluðu manneskjuna sjálfa um það sem þau eru að velta fyrir sér. Með auknum aldri og þroska barna er þó mikilvægt að útskýra fyrir þeim að allir eiga rétt á sínu einkalífi og að ókunnugir hafi ekki rétt á að vita ýmsa hluti um hagi annarra. Sjálf hef ég leiðbeint börnum sem hafa náð nægum þroska um að fá samþykki fyrir spurningum sínum. Þau skilja það oftast vel og tileinka sér það. Ég hef sjálf ekki samþykkt að svara öllum spurningum barna og þau virða mörkin mín almennt mun betur en fullorðnir.
Sumt má bíða og annað má leiðrétta
Stundum er ekki staður og stund fyrir vangaveltur barna (og fullorðinna). Við sem erum fullorðin erum annars hugar, ekki með svör á reiðum höndum eða einfaldlega klúðrum einhverjum útskýringum eða förum með rangt mál. Þegar ég lendi í slíku sjálf með börnum segi ég þeim einfaldlega að ég muni ræða betur við þau síðar. Það er ekki alltaf vinsælt en þau komast í gegnum það. Flóknar umræður eða leiðréttingar finnst mér oft gott að ræða í meira næði, t.d. í bílnum á leiðinni heim, yfir kvöldmatnum, í gegnum leik eða fyrir svefninn.
Reynum að ýta ekki undir staðalmyndir
Fatlað fólk hefur verið sjúkdómsvætt í gegnum söguna, ásamt því að okkur er gjarnan stillt upp sem fórnarlömbum fötlunar okkar. Flest fatlað fólk er ekki veikt (frekar en ófatlað fólk) og við erum almennt sátt við lífið og tilveruna. Við eigum góða og slæma daga eins og allir aðrir en oftast er erfiðast að takast á við meðaumkun og aðra fordóma. Börn eru ekki undanskilin þessum hugmyndum og því skiptir máli að tala um þær við þau og hjálpa þeim að aflæra þær sem fyrst. Það er í raun oftast svo einfalt að benda þeim á hvað við eigum sameiginlegt (t.d. „já, þarna er kona að versla í matinn/fara í sund/þvo bílinn sinn eins og við“) og hvað það er mikilvægt og gaman að við séum öll ólík (t.d. „ég held hún sé nú ekkert leið, sjáðu hvað hún á flottan hjólastól!“).
Ekkert af ofangreindu eru geimvísindi og líklegt er að við sem erum fötluð höfum ólíkar skoðanir á þessu sem og öðru. En ég skynja hinsvegar að flest okkar viljum frekar taka samtöl við börn frekar en að þau séu smánuð fyrir að sýna okkur áhuga. Það sem mér fannst sérstaklega erfitt við atvikið á Pride var að þar vorum við saman komin til þess að draga fram margbreytileikan, fagna honum og sýna virðingu og ást. Á meðan drengurinn var beinlínis hvattur til þess að fylgjast með atriðum göngunnar, eðlilega, var minn margbreytileiki óþægilegur. Mín líkamsverund varð að viðfangi skammar og einhvers sem átti bara að geyma í skugganum og þögninni. Þar vil ég ekki vera. Þar á fatlað fólk ekki heima.