Trump, fötlunarfyrirlitning og hættuleg stjórnmál

Demonstrators
UNITED STATES – JULY 25: Demonstrators gather in the atrium of Hart Building to protest the Senate’s health care bill on July 25, 2017. (Photo By Tom Williams/CQ Roll Call)

Í umræðu um Trump (ó)stjórnina í Bandaríkjunum í tengslum við mannréttindi og réttlæti heyrum við mest megnis um áhrif hennar á konur, hinsegin fólk, svart fólk og fólk á flótta. Um þá hópa eigum við að heyra og taka grafalvarlega. Það er þó einn hópur sem gleymist nánast alveg í almennri umræðu, eða nær ekki flugi, líkt og svo oft áður: fatlað fólk. Fyrirlitning Trump á jaðarsettum hópum og konum undanskilur ekki fatlað fólk.

Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki verið ötul við að minna á hvernig þróun vestrænna stjórnmála í átt að íhaldssemi, einangrunar- og þjóðernishyggju, nýfrjálshyggju, rasisma o.fl. hefur áhrif á líf fatlaðs fólks. Að sumu leiti forðast ég að horfast í augu við það og sniðgeng gjarnan fréttir þess efnis, einfaldlega til þess að halda glórunni og geðheilsunni réttu megin við línuna. Það eru líka forréttindi mín sem spila þar inn í; ég er með viðeigandi aðstoð, ég hef aðgengilegt þak yfir höfuðið, stunda háskólanám og er í vinnu. Ég finn þetta samt á eigin skinni, sem fötluð kona, og í gegnum vini mína, fötluð systkini víða um heim og samverkafólk. Við erum logandi hrædd – ekki síst fólkið sem býr við beinan ótta af því að Donald Trump er forseti þeirra. En það heyrist ekki hátt og því stórefast ég um að þegar Mike Pence kom hingað í síðustu viku hafi Katrín Jakobsdóttir og Guðni Th. Jóhannsson minnst einu orði á það við Pence hvernig hann og hans skoðanasystkini eru að terrorisera fatlað fólk í Bandaríkjunum. Skoðum það aðeins:

Hatursorðræða og smánun

Trump var ekki búinn að vera forseti lengi þegar hann hæddist opinberlega að fatlaðri blaðakonu með orðum, hljóði og látbragði. Hann lýsti því jafnframt yfir að það væri „erfitt að horfa upp á“ fatlað íþróttafólk á Ólympíuleikunum. Afreksíþróttafólk á leikvöngum!! En það er, því miður, ekki það versta.

Stofnanavæðing

Áætlun Trumpstjórnarinnar dregur úr því að fatlað og aldrað fólk geti búið við öryggi heima hjá sér með þeim afleiðingum að það hverfur aftur inn á sólarhringsstofnanir – sem við sem hópur höfum með blóði, svita og tárum barist gegn í áratugi víða um heim. Skerðingar í trygginga- og bótakerfinu gerir það að verkum að fatlað fólk getur síður fengið notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), sérhæfða hjúkrunarþjónustu heim til sín, niðurgreidd lyf og hjálpartæk sem útilokar sjálfstætt líf.

Frekari útilokun frá vinnumarkaði

Skerðing á þjónustu (t.d. NPA) og niðurgreiddum hjálpartækjum og lyfjum ýtir ekki einungis undir stofnanavæðingu heldur dregur enn frekar úr möguleikum fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku. Jafnframt dregur það úr atvinnumöguleikum aðstandenda sem þurfa þá frekar að vera heima við til þess að aðstoða fatlaða fjölskyldumeðlimi. Það þarf líklega ekki að taka það fram að slíkt mun og hefur alltaf haft mestu áhrifin á konur. Trump hefur jafnframt staðið í veginum fyrir því að lágmarkslaun verði hækkuð og heldur því fram að þau séu of há. Þá hefur Trumpstjórnin hótað að skera niður þegar að kemur að innviðum eins og félagslegu húsnæði og matarstuðningi. Í þessu samhengi má benda á að fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi þegar kemur að fátækt.

Einkavæðing skólakerfisins

Trump hefur lagt áherslu á að foreldrar fái aðgangsmiða fyrir börnin sín í skóla svo þeir geti valið hvaða skóla börnin fara í. Þetta gerir það að verkum að fólk velur í auknum mæli einkaskóla sem oftar eru undanskildir kröfum um að tryggja réttindi fatlaðra nemenda. Þetta gerir það að verkum að skólar geta hafnað nemendum ef þeir vilja ekki mæta þörfum þeirra og foreldrar þurfa því jafnvel að flakka úr skóla í skóla með fötluð börn sín svo þau fái þá menntun sem þau eiga lögformlega rétt á.

Réttarstaða

Trumpstjórnin hefur jafnframt grafið undan stuðningi við fólk sem þarf réttindagæslu og aðgengi að réttarkerfinu – sem er mjög oft fatlað fólk. Þá hefur einnig verið skorið niður í fjárveitingum til samtaka sem vinna að réttindabaráttu jaðarsettra hópa. Þá hafa dómarar í auknum mæli farið að túlka lög, t.d. lög um bann við mismunun á grundvelli fötlunar, mjög þröngt í nafni mikilvægi þess að halda uppi „aga“ og „siðmenningu“.

 

Þessi atriði eru auðvitað ekki tæmandi heldur einungis innsýn í gegnum skráargat inn í þau áhrif sem Trump og hans pólitík hefur og mun hafa á fatlað fólk. Ég las nýverið kraftmikla bók, Resistance and Hope: Essays by Disabled People, sem er ritstýrð af Alice Wong, sérfræðingi í stafrænu efni, fötlunaraktivista og ráðgjafa. Bókin samanstendur af reynslusögum fatlaðs fólks af því að lifa undir stjórn Trump og hve mikilvægt er að halda í vonina og andófið til þess að halda sönsum, koma í veg fyrir skaða og halda áfram að vera í sókn í réttindabaráttu. Það hefur fatlað fólk svo sannarlega gert. Eins og Wong segir:

Resistance and Hope: Essays by Disabled People is a powerful collection of essays by disabled writers, artists, activists, and dreamers. What is the relationship between resistance and hope? What can disabled people share with the world during this time of uncertainty and unrest? You will learn from a wide range of perspectives from multiply marginalized disabled people on where we are right now, where we’ve been, and where we’re going. Share this anthology with everyone everywhere—on social media, in the classroom, at the kitchen table, with your friends and neighbors.

Í þessu samhengi er mikilvægt að muna er að réttarstaða fatlaðs fólks (sem sumt er konur, hinsegin, svart og á flótta) hefur aldrei verið góð alþjóðlega. Einnig að vandinn býr ekki í Trump sem slíkum heldur uppgangi hugmyndafræði og valdakerfa sem hann stendur fyrir. Ísland er til dæmis með flest niðrum sig þegar kemur að réttarstöðu fatlaðs fólks; þjónusta er almennt ekki til þess fallin að draga úr stofnannavistun, vinnumarkaðurinn vill sem minnst með fatlað fólk hafa, aðgreining er mikil í skólakerfinu og birtist í mörgum myndum og réttarstaða okkar er ekki góð. Semsagt: Trump er víða. Maysoon Zayid er einn höfundur bókarinnar Resistance and Hope: Essays by Disabled People. Hún er leikkona, skemmtikraftur, rithöfundur og fötlunaraktivisti. Hún er afdráttarlaus um Trump og alvarleika þess sem hann stendur fyrir.

I have been reprimanded for comparing Trump to Hitler and his supporters to Nazis. To this I say if it quacks like a Nazi, goose steps like a Nazi, and hates like a Nazi, we probably shouldn’t ignore these “very fine people.” Hollywood stars, cable news commentators, and perturbed parents were horrified when The Donald mocked New York Times reporter Serge Kovaleski’s disability. Many declared it was the worst thing Don had ever done. I wish it was. He has documentably done far worse in the past and the worst is yet to come.

Þess vegna, þrátt fyrir regnbogaarmbönd, hinsegin fána og hvítar draktir (sem ég kann að meta), þurfum við að standa vörð um sigrana og vera óhrædd við að æða áfram með auknar kröfur um bætta stöðu og betra líf fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa. Það gerum við ekki með því að bjóða hingað velkomið fólk eins og Mike Pence, sem er boðberi haturs og ófriðar, og gefa honum vettvang til þess að breiða út fagnaðarerindi sitt umkringdur leyniskittum og herflugvélum. Það er ekki tilviljun að nasistahreyfingin/ar hafi fengið hugrekki til þess að taka sér pláss með beinum hætti í Reykjavík um leið.  Það er beinlínis hættulegt og við erum hrædd enda eigum við, sem hópar, sögu af kerfisbundinni útrýmingu og ofbeldi. Það lifir að sumu leiti enn þó birtingarmyndirnar séu mögulega aðrar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s