Misrétti gagnvart fötluðum mæðrum er viðfangsefni feminísma

Síðustu fimm ár hef ég unnið að því hörðum höndum að verða (fóstur)mamma. Það hefur verið mikil rússíbanareið sem hefur m.a. innihaldið samþykki heimilisumdæmis, höfnun Barnaverndarstofu áður en lögformlegt mat fór fram, tap í Héraðsdómi og sigur í Landsrétti. Næst á dagskrá er áfrýjun Barnaverndarstofu til Hæstarréttar. Í þessu máli hefur ákveðið fagfólk beitt sérfræðivaldi sínu til þess að dæma líkama minn sjúkan, ófæran um að tengjast börnum og ógn við öryggi þeirra. Þau hafa einnig stimplað heimili mitt stofnannalegt vegna þess að hjá mér starfa aðstoðarkonur sem myndu aðstoða mig við að sinna þeim þáttum foreldrahlutverksins sem snúa að líkamlegri umönnun, sem eru mismunandi og breytilegir eftir aldri, þroska og aðstæðum barns.

Konurnar í lífi mínu

Þetta ferli hefur því vegið að líkama mínum, kyngervi og fötlun. Það hefur ráðist að dómgreind minni, sjálfræði og valdi yfir eigin líkama. Einkalífi og heimili. Það hefur verið sárara en ég mun nokkurntíman geta sett í orð en ég hef komist í gegnum það fyrst of fremst þökk sé konum.

Þær hafa verið mín megin auðlind til þess að komast lifandi á sálinni í gegnum þetta. Þær hafa stappað í mig stálinu. Haldið mér við efnið. Þurrkað tárin mín. Haldið utan um mig. Undirbúið mig fyrir skýrslutöku í dómssal. Séð til þess að fylla dómssali af ljósberum og verndarenglum. Tvisvar. Flutt dómsmálið og undirbúið tvær aðalmeðferðir. Verið vitni. Skrifað meðmæli. Haldið partý til þess að fagna sigri í Landsrétti. Hlustað á mig tala um sigrana og sorgirnar og óttan og gleðina hring eftir hring eftir hring og aldrei gefist upp á mér. Látið mig heyra það þegar ég er við það að gefast upp og missa sjónar af heildarmyndinni. Þær hafa haldið þéttingsfast í vonina mína – líka þegar ég týni henni sjálf.

En hvaða konur eru þetta? Þetta eru fatlaðar konur. Hinsegin konur. Þetta er mamma mín, amma, frænkur og vinkonur. Þetta eru Tabúsystur. Þetta eru aðstoðarkonur. Þetta eru lögmenn mínir. Núverandi og fyrrum samstarfskonur. Ég hef einnig fundið fyrir samstöðu frá kynsegin fólki.

Feminísmi, fötlun og móðurhlutverkið

Sem fötluð kona, femínisti, kynjafræðingur og manneskja með tilfinningar hefur það þó sært mig hve mikil þögn umlykur þetta mál innan meginstraums femínisma á Íslandi. Ég hef reyndar ekki einungis upplifað þögnina heldur einnig mótstöðu frá ófötluðum kynsystrum mínum. Það er eins og ég hafi farið inn á mjög heilagt yfirráðasvæði kvenna þar sem fötlun mín ógnar hugmyndum um yfirburði ófatlaðs kvenlíkama þegar kemur að móðurhlutverkinu. Julia N. Daniels nær vel utan um þessa tilfinningu í fræðigrein sinni Disabled Mothering? Outlawed, Overlooked and Severely Prohibited: Interrogating Ableism in Motherhood.

On the surface opponents to disabled mothering argue that the mother (inevitably) could not cope with the demands of childrearing, and that there is a fear that the ‘biological defects’ could be transmitted to the child. This, they say, would constitute irresponsible mothering. But I sense there is something deeper at play here. I argue that by admitting us in to the sacred hallow of motherhood, this threatens to destabilise the social construction of disability as inherently less than, incapable, invalid. The Mother is an esteemed figure in society, and conflating the two stereotypes further weakens the precarious binary. […] Disabled motherhood creates fear because it exposes the instability and the futility of aspects of individualism and the incessant race for perfection that it is grounded upon.

Þetta særir mig vegna þess að fátt hrópar eins hátt á nauðsyn femínismi eins og saga fatlaðra kvenna af frjósemisfrelsi og barneignum.

Fatlaðar konur hafa sögulega verið sviptar kynfrelsi. Við höfum verið stimplaðar kynlausar, passífar, óaðlaðandi, hjálparlausar og óverðugar þegar kemur að kynlífi, kvenleika, ástarsamböndum og barneignum. Þar af leiðandi er saga okkar m.a. saga af þvinguðum og óupplýstum ófrjósemisaðgerðum og þungunarrofum. Saga af óaðgengilegri heilbrigðisþjónustu og fordómafullum viðhorfum fagfólks innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Saga af þvinguðum getnaðarvörnum og ólöglegum forsjársviptingum Barnaverndarkerfisins. Þessi saga er saga kvenna sem sviptar hafa verið, og eru sviptar, kynfrelsi, frjósemisfrelsi, einkalífi og friðhelgi heimilis og fjölskyldulífs. Þessi viðhorf, með ableískum undirtón, lituð af eintaklingshyggju og kvenfyrirlitningu, þróast, breytast og smitast yfir á önnur svið og víddir – enda þannig sem kerfislægt misrétti virkar. Fatlaðar mæður og foreldrar af öllum kynjum hafa einnig upplifað misrétti þegar kemur að ættleiðingu og fóstri. Þá er álitið að fatlaðar mæður séu ógn við ættleidd börn og fósturbörn þrátt fyrir að engar sannanir séu fyrir hendi um að fatlaðar mæður séu verri mæður en ófatlaðar mæður. Julia N. Daniels heldur áfram.

Disabled women are deemed as being always dependent on others, therefore they cannot have others depend on them as they would be incapable of providing for their needs (Malacrida, 2009; Shaul, Dowling, & Laden, 1985). This assumption arises from the prosaic and clichéd depictions of disabled women as being asexual, dependent and therefore unequivocally unsuited to the role of motherhood, in its dominant narrative (Fritsch, 2015a, 2017; Malacrida, 2009; Parchomiuk, 2014). This is problematic in a number of ways; firstly, by identifying certain individuals and methods of parenting as ideal, it narrows and restricts other means of motherhood by identifying them as deviant and devalued. It is also dependent on a very limited view of caring, and assumes that all caring is physical in nature. This gives little credence to the acts of love, support, guidance, fostering of social awareness, acceptance, and morality.

Það er því ekki af ástæðulausu að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað og fullgilt, kveður á um vernd réttinda til fjölskyldulífs í 23. grein hans um Virðingu fyrir heimili og fjölskyldu. Þar segir m.a.;

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:

a)  að réttur alls fatlaðs fólks, sem til þess hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,

b)  að réttur fatlaðs fólks til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, þar sem tekið er tillit til aldurs, að upplýsingum og fræðslu um getnað og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu tiltæk nauðsynleg ráð sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt.

c) að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks með tilliti til lögráða, forráða, fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum, og skal setja hagsmuni barnsins ofar öllu. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.

Mín barátta er ekki einstakt mál eða einangraður vandi fatlaðra kvenna

Þessi staða einskorðast ekki við fatlaðar mæður. Fátækar konur eiga sögu af sömu meðferð. Hinsegin konur og trans foreldrar. Einstæðar mæður. Og svartar og litaðar konur. Konur sem voru í „ástandinu“. Meira að segja konur sem gáfu sig út fyrir að vera femínistar áður fyrr, og líklega jafnvel enn, til dæmis súffragettur, voru vistaðar á stofnunum fyrir ,,brjálaðar” hugmyndir sínar og/eða haldið frá börnum sínum. Það sem að flestar þessar mæður/foreldrar eiga sameiginlegt er að mennska þeirra, líkami og tilvera hefur verið talin svipta þær hæfni til þess að annast og elska börnin sín „rétt“.

Ég er ekki að skrifa þessa grein til þess að gefa andfeminískum miðflokksmönnum og skoðanasystkinum þeirra vagn til þess að stökkva á gegn feminískri baráttu eða feminískum gildum. Þeim er ekki boðið. Feminísmi er ein af mínum líflínum. Ég er þó orðin þreytt á því að þessi barátta gegn misrétti þegar kemur að móðurhlutverkinu sé álitin eitthvað einstakt mál (mitt) eða einangraður vandi fatlaðra og annarra jaðarsettra kvenna. Það er alveg jafn alvarlegt að það sé gengið að því vísu að ófatlaðar konur eigi að vera mæður eins og að það sé gengið út frá því vísu að fatlaðar mæður eigi ekki að vera það. Það er líka alveg jafn alvarlegt að kona hafi ekki frjálsan aðgang að þungunarrofi eins og að hafa ekki frjálsan aðgang að því að hafna þungunarrofi. Það er líka mjög alvarlegt að ófötluð kona hafi meira tilkall til þess að vera fósturmóðir en fötluð kona.

Á #metoo ráðstefnunni í Reykjavík fyrir skömmu minnti Angela Davis, prófessor og aktivisti, okkur á mikilvægi þess að baráttan fyrir frjósemisréttindum þyrfti að snúast um meira en baráttu fyrir frjálsu þungunarrofi til þess að ná utan um reynsluheim ólíkra kvenna. Ég tók upp þráðinn frá henni daginn eftir á ráðstefnunni.

Að hafa fatlaðar konur með í femínískum hreyfingum þýðir ekki eingöngu að bæta okkur stefnumálum við ykkar stefnuskrá, heldur að við sameinum þær. Það þýðir sameiginlega baráttu fyrir afstofnanavæðingu og réttlátri félagsþjónustu. Það þýðir sameiginlega baráttu fyrir frjósemisréttindum sem, eins og Angela Davis benti réttilega á í gær, felur ekki bara í sér baráttu fyrir aðgengi að þungunarrofi, heldur einnig gegn þvinguðum ófrjósemisaðgerðum. Og mig langar að bæta við frelsi til að hafna þungunarrofi og jöfnum aðgangi að tæknifrjóvgun, fósturkerfinu og ættleiðingu – og aðgengilegri og smánarlausri heilsugæslu og kynfræðslu.

Á meðan móðurhlutverkið er einskorðað við ákveðinn hóp kvenna mun það viðhalda kynjamisrétti og kúgandi þáttum sem tengjast móðurhlutverkinu, t.d. sú sturlaða einstaklingshyggju karlrembu hugmynd að kona eigi ein og sjálf að hugsa um allt sem varðar barnið sitt. Allar mömmur tapa. Jaðarsettar mæður af öllum kynjum ögra og róta í hefðbundnum og hamlandi hugmyndum um mæður og hafa í raun lagt mjög mikið að veði til þess að uppræta það kerfisbundna misrétti sem þær verða gjarnan fyrir. Þess vegna er það eðlileg krafa að meginstraumsfeminísmi gefi okkur pláss – en ekki bara það – heldur leggi sitt að mörkum með róttækum hætti. Þannig breytum við sögunni.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s