Sökudólgar og afgangsstærðir: loftslagsmál með augum fötlunar

Flutt á jafnréttisþingi 20.02.2020

Í dag ætla ég að fjalla um loftslagsmál út frá sjónarhóli fötlunar og benda á hvernig fötluðu fólki líður gjarnan sem ýmist sökudólgar og afgangsstærðir þegar kemur að þessum efnum. Það er mikilvægt, í því ljósi að skoða stöðu fatlaðs fólks á öllum sviðum, að staldra við ableisma. Ekkert almennilegt hugtak hefur fundist yfir það á íslensku, við höfum verið að vinna með hæfishroka og getuhyggju, en höldum okkur í bili við ableisma. Ableismi er kerfisbundið misrétti á grundvelli fötlunar/líkamlegrar getu og er sambærilegt og rasismi og sexismi. Um er að ræða hugmyndakerfi sem lítur svo á að fatlaðir líkamar séu gallaðir, óæskilegir og óverðmætir. Birtingarmynd þess er t.d. mikil áhersla á að skima fyrir, losa sig við, koma í veg fyrir og í versta falli „lækna/lagfæra“ fötlun. Ableismi er jafnframt upphafning ófötlunar á kostnað fötlunar, þ.e. álitið betra að vera fatlaður og ófatlaður, ásamt því að álitið er að fötlun sé alltaf andstæða ófötlunar í stað þess, eins og við erum farin að átta okkur á varðandi kyngervi og kynvitun, að um getur verið að ræða róf. Fötlun getur verið breytileg og jafnframt aðstæðubundin. Ableismi er líka sá vandi þegar gengið út frá því að í samfélaginu sé eingöngu ófatlað fólk sem gerir það að verkum að það er eingöngu hannað með þarfir þess í huga. Birtingarmyndir ableisma geta verið skortur á aðgengi, t.d. að samgöngum, almenningsstöðum og húsnæðismarkaðnum, og viðeigandi aðstoð til þess að tryggja sjálfstæði, frelsi og öryggi fólks. Ableismi getur skarast við sexisma, rasisma, fitufordóma, hinseginhatur, fátækt, flóttamannastöðu o.fl. og þannig skapað margþætta mismunun.

Ableískar umhverfislausnir (e. eco-ableism)

Ableismi er allt um kring, á öllum sviðum samfélagsins, og stundum finnst mér best að að lýsa því þannig að hann sé í andrúmsloftinu. Við öndum honum að okkur hvar sem við erum, sum okkar meðvitaðari um það en önnur, en öll undir áhrifum hans. Ableismi í umhverfismálum er gjarnan fjallað um sem eco-ableism og birtist í umhverfisstefnum og umhverfislausnum og staðsetur fatlað fólk sem annars flokks þjóðfélagsþegna. 

Dæmi um ableískar umhverfislausnir er þegar við horfum fram hjá þörfum og tilvist fatlaðs fólks, þær ýta undir frekari jaðarsetningu og geta jafnvel valdið stöðugum áföllum. Einnig þegar við horfum fram hjá forréttindum ófatlaðs fólks í ákvarðanatöku og ýtum undir skömm fatlaðs fólks vegna tilveru sinnar. 

Fáir átta sig á því að bann við plastvörum, t.d. sogrörum og plasthnífapörum, getur komið illa niður á fötluðu fólki en ennþá hafa aðrar lausnir ekki reynst vel varðandi sogrörin (þau bráðna, molna eða einfaldlega meiða) fyrir utan að margt fatlað fólk hefur ekki aðstoð eða orku nema í litlum mæli til þess að þrífa margnota rör eða vaska upp hnífapör. Það sama má segja um umræðu um bíllausan lífsstíl, sem er góðra gjalda verður og allt það, en tekur lítið mið af því að hjólreiðastígar gera fötluðu fólki ekki mikla greiða og almenningssamgöngur eru ótraustar þegar kemur að aðgengi. Ég komst t.d. ekki í vinnuna síðustu tvo daga því bíllinn minn þurfti í viðgerð og ég get ekki treyst á strætókerfið, bæði vegna misjafns aðgengis en einnig vegna misjafnra viðhorfa strætóbílstjóra sem sumir nenna ekki að aðstoða þig þó aðgengi sé að hluta til staðar. Orðræðan í kringum þetta allt saman er jafnframt smánandi fyrir fatlað fólk en bísnast er yfir því að hjálpartæki eins og þvagleggir séu óumhverfisvænir og því hefur jafnvel verið haldið fram að úrgangur úr fólki sem þarf að taka ákveðin lyf sé óumhverfisvænn. Eco-ableisminn byggir jafnframt á einstaklingshyggju í stað þess að horfa til valdameiri afla eins og stórfyrirtækja og iðnaðar, t.d. sjávarútvegs og matvæla.

Aðgerðaráætlanir, náttúruhamfarir og ableismi

Rannsóknir sýna að fatlað, (lang)veikt og aldrað fólk býr við jaðarsetningu, útilokun og meira óöryggi almennt og er útsettara fyrir ofbeldi. Við vitum jafnframt að fötluðu fólki er seinna og síður bjargað þegar náttúruhamfarir steðja að og ná þ.a.l. síður bata. Ástæðan fyrir þessu er m.a. sú að áætlanir innibera sjaldan aðgerðir sem byggja á viðeigandi aðlögun þessara hópa, bæði í aðdraganda hamfara, á meðan á þeim stendur, og í kjölfarið. Ég get ekki fullyrt að hér á landi séu nákvæmar áætlanir ekki fyrir hendi en eftir töluverða leit fann ég nánast ekki neitt. Það er minnst á fatlað fólk í einhverjum áætlunum og textum en ekki var mikið um nákvæmar útlistanir á aðgerðum og forvörnum í tengslum við fötlun. Það er mjög alvarlegt. Þessar umræddu áætlanir eru jafnframt oft óaðgengilegar mörgu fötluðu fólki, t.d. fólki með þroskahömlun og heyrnarlausu fólki. Það er algengt að há tánartíðni fatlaðs fólks sé (hr)útskýrð með því að okkur sé hvort sem er ekki viðbjargandi og við séum svo berskjölduð og viðkvæm. Þannig er orsökin ekki tengd við ableísk samfélög.

Sem dæmi um þessa stöðu má benda á að í kjölfar fellibils Katrina í New Orleans voru 73% þeirra sem létu lífið fólk 60 ára og eldra en sá hópur er þó einungis 15% íbúa svæðisins. Þá í skæðri hitabylgju í Frakklandi 2003 var 63% tengdra dauðsfalla fólk á stofnunum, einkum hjúkrunarheimilum fyrir aldrað fólk.

Benilda Caixeta var aktivisti sem fókusaði mikið á stöðu fatlaðs fólks varðandi almannavarnir með sérstaka áherslu á mikilvægi aðgengilegra almenningssamganga. Í aðdraganda fellibils Katrina í New Orleans hafði hún reynt að plana hvernig hún gæti komist í skjól og burt en vegna lélegs aðgengis almenningssamganga á svæðinu almennt vildi hún ekki treysta á það. Hún hafði ítrekað samband við ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem lofaði að koma í tæka tíð en kom svo aldrei. Benilda fannst látin á heimili sínu nokkrum dögum seinna. Hjólastólinn hennar fannst í návígi við hana sjálfa. 

Rót vandans er misrétti

Ég tel óhætt að staðhæfa að rót vanda fatlaðs fólks og annarra jaðarsettra hópa er misrétti. Mesta sóunin og mesta hættan gagnvart jörðinni og fötluðu, langveiku og öldruðu fólki þegar kemur að loftslagsváum og hamförum er ableismi (í bland við annað misrétti). Ableismi er rusl. Sú staðreynd að aðgengi er slæmt, stuðningur takmarkaður og viðhorf til fötlunar eru hlaðin neikvæðum hugmyndum er alltaf ógnandi fyrir okkar öryggi en sérstaklega þegar neyðarástand ríkir. Leiðin áfram, eins og á öllum öðrum sviðum er að rödd, þekking og reynsla fatlaðs fólks sé lykilatriði í loftslagsaðgerðum, umhverfislausnum, forvörnum og viðbragsáætlunum. Það er ekki nóg að fá álit okkar í lok ferla eða þegar stórslys hafa átt sér stað. Það þarf líka að vera tryggt að ekki einungis ófötluðum fulltrúum samtaka fatlaðs fólks sé boðið að borðinu heldur fötluðu fólki sjálfu, fólki sem lifir í líkömum sem oft er kennt um loftslagsvandamál en eru á sama tíma síðastir á forgangslistanum þegar hætta steðjar að.

Fatlað fólk á ekki bara að vera á hliðarlínunni. Okkar aðkoma þarf að vera alls staðar og alltaf. Stjórnvöld, samtök um umhverfismál og allir viðbragðsaðilar, þurfa þess vegna að ráða fatlað fólk til starfa. Sérfræðiþekking okkar er nauðsynleg til árangurs fyrir alla og frekar en annarra getur ekki verið í sífelldri sjálfboðavinnu. Það þarf líka að bera virðingu fyrir sérþekkingu okkar en sá ableismi, í bland við kvenfyrirlitningu og fordóma fyrir börnum, sem Greta Thunberg hefur orðið fyrir varpar skýru ljósi á hvernig fötlun, í hennar tilfelli taugabreytileikinn Asperger, er notuð gegn okkur, jafnvel af valdamiklu fólki, til þess að þagga niður í okkur og gera okkur tortryggileg. Ábyrgðin þarf svo að vera sett þar sem hún á heima en ekki alfarið á hendur einstaklinga sem hafa oft ekki mikið vald yfir sínum aðstæðum. Að sjálfsögðu getum öll lagt okkar að mörkum sem er mikilvægt en pressan á að vera þar sem mesta valdið liggur, Við þurfum jafnramt að taka skömmina úr umferð – hún er gagnslaus og meiðandi. 

Fatlað fólk á sama rétt og aðrir á að innbyrða vökva, fara á salernið og komast um án þess að þurfa að lifa við skömm yfir að vera til, taka pláss eða skilja eftir umhverfisfótspor. Líf okkar er jafnframt þess virði að lifa því – það er líka þess virði að því sé bjargað. Að þurfa að taka það fram er auðvitað fáránlegt en við erum bara ekki komin lengra. Takk fyrir mig.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s