Snerting

Á ráðstefnu á Írlandi sem ég sótti í fyrra hlustaði ég á karl með þroskahömlun lýsa því hvernig hann hafði aldrei fundið fyrir nánd, snertingu og hlýju þar sem hann ólst upp á stofnun. Eins og hann sagði svo eftirminnilega; ,,Ekki einu sinni þegar ég datt og meiddi mig. Ekki einu sinni þegar ég var veikur.” Ég hef hugsað stanslaust til hans á þessum flóknu tímum þegar margt fatlað fólk upplifir nú mikla einangrun og snertingar- og nándarleysi. Auðvitað eru ástæðurnar ríkar og við þurfum að vernda okkur.

Við megum hinsvegar ekki gleyma því, allra síst stjórnvöld, almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld, að nándar- og snertingarleysi, jafnvel sem pyntingartæki, er hluti af sameiginlegri áfallasögu fatlaðs fólks í gegnum útilokun og stofnannavæðingu. Í fjölmiðlum hefur verið talað frjálslega og án málalenginga um að fólk í áhættuhópum þurfi jafnvel að einangra sig upp að einhverju marki fram að áramótum eða lengur. Að segja slíka hluti án frekari útskýringa og leiðbeininga er mikið ábyrgðarleysi að mínu mati. Þegar ég les eitthvað á þessa leið fyllist ég mjög miklum kvíða. Margt fatlað fólk, sérstaklega fólk með þroskahömlun sem hefur reynslu af stofnannavistun og langveikt fólk sem ítrekað hefur þurft að einangra sig, er að upplifa mjög erfiða tíma í mikilli einveru og án nokkurrar nándar. Það getur hæglega triggerað erfiða reynslu og sársauka. Það er vissulega búið að fjalla eitthvað um einmanaleika og einangrun í tengslum við Covid19 en þetta er svo miklu dýpra en það.

Snerting er grunnþörf eins og vatn og súrefni. Fyrir sumt fatlað fólk er hún tjáningarleið því talað mál er ekki fyrir hendi. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei alist upp á stofnun eða upplifað skort á nánd og snertingu með beinum hætti finnst mér það að búa ein og vera í verndarsóttkví ótrúlega flókið ástand. Ég gekk aldrei í gegnum það í æsku að engin hafi veitt mér ást og snertingu þegar ég slasaði mig eða var veik eins og maðurinn sem ég hlustaði á í fyrra. Ég reiði mig heldur ekki alfarið á snertingu til tjáningar. Ég er í mikilli forréttindastöðu miðað við margt fatlað fólk. Þetta reynir samt á allar frumur líkama míns, vekur upp erfiðar minningar og flókin hugrenningartengsl í sambandi við fötlunarreynslu og allskonar ableisma.

Nú þegar tilslakanir á samkomubanni eru að hefjast er mjög mikilvægt að að gleyma fötluðu fólki ekki einu sinni enn. Við þurfum öll að fara varlega, ekki síst fólk sem er ekki í áhættuhópi, því við sem erum það getum ekki borið byrðina af Covid19 ein. Það þarf að huga að því, og leiðbeina okkur, um hvernig við getum farið að hitta og snerta fólkið okkar. Það er mjög áhættusamt að smitast af Covid19 en það er líka áhættusamt til lengri tíma að fara á mis við ást í formi líkamlegrar nándar og snertingar. Það er líka forsenda fyrir góðri andlegri og líkamlegri heilsu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s