Evrópuþingið lagði fram tillögu árið 1997 þar sem skilgreining á hatursorðræðu kemur fram en hugtakið er skilgreint sem tjáning hvers konar sem dreifir, ýtir undir eða réttlætir kynþátta- og útlendingahatur ásamt öðru hatri sem byggir á umburðarleysi (e. intolerance). Hatur sem byggir á umburðarleysi hefur svo verið skilgreint víða í þessu samhengi sem tjáning hvers konar á árásargjarnri þjóðrembu, mismunun og illskeittri framkomu gagnvart minnihlutahópum. Smánun, staðalímyndir, fordómar, aðgerðir sem stuðla að mismunun gagnvart hópum sem eru skilgreindir sem ,,hinir” hefur áhrif á mótun hatursorðræðu.
Við þekkjum öll og höfnum flest í dag hatursorðræðu t.d. gagnvart svörtu fólki og hinsegin fólki því við vitum að hún skaðar þá hópa sem verða fyrir henni, okkur sjálf sem gerendur eða áhorfendur og þar með allt samfélagið. Það virðist þó vera að í íslensku samfélagi, og víðar, séum við tilbúin að dreifa, ýta undir og réttlæta hatursorðræðu gagnvart fötluðu fólki, m.a. fólki með þroskahömlun og fólki sem á líkama sem fellur ekki vel að normal kúrfunni sem engin veit raunverulega hver bjó til. Lagalega höfum við viðurkennt í 233. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 að hver sem ,,með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar” geti verið sektaður eða fangelsaður í allt að tvö ár. Hugtakið fötlun er ekki þarna inni þó svo að íslenskir fréttamiðlar, sjónvarpsþættir og kvikmyndir ýti með beinum og óbeinum hætti undir hatursfullt og fordæmandi efni gagnvart fötluðu fólki. Svo ekki sé nú talað um Facebook, Twitter, athugasemdakerfi, tölvuleiki o.sfrv. Ástæðan fyrir því að tekið er á þessu í lögum og alþjóðamannréttindasamningum er m.a. vegna þess að rannsóknir sýna að hatursorðræða getur stuðlað að hatursglæpum (sem er efni í annan pistil).
Dæmi um hatursorðræðu á Íslandi
Andri Snær Magnason skrifaði facebook status fyrir nokkrum dögum þar sem hann gagnrýndi Íslendinga fyrir að kjósa yfir sig stjórnmálaflokka í meirihluta sem báru m.a. ábyrgð á hruninu. Hann endaði statusinn með eftirfarandi hætti; ,,Að vera Íslendingur er eins og eiga þroskaheftan síamstvíbura.” DV birti gagnrýnislaust frétt um afstöðu Andra Snæs þar sem þessi setning er notuð í fyrirsögn. Ég, ásamt fleirum, brást við þessu á facebook síðu hans og baðst hann afsökunar í pistli á heimasíðu sinni þar sem hann þó, því miður, segir og lætur afsökunarbeiðnina þar með falla um sjálfa sig; ,,Ég átti ekki við raunverulega fötlun heldur í hinni alþekktu slangurmerkingu, þegar einhver sem maður þekkir hagar sér eins og kjáni. Greinin var í slangurkenndum flæðistíl. Það er misjafnt hvernig menn skynja orð. Ég er auðvitað að tala um manneskjur sem ættu að vera með fullan þroska en læra ekki af reynslunni – að þroski þeirra sé heftur, að menn falla sífellt fyrir sömu gylliboðunum. Við förum hring eftir hring, hlaupum aftur og aftur á sama vegginn.” Í framhaldi af þessari umræðu birti facebook vinur Andra grínmynd af Andra sjálfum og þroskahefta síamstvíburanum. Sá var með hor og slef sem frussaðist út um allt. Ég tilkynnti myndina sem meiðandi og hefur facebook fjarlægt hana.
Það er í raun ekki orðið þroskaheftur sem ég tel vera aðalatriðið í þessu öllu saman heldur notkun hugtaksins yfir hóp af fólki sem er auðtrúa, kaupir loforð, fylgir mögulega ekki sannfæringu sinni þó það viti betur og kýs einhverja vitleysu (eins og Andri Snær vill meina). Hann talar um að hann hafi ekki ,,átt við raunverulega fötlun” heldur hafi hann verið að nota slangur eins og það sé þá allt í lagi. Hann segist hafa verið að meina manneskjur sem ættu að vera með fullan þroska og læri ekki af reynslunni. Ég skil ekki hvað það þýðir. Er einhver með fullan þroska? Og er eitthvað samasemmerki milli þess að vera með þroskahömlun og læra ekki af reynslunni? Af hverju er það gott orð til að lýsa því? Ég er til dæmist alls ekki vitsmunalega fullþroskuð og stend í þeirri meiningu að ég verði það aldrei því ég læri svo lengi sem ég lifi. Og svo læri ég bara stundum af reynslunni en alls ekki alltaf. Sjaldnast raunar. Þó ég ætti kannski ekki að segja frá því. Ég hef samt aldrei verið greind með þroskahömlun. Ég á hins vegar vini sem eru greindir með þroskahömlun og finnst mér þeir upp til hópa frekar þroskað og klárt fólk. Ég er eiginlega viss um að margir þeirra hafi lært betur af reynslunni en ég. Svo veit ég að þeir kusu fæstir framsóknarflokkinn og sjálfstæðisflokkinn.
Í gær birtist líka frétt á Vísi undir yfirskriftinni ,,Mælingar sýna að Barbie er verulega vansköpuð.” Hún fjallar um þá tíðnefndu og réttmætu gagnrýni að Barbie sé ekki í samræmi við ,,hin hefðbundna líkama” og geti þess vegna gefið börnum sem með hana leika röng skilaboð. Líkamsgerð Barbie er lýst með eftirfarandi hætti; ,,Og, með því að stækka dúkkuna í fulla líkamsstærð, í þrívíddarmódeli, kemur á daginn að mittismál hennar er 46 sentímetrar sem nær vart helmingi þess sem er á meðalstórri eðlilegri 19 ára gamalli stúlku. Í raun kemur í ljós að Barbie er öll hin sérkennilegasta í laginu. Háls hennar er svo langur og mjór að hún gæti ekki mögulega haldið haus, svo dæmi sé nefnt. Þá væri þyngd hennar þannig að Barbie myndi flokkast með alvarlegt lystarstol.”
Nú, í þessum 77 orðum er svo margt mótsagnakennt að ég veit ekki hvar ég á byrja. Fréttin er að tala um óheilbrigða líkamsímynd sem Barbie gefur skilaboð um en í sömu andrá er dregin upp mynd af ,,meðalstórri eðlilegri 19 ára gamalli stúlku” eins og það sé fyrirbæri sem er til. Og ef það fyrirbæri er til væri það andstaða þess að vera óeðleg kona með tilvísun í hugtakið vansköpun sem læknisfræðin notar um fatlað fólk og hugtakið lystarstol sem er geðfötlun. Er Barbie þá fötluð? Eða er ég komin í sama flokk og Barbie? Eða eru allir sem eru með langan háls fatlaðir? Eða, verandi læknisfræðilega skilgreind sem vansköpuð, eins og Barbie, er ég þá andstaðan við eðlilega konu? Hvernig virkar þetta?
Húmorslaus og ofurviðkvæm?
Nú eru líklega einhverjir að lesa þetta í andnauð yfir húmorsleysi mínu og ofurviðkvæmni. Svo eru einhverjir sem hugsa kannski að tjáningafrelsinu hljóti að stafa ógn af fólki eins og mér.
Frá því ég fæddist 1986 hef ég búið í samfélagi þar sem hatursorðræða og afbakaðar birtingarmyndir um fatlað fólk hafa oft látið mér líða eins og ég hljóti að vera heimsk, óhæf um að taka ákvarðanir sjálf, óeðlileg, fráhrindandi og á stundum ógeðsleg. Þegar ég var unglingur þoldi ég ekki að horfa á mig í speglinum því ég hataði ,,vanskapaða” líkaman sem ég sá. Ég neitaði stundum að mæta í skólan og sleppti því að fara á árshátíð því ég vildi ekki að neinn sæi mig. Sem betur fer, þökk sé fólki og atburðum í lífi mínu, hef ég náð betri tökum á þessum hugsunum þó svo að ég missi stundum stjórn á þeim ennþá. Ég er skíthrædd við að gera mistök eða standa mig ekki nógu vel því ég hef alltaf þurft að sanna mig margfalt meira en flestir. Eins og Embla Ágústsdóttir orðaði það mjög vel; af því ég er fötluð. Vinir mínir með þroskahömlun hafa upplifað höfnun úr atvinnulífinu og skólasamfélaginu því þar virðist fólk vera búið að læra að sá hópur sé kjánalegur, læri ekki af mistökum og geti ekki lært né þroskast. 12 ára sonur vinkonu minnar með downs heilkenni kom heim úr skólanum um daginn og spurði mömmu sína hvort hann væri með ónýtan heila. Við þurfum ekkert að hugsa lengi til að átta okkur á að sú hugmynd er ekki sjálfsprottin hjá honum, hún er samfélagslega mótuð.
Það sem gerist þegar okkur finnst normal og fyndið að tala um þroskahefta síamstvíbura eða vanskapaða Barbie dúkku er að við erum að viðhalda skaðlegum hugmyndum og nota orð sem smána aðra. Orðin búa ekki eingöngu til fordóma og hatur meðal ófatlaðs fólks heldur ýta undir að við sem erum fötluð tökum þessar hugmyndir og orð, innbyrðum þær og förum jafnvel að hata okkur sjálf, tímabundið eða varanlega.
Í mínum huga er tjáningafrelsi ekki frelsi til að tjá hatur. Það er frelsi til að tjá sig um skoðanir sínar, óskir og sannfæringu. Hatur á ákveðnum þjóðfélagshópum flokkast ekki undir neitt af þessu. Það er heldur ekki tjáningafrelsi að hafa rétt á að meta hvað er meiðandi og hvað ekki fyrir þjóðfélagshópa þegar maður tilheyrir honum ekki. Skilgreiningavaldið hlýtur að vera hjá hópnum sjálfum.
Það er réttur okkar, fatlaðs fólks, að vera frjáls undan því að búa við meiðandi orðræðu. Það er réttur okkar að hafa frelsi til að móta sjálfsmynd okkar án þess að vera stöðugt að eiga við lélega brandara valdamikilla aðila í samfélaginu sem niðurlægja okkur. Mér finnst það líka, fyrst og fremst, vera réttur næstu kynslóðar af fötluðu fólki að þurfa aldrei að koma heim og spyrja foreldra sína hvort það sé með ónýtan heila eða horfa í spegil og hata líkama sinn af því að aðrir skilgreina hann sem afbrigðilegan og fráhrindandi.