Það er ofar mínum skilningi að í upplýstu nútímasamfélagi árið 2013 taki Hæstiréttur ákvörðun sem niðurlægir konur og gerir lítið úr kynferðisofbeldi sem þær verða fyrir.
Það er ofar mínum skilningi að þrátt fyrir að í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 komi fram í 194. grein ,,að hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skal sæta fangelsi” skuli það ekki vera dæmt sem kynferðisbrot að stinga fingrum upp í leggöng og endaþarm af því að tilgangurinn var ,,að meiða” en ekki kynferðislegur.
Það er ofar mínum skilningi hvernig hægt er að horfa á nauðgun sem eitthvað annað en valdbeitingu og ofbeldi með þann tilgang að niðurlægja og meiða.
Það er ofar mínum skilningi hvers vegna það er í lagi að dæma manneskju sem beitir líkamlegu ofbeldi sem veldur dauða fyrir morð sem hafði ekki þann tilgang að drepa heldur meiða en ekki manneskju fyrir nauðgun af því tilgangurinn var ekki að nauðga heldur meiða.
Það er ofar mínum skilningi hvernig nokkurri manneskju dettur í hug að nauðgun hafi í raun ,,kynferðistilgang” eins og einhver löglærður snillingur og frambjóðandi stjórnmálaflokks orðaði það svo smekklega í útvarpinu. Fyrir þá sem eru eitthvað að ruglast; nauðgun er kynferðislegt ofbeldi. Og kynferðislegt ofbeldi er ekki kynlíf.
Það er ofar mínum skilningi að ofangreindur snillingur kalli það ofstæki að borgarar í landinu hafi skoðun á þessum dómi af því þeir eru ekki allir lögfræðingar og eru þar af leiðandi alltof vitlausir. Það er áhugavert þar sem þessi löglærði maður skilur ekki muninn á kynlífi og nauðgun.
Það er ofar mínum skilningi að ég skuli búa í samfélagi sem stuðlar að því að ég finn mig knúna til að skrifa þetta blogg. Ég finn mig knúna til þess því ég kæri mig ekki um það að ef mér eða annarri konu verður nauðgað geti gerandinn komist undan því að vera dæmdur fyrir kynferðisbrot af því að hann vildi bara meiða en ætlaði aldrei að fá neitt út úr því kynferðislega.
Í slíku samfélagi, þar sem gerendur hafa skilgreiningarvaldið fyrir dómsstólum á ofbeldinu sem þeir beita, erum við ekki örugg.
Þess vegna skrifaði ég undir þennan lista.
Takk fyrir pistilinn, Freyja – fátt er meira hressandi en svona ofstæki með morgunkaffinu.