… er stórkostlegt afrek fyrir landsfund sjálfstæðisflokksins. Finnst mér. En áður en lengra er haldið skulum við kynna okkur söguna af dýrunum sem stofnuðu skóla.
Eitt sinn fyrir langa löngu ákváðu nokkur dýr að taka sig saman og drýgja einhverja hetjudáð til þess að mæta áskorun nútímans. Þau voru sammála um að farsælasta leiðin væri að stofna skóla. Dýrin tóku upp virka námskrá sem samastóð af hlaupum, flugi, sundi og klifri. Námskráin tók yfir allar athafnir dýranna og margskonar líkamlega færni þeirra. Til þess að auðvelda umsjón með námskránni og gæta fyllsta réttlætis, þurftu öll dýrinn að leggja stund á allar námsgreinarnar og tóku ávalt samræmt próf í greinunum.
Öndin var frábær í sundi, meira að segja betri en sjálfur kennarinn, en hún náði naumlega fullnægjandi einkunn í flugi og var afar lélegur hlaupari. Þar sem hún hljóp of hægt var hún látin sleppa sundi og æfa hlaup í staðinn í sérstökum hlaupa sérkennslutímum. Þessu var haldið til streitu þar til fætur hennar voru orðnir svo sárir að hún átti erfitt með að synda og varð því aðeins meðalnemandi í sundi í lok annar. En meðaltal var viðunandi í skólanum svo enginn kippti sér upp við það nema öndin.
Kanínan var í byrjun skólagöngunnar best í hlaupum, en fékk fljótlega taugaáfall sökum mikils álags við að bæta sig í sundi. Kanínur og sund eiga illa saman.
Íkorninn var frábær í klifri þar til hann smám saman missti sjálfstraustið vegna flugtímanna. Kennarinn vildi nefnilega að hann hæfi sig á loft frá jörðu í stað þess að stökkva af trjákrónunum og niður til jarðar. Hann fékk líka vöðvakrampa af of mikilli áreynslu. Í einkunn fékk hann síðan C í klifri og D í hlaupum.
Örninn var vandræðafugl. Reynt var að aga hann en með engum árangri. Í klifurtímum var hann fyrstur allra að komast efst upp í tréð, en þrjóskaðist við að nota sína eigin aðferð til að komast þangað. Hann neitaði algjörlega að nota þá aðferð sem ætlast var til af skólanum og lenti útí kuldanum.
Í lok skólaársins var það svo kamelljón sem synti allvel og gat líka hlaupið, klifrað og flogið dálítið sem fékk hæstu meðaleinkunn og dúxaði þar með í skólanum.
Höfundur ókunnur
Þið verðið að fyrirgefa en mér er algjörlega um megn að skilja hvernig það getur skapað framhaldsskólum betri aðstæður að meta hvaða nemendur þeir eiga að taka inn á grundvelli staðlaðs samræmds prófs sem lagt er fyrir mörg þúsund nemendur. Þessir nemendur hafa ólíkt áhugasvið, nota ólíkar leiðir til að læra, búa við mismunandi heimilisaðstæður, þurfa ólíka aðstoð við nám, eiga miserfitt með að þreyta þriggja klukkustunda próf marga daga í röð (algjörlega óháð námsgetu) og eru í ólíkum skólum, þar sem eru ólíkir kennarar, með margvíslegar kennsluaðferðir og mismunandi áherslur.
Mér er líka fyrirmunað að skilja áhyggjur landsfundar af svokallaðri einkunnaverðbólgu en í frétt um málið kemur fram að ,,Samræmd próf í 10. bekk voru lögð niður með nýjum grunnskólalögum sem tóku gildi árið 2008 en í stað þeirra tekin upp könnunarpróf að hausti, með svipuðu sniði og í 4. bekk og 7. bekk. Þess breyting hefur verið umdeild og halda sumir því fram að hún sé orsakavaldur n.k. einkunnaverðbólgu í grunnskólum þar sem kennarar vilja tryggja að nemendur þeirra komist inn í framhaldsskóla.”
Í fyrsta lagi finnst mér þetta vera áfellisdómur á stóran hluta kennara því verið er að gefa í skyn að þeir séu allir bara að gefa einkunnir út í loftið. Í öðru lagi finnst mér verið að gera lítið úr nemendum með því að áætla að einungis brotabrot af þeim séu raunverulega að standa sig vel og ættu því að komast auðveldlega inn í framhaldsskóla. Í þriðja lagi finnst mér þessi umræða einkennast af því að ályktað sé á skjön við stefnu stjórnvalda um jafnrétti og skólagöngu sem aðgreinir ekki ólíka nemendur frá öðrum á grundvelli félagslegra aðstæðna. Þó svo að okkur hafi tekist fremur illa að innleiða þá hugmyndafræði í skóla á Íslandi hafa skólar verið að reyna að byggja upp skólasamfélag sem horfir meira á styrkleika hvers og eins og leggja áherslu á ólíkar leiðir í námi. Það hlýtur að stuðla að því að nemendur hafa betri forsendur til að standa sig vel og eru metnir á heildstæðari hátt heldur en út frá stöðluðum prófum sem þvinga þá alla inn í sama kassan. Alveg eins og hjá dýrunum sem stofnuðu skólan hlýtur þessi kassi að valda nemendum skaða, draga úr námsánægju þeirra og þar með námsárangri.
Ef öndin hefði fengið að leggja áherslu á sund og eyða minna púðri í hlaup og flug, kanínan lagt áherslu á hlaup í stað sunds, íkornin klifur í stað flugs og örninn hefði mátt nota aðferðir sem hentuðu honum best hefði líklega engin fengið sár á fæturnar, taugaáfall, brotna sjálfsmynd eða lent út í kuldanum. Þá hefðu þau öll komið betur út úr námsmati og haft miklu betri forsendur til að ,,meika það” sem sérfræðingar á sínu sviði í framtíðinni, samfélaginu til hagsbóta.
Grundvöllur til jafnréttis til náms getur þá, í mínum huga, ekki snúist um að allir geri það sama, jafn hratt, á sama tíma og með sömu verkfærin í höndunum. Þessi grundvöllur hlýtur að vera aðstæður þar sem nemendur hafa tækifæri til að þroskast og rækta hæfileika sína, á sínum hraða og tíma, með verkfæri í höndunum sem hentar þeim.
En ég er auðvitað, eins og kom fram á þessum sama fundi, af annarri plánetu, svo það er ekki furða þó að mér finnist það ekki vera draumasamfélag að sumir séu með sárar fætur, búnir að fá taugaáfall, með sjálfsmynd í molum og séu geymdir út í kuldanum svo við getum tekið upp samræmd próf á ný og þvingað alla til að vera meðalmanneskjur í öllu og ef þeir geta það ekki geti þeir sömu nemendur bara átt sig.
Þetta er frábær pistill, takk fyrir. Dýrasagan súmmerar hafsjó af rökum í einn, skiljanlegan pakka.
Ég hef verið full aðdáunar á þér Freyja síðan ég kenndi tímabundið í Garðaskóla forðum daga og fékk þann heiður eitt sinn að aðstoða þig í samræmdu prófi…….burtséð frá því samræmda þá varst þú einstök. Ég vona svo innilega að þú munir alltaf njóta þess en ekki gjalda…..
Takk fyrir góðan og sannan pistil
Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þessa röksemdafærslu. Börn eru mismunandi, og þurfa mismunandi kennsluaðferðir, þannig að það er ósanngjarnt að þau taki sama prófið úr námsefninu sem þau eiga samt öll að læra? Það gerir þetta semsagt mikið sanngjarnara að krakkar taki miserfið próf, án þess þó að það sé nein regla á því hver taki hversu erfið?
Vandamálið við samræmd próf er þá að nemendur með svipaðan námsárangur hópast saman í sömu skólana vegna einkunna? Þýðir það ekki bara að hægt er að veita nemendum á svipuðum stað í náminu svipaða kennslu í stað þess að nemendur á gjörólíkum stað séu saman í bekk og því þurfi kennarinn að reyna að kenna öllum á mismunandi hátt á sama tíma?
Systir mín er að klára 10. bekk í vor, og henni er sagt að hún þurfi yfir 9 í meðaleinkunn til að eiga séns á að komast inní kvennó.. Það var ekki þannig þegar ég útskrifaðist úr grunnskóla, 8 hefði örugglega dugað, svo jú, það er mælanleg einkunnaverðbólga.
Að lokum vil ég nefna að í sambandi við þessa dýraskólamyndlíkingu, þá fengu nemendur að velja hvaða samræmdu próf þeir tóku áður en þau voru afnumin.
Þarna segir bara
“Lagt er til að samræmd próf við lok grunnskóla verði tekin upp á ný til að framhaldsskólar geti metið nemendur á jafnréttisgrundvelli við ákvörðun um inntöku.”
Það sækja fleiri nemendur um menntaskólanám en komast, sérstaklega í suma skólanna, það veldur einfaldlega því að skólanir þurfa að velja nemendur og hafna öðrum. Þarna er bara verið að stinga upp á því að nemendur taki sama prófið sem svo framhaldsskólar geta notað þegar þeir velja til sín nemendur. Ef allir taka sama prófið þá er allavega kominn grundvöllur til að mæla einn þátt getu nemenda í samanburði við jafnaldra á öllu landinu.
Af hverju er það svona hræðilegt ? Segjum sem svo að ég sé einstaklingur sem fær 10 í öllu og er eins og sérsniðinn í hefbundið bóklegt nám og svo er annar sem fær 5 í öllu og gengur ekkert sérstklega vel í bóknámsfögum, við sækjum báðir um nám í t.d. MR. Af hverju er ekki sanngjarnt að meta hæfni sem hentar sérstaklega vel til árangur í þeim skóla sem ég er að velja mér?
vá ég fékk bara tár í augun, þetta er svo frábær pistill hjá þér Freyja.
Takk fyrir athugasemdirnar öll sömul, Halla, Harpa, Sveinn Ingi, Júlíus Þór, Stebbi og Kristín 🙂
Júlíus Þór: Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara. Nemendur eru einmitt ekki með sama námsefnið að öllu leiti. Námsskráin gefur skýr skilaboð um hvað á að læra en kennarar hafa, sem betur fer, frjálsar hendur upp að einhverju marki hvernig námsefni þeir velja að nota. Fyrir utan að í skóla þar sem hugmyndafræði um einstaklingsmiðað nám er höfð að leiðarljósi eru nemendur ekki alltaf með sömu bækurnar eða að nota sömu leiðirnar þó verið sé að uppfylla sömu markmiðin. Og svo var ég ekki að tala um að allir ættu að taka ólík próf heldur að SAMRÆMD próf gætu ekki verið aðferð til að mæla námsárangur á jafnréttisgrundvelli fyrir inntökur í framhaldsskóla þar sem nemendur, kennarar og skólar eru ólíkir. Ég skil ekki hvers vegna námsmat skólanna dugir ekki. Annars er ég ekki mjög hrifin af prófum yfirleitt en það er önnur saga.
Annað. Ég tel það mjög mikla einföldun að áætla að 30 manneskjur sem fá 8 í meðaleinkun í samræmdu prófunum séu á svipuðum stað í námi og þurfi svipaða hluti. Og ég held þú vitir það alveg jafn vel og ég 😉 Hví ekki að afnema þessa skyldu um himinháar lágmarkseinkunnir frekar? Það hlýtur að vera styrkleiki fyrir hvaða skóla sem er að hafa alls konar nemendur.
Stebbi: Einkunnir segja bara hálfa sögu um manneskjur. Ein manneskja getur verið með 6 í meðaleinkun eitt árið því hún var að missa náin ástvin og er að deela við erfiða hluti en rokið svo upp í 9 þegar henni er farið að líða betur. Önnur manneskja getur verið að fá 5 í öllu í einum skóla en hækkað mikið í öðrum skóla því þar líður henni betur eða því þar er aðferðum beitt sem hentar henni. Mér finndist t.d. ekkert sérstaklega sanngjarnt að þú færir inn frekar en manneskjan sem fær fimm því þessi fimma þarf ekkert endilega að segja nokkuð um námsgetu hennar í MR. Hvers vegna ekki að miða þá frekar við námsmat skólanna sjálfra? Það má vel vera að einkunnarverðbólga sé til staðar en hún á sér mögulega margar góðar og gildar skýringar.
Mannfólkið er ekki svona ferkantað og á meðan við látum eins og að þannig sé það, þó við vitum innst inni betur, þá erum við að koma í veg fyrir að hafsjór af hæfileikaríku fólki ,,fái séns.”
Mér finnst ekkert að því að sem flestir mælikvarðar séu notaðir, samræmd próf er bara einn af þeim. þó hann sé örugglega gallaður á einhvern máta þá er hann nú samt sem áður þannig að allir fá sömu spurningarnar og standa að því leiti jafnræðis gagnvart skólanum sem þau eru að sækja um vist í. En jú mér finnst það víst sanngjarnt að nemandi sem fær 10 komist frekar inn en nemandi sem fær 5, eða svo við umorðum þetta, það er ekki sanngjarnt að nemandi sem fær 5 komist inn á kostnað annars sem fær 10.
Ég held að þarna sjáum við bara hlutina ólíkum augum.
Samræmd próf eru ekki tekin í öllum greinum, heldur þeim grunngreinum sem við viljum að sem flestir hafi ákveðinn grunn í áður en áfram er haldið í framhaldsnám og síðar háskólanám, það er enginn að móta líf sitt að miklu á þessum árum, hvað þá njörða niður hvaða starfsframa það ætlar sér ef það á annað borð ætlar í meira nám.
Punkturinn þinn með þessum pistli, er jú að þetta sé ekki gott, því við erum öll svo mismunandi, og einhverjum gæti liðið illa ef þau fá lágar einkunnir í þessum prófum (og þá öllum prófum geri ég ráð fyrir), þannig að þú ert á móti prófum, gott og vel, ég væri til í að skoða þann möguleika í menntakerfinu en vantar þá eitthvað að tala um tengt því.
það að samræma próf á þessu stigi í skólagöngu krakka er tól fyrir stjórnvöld og menntakerfið okkar í heild til að fylgjast með árangri í Grunnmenntun í Grunnfögum, fyrir utan að framhaldsskólar geta notað þetta til að skoða hverjum er best borgið í framhaldsskólanámi hjá sér.
Það að koma með dæmi um einhvern sem missir ástvin og fær lélegar einkunnir það árið eða árin, er fáranlegt dæmi, við getum ekki tekið allt til því miður, annars myndi kostnaður menntakerfisins draga okkur ofan í einhverja gjótu og eftir það útá gaddinn þar sem við deyjum hægt og rólega 🙂
Takk fyrir athugasemdina þína Egill.
Þetta ,,fáránlega dæmi” er dæmi um veruleikan. Og ekki er um að ræða bara einn eða tvo nemendur heldur þúsundir. Og ég get bara ekki tekið undir að samræmd próf birti raunverulega mynd af manneskjum. Og þess vegna er það sem tæki tilgangslítið ef niðurstöðurnar eru ekki að birta raunveruleikan.
Þú segir: ,,það að samræma próf á þessu stigi í skólagöngu krakka er tól fyrir stjórnvöld og menntakerfið okkar í heild til að fylgjast með árangri í Grunnmenntun í Grunnfögum, fyrir utan að framhaldsskólar geta notað þetta til að skoða hverjum er best borgið í framhaldsskólanámi hjá sér.”
Akkúrat þarna liggur grundvallarmunur á afstöðu okkar. Það er þitt mat að nemendur eigi að lúta því að ein af stórum forsendum þess að þau komist í framhaldsskólan sem þau kjósa sé að standast próf sem er sniðið að þörfum stjórnvalda og menntakerfisins. Það er hins vegar mitt mat að hlutverk og skyldur menntakerfisins og stjórnvalda sé að framkvæma í takt við kröfur og þarfir fólksins. Ekki bara þeirra sem fá 8,5 í meðaleinkunn í samræmdu prófunum.
Og ég trúi því reyndar líka, byggt á rannsóknum sem ég hef lesið, eigin reynslu og menntun, að það að ,,taka allt til” eins og þú orðar myndi skila miklum fjármunum í ríkiskassann. Þá myndum fyrst fara að lifna við.
Ástæðan fyrir að ég notaði orðið fáránlegt er því að þetta er lítill hluti nemenda sem lendir í einhverju jafn hræðilegu, árið sem það er að taka samræmdu prófin sín, og að missa ástvin, væri áhugavert að vita hvaðan þú færð þúsundir sem fjölda nemenda sem lenda slíku.
Raunveruleikinn er hlaðinn undantekningum, það að taka utan um allar undantekningar, á allan máta, til að allir standi eins nálægt 100 % jafnfætis og við getum þegar kemur að mati á færni, sem menntaskólar eru að skoða þegar þau velja nemendur og yfirvöld skoða til að sjá hvar við sem samfélag stöndum höllum fæti þegar kemur að gæðum kennslu eða öðrum vandræðum sem gætu orsakað lægri einkunnir fyrir fjölda nemenda, heilu bekkina eins og þeir leggja sig t.d., væri einfaldlega of dýrt.
og já auðvitað er ég sammála því að menntakerfið eins og það er í dag, meingallað, mætti taka það rækilega í gegn, kenna dans eins vel og við kennum stærðfræði sem dæmi, (Ken Robinson frá TedTalks), en allt slíkt kostar peninga, vilja og tíma.
eins og er þyrfti fyrst að sýna fram á með dæmum annars staðar frá úr heiminum hvernig þetta hafi verið prófað og virkað vel, og virkað lengi, og virkað ódýrt, því annars nærðu ekki að selja yfirvöldum hugmyndina.
fólk á það til að vilja gleyma að kakan sem við höfum úr að moða sem samfélag, er einungis 100 %, einhver % fer í heilbrigðiskerfið, eitthvað í stjórnsýsluna, eitthvað í félagslega aðstoð, o.s.frv., og allir vilja fá meira en þeir fá í dag, og með því að eyða meira í aðstoð við öryrkja, þá þurfum við að taka þá % frá einhverjum öðrum, barnaspítölum t.d. eða hvað, það er ekki nóg að öskra bara réttlæti réttlæti, það þarf að tala rólega, stærðfræðilega, og hugsa 50 ár fram í tímann.
það að kaupa steik handa öllum í dag, fyrir 100 % kr, í stað þess að helmingur fái steik, hinn, kjúklingabringu, og eiga 15 % eftir til að eyða í að nota í rannsóknir til að auðvelda okkur að búa til ódýrari steikur eftir 50 ár fyrir alla, með ís í eftirrétt, hvort er réttara?
hver ákveður hver á meiri rétt á hverri % sem úthlutað er, og hvað má það kosta mikið áður en við hugsum, nei veistu, þessi 5 % sem fara aukalega í menntakerfið til að þau x % af nemendum sem falla í gegnum besta netið sem við höfum í dag standi sig jafnfætis hinum þegar kemur að mati á færni, væri betur borgið í að eyða 2 % í rannsóknum á betra menntakerfi, og 3 % í atvinnuleysisbætur fyrir þau sem ekki ná að finna sér vinnu vegna slaks gengis í skólagöngu sinni.
absúrd dæmi, en hugmyndin stendur, að bera sig saman við aðra er stór, stundum mikilvægur, stundum allt of kostnaðarsamur kostur/galli á mannskepnunni, hvenær eigum við að hugsa um okkur og hvenær um samfélagið.