Mannréttindavernd fatlaðs fólks

Árið 2006 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samning um mannréttindi fatlaðs fólks. Lögfræðingar, fólk úr fræðasamfélaginu og eðlilega fatlað fólk sjálft stóðu m.a. að þeirri vinnu. Ástæðan fyrir því að samningurinn varð til var sú að almennir mannréttindasamningar og almenn löggjöf landa heimsins var ekki talin duga til þess að tryggja og vernda mannréttindi fatlaðs fólks enda um að ræða stóran valdaminni hóp í samfélaginu sem býr ekki við sömu réttindi og ófatlað fólk. Ekki eru um að ræða ný réttindi heldur almenn mannréttindi sem samningurinn tilgreinir sérstaklega út frá stöðu fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn og valfrjálsu bókunina 2007. Fullgilding né lögfesting hefur ekki farið fram. Tugi landa hafa nú fullgilt og/eða lögfest samninginn, m.a. Svíþjóð og Danmörk. Ekki Ísland. Verið er að þýða samninginn nú í þriðja sinn en þýðingin hefur verið gölluð hingað til.

Öryrkjabandalag Íslands hélt í gær fund þar sem leitast var eftir afstöðu framboða til Alþingis 2013 til ýmissa þátta er snúa að samningnum og þá ekki síst hvort framboðin telji að fara eigi fullgildarleiðina eða lögfesta samninginn, hvernig megi tryggja í íslenskum lögum að bannað sé að mismuna á grundvelli fötlunar og hvernig megi stuðla að að því að ákvæði samningsins birtist í framkvæmd. Öryrkjabandalagið mun birta svör okkar í heild sinni en finnst mér mikilvægt að taka snúning á málinu hér.

Fullgilding eða lögfesting?

Í ályktun Bjartrar framtíðar kemur fram að við viljum beita okkur fyrir því að Íslendingar verði málsvarar mannréttinda, jafnréttis og friðar með róttækum hætti. Það þýðir í okkar huga að það er mikilvægt að horfa á málefni fatlaðs fólks sem mannréttindamál en ekki eingöngu velferðarmál. Jafnframt, líkt og samningurinn kveður á um, að sjá vanda fatlaðs fólks ekki sem einstaklingsbundinn galla þess heldur sem uppsprettu samfélagslegra hindrana sem þurfi að fjarlægja. Við teljum þ.a.l. að mikilvægast sé að sú leið sem verði valin tryggi sem best réttarstöðu fatlaðs fólks og þá vernd sem samningurinn felur í sér. Að fullgilda hann krefst lagabreytinga sem er nauðsynlegt er að okkar mati að fara út í, í ljósi þess hve réttarstaða fatlaðs fólks er að mörgu leiti veik á Íslandi. Jafnframt teljum við að með þeim hætti megi tryggja afdráttarlausari ákvæði um réttindi fatlaðs fólks en mögulega nást fram með samningnum sjálfum þar sem greinar hans geta verið efnismiklar og orðalag með þeim hætti að það megi túlka það margvíslega. Ef fullgildingarleiðin verður farin teljum við að farsælast væri að stjórnvöld fái óháða lögfræðinga á sviðum mannréttinda og sérfræðinga úr röðum fatlaðs fólks til þess að leggja fram, á grundvelli skýrslunnar, nákvæma útlistun á lagabreytingum sem hægt væri að leggja fram í heild sinni fyrir þingið.

Við viljum þó horfast í augu við það að sex ár eru liðin frá því að Ísland undirritaði samninginn og valfrjálsu bókunina. Síðan þá hefur verið unnin skýrsla um það með hvaða hætti þurfi að breyta lagarammanum svo hægt sé að fullgilda samninginn. Þó mikilvægar lagabreytingar hafi verið gerðar á grundvelli skýrslunnar er langt í land og óttumst við að sú vinna geti tekið of langan tíma. Við erum því opin fyrir að fara þá leið að lögfesta samninginn til þess að hraða því ferli að fatlað fólk búi við ríkari réttarvernd en leggjum áherslu á að leiðirnar tvær útiloka ekki hvor aðra, hægt er að fullgilda samninginn og lögfesta hann í kjölfarið eða öfugt.

Fræðsla og viðhorfsbreyting

Leitast var eftir svörum okkar um hvernig best væri að standa að kynningarvinnu. Grundvallaratriði hlýtur að teljast að samfélagið í heild sinni sé upplýst um samninginn og að um sé að ræða ákvæði sem kalla á ábyrgð okkar allra. Við leggjum þó áherslu á að fatlað fólk sjálft fái kynningu á samningnum, inntaki hans og þýðingu og hvernig hann mun hafa áhrif á íslenskan lagaramma. Jafnframt teljum við farsælt að fatlað fólk sjálft kynni samninginn fyrir öðru fötluðu fólki, í samstarfi við sérfræðinga á sviðum mannréttinda. Þannig teljum við að skapast geti valdeflandi aðstæður fyrir fatlað fólk þar sem það getur nýtt reynslu sína og innsæi til þess að dýpka skilning sinn á inntaki samningsins og hvernig megi beita honum til að ná framförum fyrir fatlað fólk á Íslandi. Rannsóknir á Íslandi sýna að mörgu fötluðu fólki og foreldrum fatlaðra barna skortir upplýsingar um réttindi sín en það hlýtur að teljast forsenda þess að hafa réttindi að vita af þeim.

Viðhorfsbreyting er langtímaverkefni sem getur farið fram með margvíslegum hætti, m.a. fræðslu um samninginn. Við teljum þó mikilvægt að hugmyndafræði samningsins einkenni allar ákvarðanir okkar með það að markmiði að leggja áherslu á rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs, sjálfsákvörðunar, þátttöku og áhrifa á öllum sviðum samfélagsins án aðgreiningar og útilokunar. Þannig megi með tíð og tíma breyta viðhorfum í samfélaginu með því að skapa aðstæður fyrir fatlað fólk til að sýna með beinum hætti að það er bara venjulegt fólk sem á að upplifa það sem sjálfsagðan hlut að búa við mannréttindi.

Bann við mismunun á grundvelli fötlunar og búsetu

Hvergi í íslenskri löggjöf er það tilgreint að ekki megi mismuna á grundvelli fötlunar eins og skýrt og ítrekað er kveðið á um Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Gera þarf lagabreytingar í þeim anda, t.d. með með því að bæta fötlun inn í jafnræðisreglu stjórnarskráarinnar eins og stjórnlagaráð hefur lagt til og að hafa þannig áhrif á lög um málefni fatlaðs fólks að þau verði ekki eingöngu þjónustulög heldur snúist um réttindi fatlaðs fólks.

Í kjölfar yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga hafa áhyggjur aukist af að fötluðu fólki sé mismunað á grundvelli búsetu, þ.e. að sveitarfélög séu ekki að veita sambærilega þjónustu alls staðar. Í 5. grein laga um málefni fatlaðs fólks kemur fram að fatlað fólk á rétt á þjónustu þar sem það kýs að búa. Ekki virðist það duga og taka þarf þessa stöðu til ítarlegrar skoðunar með það markmiði að koma í veg fyrir mismunun, auka skilvirkni og bæta þjónustana, m.a. með því að tryggja að lagaramminn og framkvæmdin sem ríki og sveitarfélög starfa eftir sé heildstætt. Nokkrar tillögur eru að myndast í þeim efnum inn á www.heimasidan.is. Í 19. grein samningsins er skýrt kveðið á um að fatlað fólk hafi rétt á að velja hvar það býr og fá þar þá aðstoð sem þörf er á.

Hverju skiptir eiginlega þessi samningur?

Stundum finnst mér umræða um stöðu fatlaðs fólk og réttindi okkar vera flækt út í hið óendanlega með flóknum hugtökum og fræðilegri nálgun sem fólk getur átt erfitt með að setja í samhengi. Flóknu hugtökin og fræðilega nálgunin eru mjög mikilvæg til að skoða samfélagið, gagnrýna það og ná framförum en svo er líka mikilvægt að geta útskýrt stöðuna með einföldum hætti. Og ég ætla að reyna að gera tilraun til þess.

Þessi samningur skiptir máli vegna þess að við sem erum skilgreind fötluð upplifum flest mismunun á hverjum einasta degi. Við upplifum mismunun af á grundvelli skerðingar okkar en stundum líka vegna þess að við tilheyrum öðrum valdaminni hópum, t.d. ef við erum konur og börn.

Mismununin getur falist í að það er talað við okkur eins og talað er við börn þó við séum fullorðin. Mismununin getur falist í að dagblöð eru rituð með þeim hætti að eingöngu sumir geta skilið þau eða hús eru hönnuð þannig að þau gera bara ráð fyrir fólki sem gengur um. Mismununin getur falist í að það þykir í lagi að segja við foreldra barns sem notar öndunarvél ,,er ekki bara betra að hann fái að fara (deyja)?” Mismununin getur falist í því þegar mælst er til þess að skilja fatlað fólk eftir í brennandi húsi svo ófatlaða fólkið nái að bjarga sér. Mismununin getur falist í að banna fólki að kaupa sér íbúð því það getur ekki skilið þinglýsinguna (hver skilur hana?). Mismununin getur falist í að konu með þroskahömlun er ráðfært frá því að kæra geranda í ofbeldismáli því hún sé ekki nógu trúverðug sökum skerðingar sinnar. Mismununin getur falist í því að fatlað fólk má ekki ættleiða börn því það sé börnum meira fyrir bestu að alast upp á stofnun fyrir munaðarlaus börn en að alast upp við ást, umhyggu og öryggi á venjulegu heimili. Mismununin getur falist í því að fatlað fólk kemst ekki á salernið þegar það þarf og sleppir því þá að drekka heilu og hálfu klukkustundirnar. Mismununin getur falist í því að skólastjóri vísar fötluðu barni frá því það sé svo erfitt að hafa það í skólanum. Mismununin getur falist í að fötluð manneskja fær ekki vinnu því yfirmaðurinn gengur út frá því að um sé að ræða vonlausan starfsmann. Mismununin getur falist í því að fatlað fólk fær að heyra meira um það hvað það kostar þjóðfélagið heldur en um hversu dýrmætt og mikilvægt það er.

Öll ofangreind dæmi eru raunveruleiki á Íslandi. Öll þessi dæmi eru brotabrot af allri þeirri mismunun sem á sér stað. Og þess vegna skiptir Samningur Sameinuðu þjóðanna öllu máli fyrir fatlað fólk og samfélagið allt.

One thought on “Mannréttindavernd fatlaðs fólks

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s