,,Ég er Garðbæingur sko!”

Ég var stödd fyrir utan verslun í heimabænum mínum, Garðabæ, að kynna Bjarta framtíð. Er ég býð ungri konu að skoða bæklinginn okkar þýtur hún framhjá en segir hátt og skýrt ,,Uuhh, nei, ég er Garðbæingur sko!” ,,Já, ég líka reyndar” segi ég í hálfum hljóðum. Í hennar huga kom líklega bara eitt til greina fyrir Garðbæinga; að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Ég kippti mér svosem ekki mikið upp við þetta þar sem ég er vön að vera ekki prótótýpan af nokkrum sköpuðum hlut en þetta fékk mig til að hugsa um það hvernig stjórnmálaskoðanir eru orðnar að ákveðnu stöðutákni og það finnst mér hættulegt. Ég hef aldrei fundið mig í neinum stórnmálaflokki og líf mitt og starf hefur gert það að verkum að ég hef átt erfitt með treysta þeim öllum og trúa. Þeir hafa brugðist væntingum mínum, niðurlægt mig með málflutningi sínum, tekið ákvarðanir sem hafa skaðað líf mitt, talað gegn sjálfum sér og ekki þorað að ögra hefðum og menningu af ótta við breytingar.

Ég var þó svo heppin fyrir einu og hálfu ári síðan að kynnast öðrum formanni Bjartrar framtíðar, Guðmundi Steingrímssyni (Garðbæingi, ótrúlegt en satt), í starfi okkar við innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar fyrir fatlað fólk á Íslandi. Í fyrsta skipti upplifði ég vinnubrögð stjórnmálamanns sem endurspegluðust í að hlusta með heilanum og hjartanu, hugrekki til þess að taka afstöðu með þeim hópi sem málið varðaði og sannfæringu til þess að ögra hefðum til þess að ná tilsettum markmiðum. Ég fann fyrir trausti og öryggi í þessu samstarfi þrátt fyrir að við værum í ólíkum hlutverkum og ekki alltaf sammála.

Ég tók þess vegna þá ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum að bjóða mig fram til alþingis fyrir Bjarta framtíð. Ég fann í fyrsta skipti raunverulega löngun til þess að taka þátt í stjórnmálum, að það gæti skipt máli og skilað árangri. Stjórnmálum sem snúast um breytt vinnubrögð, minni sóun og vesen, meiri fjölbreytni, stöðugleika og sátt. Þetta var erfið ákvörðun en vel þess virði.

Ég vona að sem flestir hafi hugrekki til að stíga út úr stöðluðum ímyndum stjórnmálanna, fylgja sannfæringu sinni og kjósa um breytingar fyrir þetta samfélag. Líka Garðbæingar. Því við erum alls konar. Tíminn er núna! Setjum x við A.

Freyja Haraldsdóttir, Garðbæingur og framkvæmdastýra

Í 2. sæti í suðvesturkjördæmi fyrir Bjarta framtíð

Birtist í Garðapóstinum 24. apríl 2013

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s